Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staðfesting rammasamnings um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja,.

528. mál
[21:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst geta þess að það hefur ekki tíðkast almennt að samningaviðræður við einstök ríki eða niðurstöður þeirra séu sérstaklega kynntar þinginu. En þegar hér er verið að ræða um meiri háttar breytingar þá getum við haft til hliðsjónar 21. gr. stjórnarskrárinnar sem setur því skorður hvenær menn geta gert samninga án aðkomu þingsins. Þar væri augljóslega hægt að hafa leiðsögn en í öðrum tilvikum kynni það að vera háð mati. Mér er ekki kunnugt um að það hafi komið til tals að taka upp aðra samninga eins og þann sem hv. þingmaður nefnir, en það er ekki augljóst að það myndi þjóna hagsmunum Íslands betur og heldur ekki augljóst að það myndi skerpa á skilaboðum okkar Íslendinga sem hafa verið mjög skýr til þessa varðandi afstöðuna til innrásarinnar í Úkraínu.