Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staðfesting rammasamnings um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja,.

528. mál
[21:22]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að grípa punktinn sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kom með hér áðan varðandi 6. gr. frumvarpsins en þar segir, með leyfi forseta:

„Í 6. gr. er hefðbundið ákvæði sem heimilar aðilum að semja um breytingar á samningnum með skriflegum hætti. Breyting þjóðréttarsamnings telst einnig fela í sér gerð þjóðréttarsamnings. Með sama hætti og segir í skýringum við 2. gr. er ekki gert ráð fyrir að slík samningsbreyting yrði lögð fyrir Alþingi eða forseta til staðfestingar nema um meiri háttar efnisbreytingu væri að ræða. Hún myndi þó, líkt og aðrir milliríkjasamningar, verða birt í C-deild Stjórnartíðinda.

Forseti. Hér er um að ræða framsal löggjafarvaldsins til framkvæmdarvaldsins. Það er verið að færa þetta vald frá ákvarðanatökuferli þingsins, hvort sem það er venja að ekki. Framsal á sér helst stað á tilteknum sérfræðasviðum. Sérfræðingar starfa vissulega frekar hjá stjórnvöldum en á Alþingi. Þú þarft ekki að vera sérhæfður í einhverju sérstöku til að komast inn á þing en fólk sem er menntað á tilteknum sviðum fer til stofnana og ráðuneyta sem vald er framselt til, af og til. Eitt sem ber að hafa í huga er að það má ekki vera of víðtækt framsal og það eru nokkur skilyrði sem þarf að uppfylla. Þegar kemur að þjóðréttarsamningum og milliríkjasamstarfi, af því að hér er komið inn á breytingu þjóðréttarsamnings, þá er meginreglan sú að ákvarðanir samninga geta aðeins skapað skyldur fyrir íslenska ríkið en ekki þegna eða borgara íslenska ríkisins og þær öðlast aðeins gildi að landsrétti ef samningurinn verður lögfestur samkvæmt stjórnarskrá. Svo er náttúrlega spurning hvort 2. gr. stjórnarskrárinnar komi í veg fyrir þetta. Þar er kveðið á um hvernig valdinu skuli vera skipt upp og þar er kveðið á um þrígreininguna, löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald, og hverjir eru handhafar hvers ríkisvalds fyrir sig. Samkvæmt EES-samningnum þá eru nokkrar ástæður til staðar þar sem leiddu til þess að það þurfti ekki stjórnarskrárbreytingu við innleiðingu á samningnum, það eru sex atriði sem ég ætla ekki að reifa hér.

Ég ætla bara að hvetja hæstv. ráðherra til þess að hafa þessi atriði í huga þegar kemur að lögfestingu þessa frumvarps af því að framsal valds er auðvitað ekki sjálfsagður hlutur. Við sem löggjafi þurfum að varast að framselja of mikið vald til framkvæmdarvaldsins enda erum við með stjórnarskrá, sem ég veit að ekki allir hér inni eru sammála um en hún er þó í gildi, og í 2. gr., eins og ég nefndi áðan, er kveðið á um þrígreiningu og ég túlka það ákvæði, það er náttúrlega bara hvernig ég túlka það, þannig að ráðherrar eiga einfaldlega ekki að vera þingmenn líka. Framkvæmdarvaldið er sér og svo er löggjafarvaldið sér og dómsvaldið sér og þegar ráðherrar gegna líka löggjafarstarfi þá verður enn þá erfiðara fyrir löggjafann til að sinna eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu. Við erum nokkur hér inni lögfræðingar, við lærum þetta í laganámi og mér finnst bara mikilvægt að minna á það góða nám sem við stundum við lagadeild af því að þetta eru mikilvæg atriði sem ber að hafa í huga við störf löggjafans og það er ekki verið að kenna okkur þetta til einskis. Það er vissulega stjórnskipuleg venja að ráðherrar eru líka þingmenn, sem sagt að framkvæmdarvaldið gegnir líka hlutverki löggjafarvalds, en hvenær ætlum við að viðurkenna það að stjórnskipuleg venja trompar ekki stjórnarskrá? Það virkar ekki þannig. Við lærðum þetta líka. Ég held að það sé bara tímabært að við opnum á það samtal um þrígreininguna og hvernig við ætlum að stunda það í framkvæmd, hvort við ætlum að gera það eða hvort við ætlum að stunda þessa stjórnskipunarvenju sem hér hefur tíðkast að eilífu, því að eins og ég sagði þá er þetta í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Það kemur 1. gr. og svo 2. gr., þannig að þetta er alveg mikilvægt ákvæði.

En ég ætla ekki að draga þessa umræðu á langinn, forseti, þannig að til þess að ljúka máli mínu ætla ég bara að hvetja hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson, til að hafa þau atriði framsals í huga sem ég var hér að telja upp og vona að þetta framsal sem hér um ræðir verði ekki of víðtækt og þetta gangi allt vel.