Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staðfesting rammasamnings um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja,.

528. mál
[21:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bara aðeins til að undirstrika nokkur grundvallaratriði varðandi það þingmál sem við erum með. Við erum hér sem sagt að fjalla um þingsályktunartillögu sem er um það að þingið samþykki gerð rammasamningsins þannig að hann verði á endanum staðfestur sem þjóðréttarsamningur. Við erum ekki að framselja neitt vald til neins. Við erum að tryggja það að samningar sem fara fram í framtíðinni á grundvelli þessa ramma sem hér hefur verið búinn um framtíðarviðræður geti orðið skilvirkari og í samræmi við þau meginmarkmið sem við höfum sett okkur. Hérna er einkum verið að ræða um heimildir okkar Íslendinga til þess til að mynda að veiða kvóta sem þjóðirnar hafa komið sér saman um innan færeyskrar lögsögu. Og eins og ég rakti í framsöguræðu minni þá hefur verið stefnt að því að ná rammasamningi um einfaldara fyrirkomulag þar sem samningsviðræður hafa til þessa verið töluvert þungar í vöfum.

Ég held að allar áhyggjur af því að með þessari þingsályktunartillögu, sem er sem sagt ekki nema þingsályktunartillaga og ekki nein lagabreyting, sé verið að framselja vald séu með öllu óþarfar.