Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staðfesting rammasamnings um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja,.

528. mál
[21:35]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni fyrir svarið. Það gleður mig að heyra að þetta sé það sem tíðkast. Mér sýnist af svörum hæstv. fjármálaráðherra að þetta muni auka skilvirkni þegar kemur að staðfestingu rammasamningsins. Svo eru náttúrlega líka önnur atriði sem ég er að pæla í — ég veit að þetta er síðasta svarið í þessum andsvörum en þetta er bara eitthvað sem ég er að velta fyrir mér — hvort þetta nýja samkomulag sem hér um ræðir sé í samræmi við það sem tíðkast í okkar nágrannalöndum, hvort þetta sé gert með þessum hætti eða hvort þetta fari fyrir þingið, af því að eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á er þetta nýja samkomulag víst eitthvað sem tíðkast annars staðar. Ég veit ekki hvort það tíðkast innan landanna í kringum okkur sem eru e.t.v. með sambærilega þjóðréttarsamninga við önnur ríki. En þetta eru atriði sem er vert að velta upp, enda er það okkar hlutverk hér sem löggjafa að velta upp spurningum og ræða mál sem við erum hér að samþykkja á okkar hæstv. Alþingi. Þetta er búið að vera rosalega gott samtal sem ég er búin að eiga hér við hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson af því að það er bara rosalega mikilvægt, eins og ég benti á áðan í fundarstjórn forseta, er rosalega brýnt og nauðsynlegt að þingmenn komi hingað upp og taki samtölin um frumvörpin eða þingsályktunartillögurnar sem fara í gegnum þingið af því að það eru bara alger forréttindi að geta rætt þessi mál og að fá að vera hluta af löggjafarvaldi Íslands. Takk kærlega fyrir þetta.