Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:54]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra nær ekki upp í nef sér af hneykslan, ekki yfir því að hér hafi ríkisstjórnin í raun svikið þau fyrirheit sem gefin voru með lagafyrirmælum árið 2018 heldur yfir því að það sé bent á þessa hluti. Lög nr. 38/2018 leggja ákveðnar skyldur á ríkissjóð til að fjármagna þessa þjónustu miðað við ákveðinn fjölda samninga á innleiðingartímabilinu og engir fyrirvarar eru um meðalkostnað hvers og eins samnings. Ég var að lesa hérna upp úr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli frá 24. mars 2021. Í þessu máli var það einmitt tregða ríkisins til að fjármagna þessa þjónustu sem varð til þess að sveitarfélag braut gegn manni sem var látinn bíða í meira en tvö ár eftir þjónustu sem hann átti skýlausan rétt til.

Seinni spurningin mín er þessi: Fyrst ekki var staðið við fyrirmæli bráðabirgðaákvæðisins á undanförnum árum, hvernig getum við þá treyst því að það verði gert í þetta sinn? Getur ráðherra staðfest að 145 samningar frá og með áramótum — ég minni á að það er lækkun upp á 27 samninga frá því sem nú á að gilda — (Forseti hringir.) þýði raunverulega 145 samningar en ekki bara rúmlega 90 eða 100 eða 110? Ef ráðherra getur ekki staðfest það hérna fyrirvaralaust, hvers vegna er hann þá að mæta með þetta frumvarp? (Forseti hringir.) Væri þá ekki bara heiðarlegra að hafa tölu í frumvarpinu sem ráðherra og ríkisstjórn treysta sér raunverulega til að standa við?