Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo merkilegt hvað orð geta þýtt í rauninni sama hlutinn en sagt gjörólíka hluti. Hér talar hæstv. ráðherra um að verið sé að framlengja bráðabirgðaákvæði. Það er ein leið til að líta á það. Það er líka verið að tefja innleiðingu. Það segir það sama og er dálítið neikvæðara gagnvart ríkisstjórninni en ég held að sé nær sanni vegna þess að innleiðing á NPA samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu átti að eiga sér stað á árabilinu 2018–2022. Það er verið að tefja það tímabil til 2024. Það er verið að láta það taka sex ár sem átti að taka fjögur. Þetta er ekki framlenging. Framlenging er ívilnandi aðgerð. Hér er tafaleikur. Ég las það út úr andsvörunum við hv. þm. Jóhann Pál Jóhannsson að þetta snerist allt um fjárheimildir. Hér hefði komið í ljós við innleiðinguna að þetta kostaði meira en ráð var fyrir gert. Það ætti ekki að koma neinum á óvart vegna þess að við töluðum um það við afgreiðslu frumvarpsins. Það var ítrekað á það bent að bæði væri heildarkostnaðurinn vanáætlaður og að það væri ætlast til þess að sveitarfélögin legðu of mikið af mörkum. Þannig að það að hér fjórum árum síðar sé ríkisstjórnin enn ráðalaus gagnvart kostnaðinum sem lá fyrir frá upphafi að yrði meiri en reiknað var með segir náttúrlega sína sögu. Þess vegna langar mig að spyrja: Hefur hæstv. ráðherra einhverja fullvissu fyrir því, einhverja tryggingu fyrir því, eitthvert vilyrði fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra muni ekki standa í vegi fyrir fullri fjármögnun þessara samninga á næstu tveimur árum? Er þetta í alvöru eða er þetta einhver sýndarmennska?