Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:13]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langaði til að taka þátt í þessari umræðu sem er nauðsynleg og skiptir máli, ekki bara hér heldur fyrir sveitarfélögin í landinu og fyrir þá aðila sem hafa þurft á þessari þjónustu að halda. Við þekkjum umræðuna sem hefur átt sér stað hjá sveitarfélögunum um verulegan halla á þessum málaflokki og það hefur komið í ljós, samkvæmt útreikningum sem hafa verið birtir, að það er verið að ræða um milljarða halla á hverju ári á þessum málaflokki og NPA-samningar eru auðvitað hluti af því. Mig langar til að fá að fagna því að það sé verið að framlengja þessu ákvæði, það skiptir máli. Mig langar síðan að fara aðeins yfir þetta holt og bolt, eins og þetta snýr við mér sem fyrrverandi sveitarstjórnarmanni og hafandi síðan fengið góða kynningu á þeirri skýrslu sem Haraldur Líndal vann, um endurskoðun laga um þjónustu við fatlað fólk. Þar er, með leyfi forseta, kafli um kostnaðarmat sem mig langar til að fá að lesa:

„Með lögum nr. 152/2010, sem tóku gildi 1. janúar 2011, var gerð breyting á lögum nr. 59/1992 með hliðsjón af því að sveitarfélög tóku yfir þjónustu við fatlað fólk 1. janúar 2011. Gerð var ítarleg kostnaðaráætlun vegna yfirtöku sveitarfélaga á þjónustunni, sem samkomulag ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða, frá nóvember 2010, byggði meðal annars á. Frá þeim tíma voru gerðar breytingar á lögunum fram til þess að ný lög, nr. 38/2018 tóku gildi.

Árið 2018 tóku gildi ný lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Við þá lagasetningu var stuðst við þá þróun sem átt hafði sér stað í þjónustu við fatlað fólk, þjóðfélagsumræðu varðandi réttindi fatlaðs fólks, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland undirritaði 30. mars 2007 og var fullgiltur 23. september 2016, og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem var lögfestur með lögum nr. 19/2013.“

Síðan kemur feitletraður texti:

„Svo virðist sem töluverður misbrestur hafi verið á því að kostnaðarmat hafi farið fram eða það hafi verið metið að laga- og reglugerðarbreytingar og stjórnvaldsákvarðanir varðandi málefni fatlaðs fólks hefðu ekki kostnaðarauka í för með sér fyrir sveitarfélögin alveg frá því að lögin nr. 152/2010 tóku gildi. Á þetta einkum við um lögin nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.“

Það eru þau lög sem virðast hafa sett þennan málaflokk á hliðina. Og ef ég fer aðeins dýpra ofan í þessa skýrslu kemur fram þar að á árinu 2018 var halli hjá sveitarfélögunum upp á 2,9 milljarða sama ár og þau tóku yfir þessa þjónustu. 2019 var hallinn tæpir 5,7 milljarðar, 2020 var hallinn 8,9 milljarðar. Það kemur ekki fram í þessari skýrslu hver hallinn var 2021 né heldur vitum við hver hallinn verður á árinu 2022. Það hafa heyrst tölur frá 10 milljörðum upp í 13 á hverju ári, segjum bara 10 milljarðar. Það kemur fram í skýrslunni að halli hafi verið 17,5 milljarðar hjá sveitarfélögunum á þriggja ára tímabili og ef við bætum við sirka 10 á þessum tveimur árum sem liðin eru síðan þessar tölur lágu fyrir þá bætast 20 milljarðar við þannig að hallinn er orðinn tæpir 40 milljarðar, uppsafnaður halli frá því að lögin frá 2018 tóku gildi. Þetta eru auðvitað alveg ótrúlega háar tölur sem er verið að tala um þarna og það er ekki óeðlilegt að sveitarfélögin kveinki sér undan þessu ef þetta er staðan.

Það kemur líka fram að þegar þessi lög voru samþykkt var horft til þess að sveitarfélögin borguðu 75 og ríkið 25 en jafnframt var möguleiki á því að ríkið myndi bæta við 5% ef staðan yrði önnur en upphaflega var gert ráð fyrir. En ríkið hefur ekki verið tilbúið til þess þannig að málaflokkurinn af hálfu ríkisins hefur verið sveltur og sveitarfélögin hafa þurft að borga pakkann. Við heyrðum hér um sveitarfélag sem var dæmt til að gera þetta burt séð frá því hvort framlag ríkisins væri til staðar eða ekki og þannig hefur það verið. Sveitarfélögin hafa verið að gera svokallaðar beingreiðslusamninga til að tryggja fötluðum einstaklingum þá þjónustu sem þeim ber og okkur ber að veita. Það er bara eitthvert reiptog á milli ríkis og sveitarfélaga um þetta.

Síðan er náttúrlega annað í þessu. Lögin frá 2018 gera ráð fyrir miklu sértækari búsetuúrræðum og við erum bara hálfdrættingar þegar kemur að því. Við eigum eftir að byggja helminginn af þessum sértæku úrræðum á næstu fimm til sjö árum. 486 stendur í skýrslunni. Maður veltir fyrir sér: Hvað kostar það? Hversu marga tugi milljóna kostar að byggja sértækt úrræði fyrir fatlaðan einstakling sem verður síðan á NPA-samningi? Erum við að tala um 60 milljónir, 70 milljónir eða 100 milljónir? Erum við að tala um að þetta kosti 40 milljarða til 100 milljarða? Ég veit það ekki. Þetta eru ótrúlegar tölur sem eru þarna og maður veltir því fyrir sér hver eigi að borga þetta.

Þegar fjárlögin voru gerð síðast var talað um 2,2 milljarða inn í þetta. Þetta kemur allt svo vel fram í skýrslunni. Það var talað um að hver samningur myndi kosta 13 milljónir en þeir kostuðu 30 milljónir. Því hefur verið haldið fram hér í ræðustól Alþingis að enginn hafi gert athugasemdir við þessa útreikninga en samkvæmt umsögnum sem lagðar voru fram um þetta frumvarp frá 2018 gerði Reykjavíkurborg t.d. alvarlegar athugasemdir við þetta og Alþýðusambandið gerði það líka þannig að það var ekki þannig að ekki væru gerðar athugasemdir við þá útreikninga sem lágu til grundvallar þeim lögum sem samþykkt voru 2018. Það voru varnaðarorð sem lágu fyrir strax á árinu 2018.

Ég verð að lýsa yfir undrun minni þegar hæstv. ráðherra nefnir hér að það þurfi að fara ofan í saumana á því hvort sveitarfélögin hafi uppfyllt þessa 15 klukkustunda skyldu eða það þurfi að skoða launahækkanir. Hvað á hæstv. ráðherra við? Að sveitarfélög hafi ofborgað fólki sem er að þjóna fötluðum einstaklingum? Er virkilega verið að halda því fram að sveitarfélögin hafi farið offari í launabreytingum? Það er bara þannig að sveitarfélög hafa borgað lægstu laun á Íslandi. BSRB-hópurinn hjá sveitarfélögunum er lægst launaði hópur á Íslandi. Ég er því svolítið hissa á þessum orðum vegna þess að ég er búinn að heyra þau áður hérna; kannski gætu sveitarfélög uppfyllt frekar þennan samning ef þau hefðu bara borgað lægri laun. Ég er hissa á svona orðræðu sem á sér stað hérna og veit ekki hvort hæstv. ráðherra er að meina þetta en sveitarfélög hafa ekkert getað vikist undan því að standa við þessa samninga þrátt fyrir að ríkið hafi ekki komið með það framlag sem lofað var. Ég er ekki löglærður maður og ég geri mér ekki grein fyrir því hvort það var upphæðin sem átti að ráða eða hvort það var fjöldi samninga sem átti að ráða. En það var skrifað inn í þetta að það átti að vera búið að negla niður 172 samninga árið 2022 en það hefur ekkert gengið eftir. Það hefur ekki einu sinni verið náð 100 samninga markinu á þessum tíma. Við megum ekki láta þennan málaflokk vera bitbein á milli ríkis og sveitarfélaga, hvernig við ætlum að þjónusta fatlaða einstaklinga. Það má ekki vera þannig. En því miður hefur þetta verið þannig alveg frá því að samningurinn var gerður. Hann fór strax í undirballans. Með einhverjum hætti verðum við að þora að horfast í augu við það án þess að vera að kenna einhverjum um. Því var alltaf haldið fram þegar málaflokkurinn var færður yfir að ríkið myndi flytja með fjármagn sem dygði og á hverjum tíma þá á auðvitað ríkið, í gegnum jöfnunarsjóð, að skaffa það fjármagn sem dugar. Ekki bara eitthvað út í loftið. Sveitarfélög verða auðvitað að fá peninga til að reka þennan málaflokk, annaðhvort með auknum tekjum eða í gegnum jöfnunarsjóðinn.

Við sjáum núna hugsanlega einhverja breytingu vera gerða í næsta fjárlagafrumvarpi. Hæstv. ráðherra nefndi hér 5 milljarða. Miðað við þær tölur sem koma fram í skýrslunni þá dugar það ekki þannig að ég held að við verðum að halda áfram að skoða þetta og það dugar ekki, virðulegur forseti, að halda því fram að sveitarfélögin geti þá bara lækkað launin í þjónustu við fatlað fólk.