Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:40]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þurfum að auka skilvirkni. Ég er svo sammála hv. þingmanni um það. Þekkjandi það að hafa búið erlendis í nokkur ár, af því að við erum oft að gagnrýna Evrópu fyrir skrifræði, þá var miklu auðveldara fyrir mig að flytja út og aðlagast því landi sem ég flutti til heldur en að flytja heim aftur. Þá virkilega tók skrifræðið við þegar ég kom heim til Íslands aftur. Við erum svo fá og við getum lagað þetta. En við erum greinilega ekki mikið að vinna í þessu. Það eru alls konar hlutir sem við getum gert hvað þetta varðar og ég held að mörg okkar séu orðin meðvituð um að við getum staðið okkur betur. Við þurfum bara fyrst og fremst að horfa á þjónustuna sem við erum að veita, ekkert endilega hver veitir hana heldur bara að einstaklingurinn fái þá þjónustu sem honum ber. Það skiptir mig engu máli hvort það er opinber aðili sem veitir þjónustuna eða hvort það er einhver annar sem veitir þjónustuna heldur bara að þjónustan sé veitt. Við þurfum að horfa fyrst og fremst á það. Sá aðili sem veitir þjónustuna þarf annaðhvort að fá fjármuni til þess í gegnum framlag, í gegnum skatta, eða hafa heimildir til að afla sér tekna með einhverjum öðrum hætti. Það er nauðsynlegt að við horfum fyrst og fremst á hver þjónustan er og að einstaklingurinn fái hana. Ég þekki það, hafandi verið í áratugi í sveitarstjórnum, að íbúunum heima hjá mér er alveg sama hvort það er ríkið sem á að reka heilsugæsluna, alveg sama. Þeir skammast bara í sveitarstjórninni fyrir að sjá ekki til þess að þjónustan sé veitt.