Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[23:03]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Það eru fleiri atriði, það eru fleiri þjónustuþættir sem hafa verið færðir til sveitarfélaganna á undanförnum árum, sem hefur að mínu mati verið til hins betra þar sem það fer vel á því að sveitarfélögin sjái um alla helstu nærþjónustu við fólk. Það er hins vegar viðvarandi vandamál að því fylgir ekki fjármagn til sveitarfélaganna. Lausnin á þessu er náttúrlega fyrst og fremst sú að þetta verði einfaldlega fjármagnað og að þetta verði fjármagnað með þeim hætti að það sé gulltryggt að allri þörf fyrir samninga af þessu tagi sé mætt öllum stundum. Það er auðvitað lausnin sem við eigum að nota núna. Hins vegar opnar þetta á ákveðna umræðu um ýmislegt annað varðandi skiptingu þjónustuveitingar og kostnaðar á milli ríkis og sveitarfélaga, sem er sannarlega stór umræða. En það sem við Píratar höfum talað mjög skýrt fyrir er að tekjustofnar sveitarfélaganna verði auknir, þeim verði fjölgað og annað slíkt, sem gefst kannski ekki mikill tími til að ræða hér akkúrat núna. En fyrir mér er svarið við spurningu hv. þingmanns einfalt: Við eigum bara að fjármagna þetta samkvæmt þörf, ekki setja kvóta á þessi mannréttindi frekar en önnur.