Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[23:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ýmislegt hefur komið fram í þessari umræðu sem ég ætla ekki að endurtaka. Mig langaði að nefna nokkur atriði sem ég hef ekki heyrt jafn mikið. Fyrst langar mig samt að grípa á lofti atriði sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir nefndi undir lok ræðu sinnar áðan. Þetta fer allt eftir því hvaða viðmiðunarpunkt við erum að skoða. Hæstv. ráðherra segir að hér sé verið að framlengja og fjölga samningum. Alveg eins er hægt að segja að hér sé verið að tefja og fækka samningum vegna þess að í gildandi lögum segir að árið 2022 verði allt að 172 NPA-samningar. Í frumvarpinu segir að árið 2023 verði þeir allt að 145. Það er 15% lægri tala en 172. Eina ástæðan fyrir því að ráðherra getur sagt að eitthvað sé að hækka er sú að ríkisstjórnin er búin að draga lappirnar hvert einasta ár frá því að Alþingi samþykkti þessi mikilvægu tímamótalög.

Hvernig hefur það verið gert? Mig langar aðeins að bakka aftur til ársins 2018, vegna þess að það mátti næstum skilja ráðherra sem svo að það hafi komið flatt upp á ríkisstjórnina hvað þetta væri viðamikið verkefni og kostnaðarsamt. Grípum niður í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gerði í fyrsta lagi mjög skýra kröfu um að kostnaðarskipting á milli sveitarfélaga og ríkis yrði leiðrétt þannig að ríkið tæki 5% meira á sinn reikning, ríkið myndi greiða 30% fyrir þjónustuna en ekki 25%. Við þessu var ekki orðið. Það átti að endurskoða og meta reynsluna að tveimur árum liðnum eins og kom fram í samskiptum ráðuneytisins við velferðarnefnd á sínum tíma. Nú eru fjögur ár liðin og hillir loksins undir að starfshópur skili einhverju mati, sem ég vona að verði staðfesting á því sem Samband íslenskra sveitarfélaga sagði á sínum tíma. Það væri þá auðvitað grætilegt að svo langan tíma hefði tekið að komast að niðurstöðu sem okkur öllum hefði átt að vera ljós frá upphafi. Það sem þetta hefur kostað er að sveitarfélögin hafa þurft að brúa mismuninn úr eigin vasa. Þeim hefur ekki verið mætt að jafn miklu leyti með þann kostnað sem þarf til að tryggja þessa þjónustu. Hvað þýðir það að sveitarfélög beri þennan kostnað? Það þýðir einhverja milljarða sem hefðu annars farið í aðra þjónustu, einhverja grunnþjónustu sveitarfélaga úti um allt land. Við erum að tala um þjónustuna sem stendur fólki næst, þjónustuna sem allir íbúar sveitarfélaganna reiða sig á, sem skerðist vegna þess að fjármálaráðuneytið vanmat kostnað við frumvarp um NPA og neitar að horfast í augu við raunveruleikann.

Fólkið sem hvatti þingheim til að átta sig á raunveruleikanum árið 2018 var fjölmargt, fátt kannski jafn reynslumikið af umfangi þjónustunnar og NPA-miðstöðin sem skilaði nokkuð góðri umsögn og hefur æ síðan skilað umsögnum við fjármálaáætlun, fjárlög og alltaf þegar verið er að breyta einhverju í þessum lögum, og haldið sömu sjónarmiðum á lofti vegna þess að þetta var jafn augljóst 2018 og það er í dag og hefur ekkert lagast. NPA-miðstöðin gerði sérstaklega athugasemdir við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins þar sem hún vakti einmitt máls á þessu lykilatriði varðandi kvótasetningu, að verið væri að setja kvóta á fjölda NPA-samninga. Oft dreymir mig um heim þar sem við getum samþykkt lög sem breyta heiminum bara svona [Þingmaður smellir fingrum.]. En það virkar ekki þannig. Fólk sem þarf NPA-samninga verður ekkert 145 talsins þó að við setjum það í lög. Þessi lög þurfa að laga sig að einhverjum raunveruleika. En það sem NPA-miðstöðin benti á er að það ætti auðvitað ekki að vera nein tala þarna inni. Þau hafa náttúrlega haldið áfram að benda á að þessi tölusetning eigi ekki erindi í lögin en eru búin að meta hver þörfin til langs tíma gæti verið. Þau skiluðu inn umsögn við fjárlagafrumvarpið, sem er til umfjöllunar í fjárlaganefnd, þar sem þau miða við stöðu mála í Noregi og telja líklegt að heildarfjöldi samninga muni eftir einn eða tvo áratugi — þau eru ekki bjartsýnni en svo á fulla innleiðingu þessa kerfis en að gefa ríkisstjórninni 10–20 ár, en vonandi verður einhver betri komin í millitíðinni sem slær aðeins í klárinn — liggja einhvers staðar á bilinu 200–250. Mér finnst þetta ekkert ósennilegt og í samræmi við ýmsar vísbendingar sem við fengum í umfjöllun málsins 2018. Það segir okkur að þegar þessum innleiðingarfasa ráðuneytisins verður lokið, ef honum lýkur þá einhvern tímann í því að það verði 172 samningar, þá verður gat upp á 30–80 samninga miðað við þá þörf sem er í samfélaginu. Aftur, þá ætti það ekki að vera viðmiðið, ekki ætti að setja einhverja tölu í lögin heldur eru þetta réttindi sem fólk á bara að geta sótt sér.

Þar erum við kannski komin að öðru atriði sem NPA-miðstöðin benti á og er svolítið hollt að halda til haga vegna þess að eftir því sem frá líður fer fólk að verða samdauna orðræðunni sem kemur frá stjórnarliðum. Það er t.d. nánast rangnefni — ég segi bara, eins og NPA-miðstöðin árið 2018, að bráðabirgðaákvæði um innleiðingarferli NPA sem hér er lagt til að tefja um tvö ár í viðbót er ekki innleiðingarferli vegna þess að innleiðingarferlið byrjaði 2011. Því lauk þegar lög um NPA voru samþykkt. Innleiðingin var tilraunaverkefni sem bjó t.d. til þá sérþekkingu sem er innan húss hjá NPA-miðstöðinni, verkefni sem stóð frá árinu 2011 og lauk þegar NPA-lögin voru samþykkt. Þannig að þetta innleiðingarferli sem núna á að teygja í tvö ár í viðbót — ef við hefðum verið að vinna í fullu samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þá hefði ekki verið neitt bráðabirgðaákvæði um innleiðingartíma vegna þess að honum var lokið. Það var búið að prufukeyra þetta og komin reynsla. Það þurfti bara að gera þetta.

Síðan verð ég að segja, forseti, að ég staldra dálítið mikið við þessa orðræðu hæstv. ráðherra um að fjárveitingar til þessa málaflokks séu einhvern veginn miklu meira meitlaðar í stein en nokkrar aðrar fjárveitingar sem ég hef tekið eftir í opinberum fjármálum. Auðvitað er það svo að opinberar stofnanir og ráðuneyti eiga ekki að fara fram úr fjárheimildum, en það þarf samt að una þeim því að þurfa stundum að bregðast við einhverjum aðstæðum í samfélaginu sem verða til þess að kostnaður eykst. Ef veikindi aukast í samfélaginu þá eykst kostnaður spítalans. Hann lokar ekki dyrunum á einhverjum tímapunkti og segir bara: Nei, sorrí, það er uppselt. Ef börnum fjölgar og kostnaður við grunnskóla eykst umfram það sem fjárheimildir gerðu ráð fyrir þá er honum ekki skellt í lás og sagt: Fyrirgefið, umframbörn, þið þurfið bara bíða. Hér hafa líka verið nefnd stuðningsúrræði við fólk sem langar að kaupa sér rafbíla eða aðila sem framleiða hér kvikmyndir, erlenda aðila sem koma og fá stuðning til kvikmyndagerðar. Þetta eru allt saman kerfi sem eru með þann sveigjanleika innbyggðan að settar eru almennar reglur og ef þörfin, vinsældirnar eða nauðsynin á auknum fjármunum verður að raunveruleika þá er brugðist við því.

Þess vegna velti ég fyrir mér, forseti — það er nú gott að það er enn þá alla vega einn þingmaður úr velferðarnefnd hér í salnum, hv. þm. Lenya Rún Taha Karim — hvort velferðarnefnd ætti að skoða á næstu dögum að breyta einfaldlega orðalagi frumvarpsins og sjá hvort við náum ekki saman um að í stað þess að kveðið sé á um að á þessum tveimur árum sem um er rætt verði allt að 145 samningar og 172, verði einfaldlega sagt að það verði a.m.k. þessi fjöldi. Þar með er rétturinn fyrir hendi hjá einstaklingunum en byggir ekki á einhverjum fjárheimildum. Þar með þarf ríkið einfaldlega að tryggja að fjármunir fylgi þannig að sá vilji þingsins nái fram að ganga að fjöldi samninganna nái einhverri ákveðinni tölu. Staðan í dag, með rétt um 90 samninga undir lok árs þar sem þeir áttu að vera 172, sýnir auðvitað bara fullkomið sinnuleysi af hálfu allra í ríkisstjórninni og er óboðleg meðferð á málaflokki sem á að sýna þá virðingu að fjármagna á þann hátt að hann komi ekki niður á mannréttindum fólks.

Svo einfalt er það og ég held að þessi einfalda orðalagsbreyting hljóti að vera eitthvað sem við náum saman um núna á næstu dögum, nema fólk sé í alvöru sátt við og tilbúið til að láta kvótasetja mannréttindi og láta fatlað fólk bíða og bíða eftir réttlætinu.