Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

Störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Um jólin eru glæpasögur vinsælar en ein glæpasaga, þ.e. glæpasagan endalausa, hefur ekki enn verið skrifuð, það er enn verið að skrifa hana. Upphaf hennar var við staðgreiðslu launa árið 1988 en þá voru lífeyrislaun TR skattlaus og ekki skert og afgangur af persónuafslætti upp í lífeyrissjóðslaun. Þá fljótlega hófst fjárhagslegt ofbeldi gagnvart þeim sem höfðu safnað í lögþvingaðan eignarupptökuvarinn lífeyrissjóð. Láglaunafólk með 400.000 kr. á mánuði við starfslok mátti þakka fyrir að fá rétt rúmar 200.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóði. Þetta þótti síðar meir hinn versti glæpur og það varð að refsa þessu fólki með skerðingu á lífeyri frá TR. Glæpurinn var sá að fara að lögum og borga í lífeyrissjóð og því ætti þetta aldraða fólk ekki rétt á fullum lífeyri frá TR. En auðvitað varð einnig að refsa þessu fólki og uppreikna greiðslu þeirra frá TR með vísitölubrellum en ekki launavísitölu. Með því var hægt að hafa af þeim að núvirði um og yfir 100.000 kr. á mánuði eftir skatta. En auðvitað varð að sýna þeim smávægð og greiða öldruðu fólki, sem hafði byggt upp okkar ríka land, smáumbun í formi jólabónuss og orlofs. En þeim sem höfðu brotið svo gróflega af sér að fara að lögum og borga í lífeyrissjóð varð að refsa, fyrir þann glæp varð að skerða orlofið og jólabónusinn gróflega og af stórum hópi varð að taka hann allan því að það hafði safnað allt of miklu í lífeyrissjóð. Svo var auðvitað aldrað fólk í opinberum störfum sem fékk sín laun að fullu greidd við starfslok og óskert til dauðadags.

Aldrað fólk fékk ekki krónu frá þessari ríkisstjórn í Covid. Aldrað fólk fær ekki krónu skatta- og skerðingarlaust fyrir jólin, aldrað fólk framdi þann glæp að vera ekki á forgangslista ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna í ósköpunum greiðum við ekki þeim konum, þetta eru aðallega konur, sem hafa eingöngu ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins 60.000 kr. skatta- og skerðingarlausar bætur, jólabónus?