Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við munum síðar í dag ræða um fjárlög fyrir árið 2023 við 2. umr. eftir að fjárlaganefnd skilaði af sér meirihlutaáliti sínu eftir umfjöllun nefndarinnar. Það lá strax fyrir við framlagningu fjárlagafrumvarpsins að útgjaldaaukning ríkissjóðs er orðið fullkomlega stjórnlaus. Það lá strax fyrir að það væri ekki bara verið að setja met í útgjaldaaukningu milli ára í milljörðum talið heldur hlutfallslega líka. Það met var styrkt enn og bætt með þeim viðbótartillögum sem fjármálaráðherra gerði í gegnum nefndina við 2. umr. Ég óskaði eftir því, virðulegur forseti, í pontu í liðinni viku, í ljósi þess að þessi 51 milljarðs útgjaldaauki sem þá var lagður til milli umræðna var tillaga hæstv. fjármálaráðherra, að við þingmenn ættum kost á því að ræða við fjármálaráðherrann en ekki bara framsögumann nefndarálits hér í dag. Mér sýnist að nefndin hafi bætt við sirka 2 milljörðum sem er brotabrot af heildarviðbótinni. (Gripið fram í.) 7 milljörðum, það er enn hærri tala, virðist vera, en komum að því síðar. Það er verið að setja Íslandsmet í útgjaldaaukningu, bæði hvað milljarða varðar og hlutfallslega. Ef við setjum þetta í samhengi við íþróttir, ef hæstv. fjármálaráðherra væri að bæta heimsmetið í langstökki jafn mikið hlutfallslega og útgjaldaaukningin er á milli ára, þá væri hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson að stökkva 10 metra og 27 sentímetra. Við vitum það öll að það getur það enginn. Hæstv. fjármálaráðherra nær þessum ótrúlega útgjaldaauka í þessu furðulega samstarfi sem við sitjum uppi með.

Virðulegur forseti. Við þingmenn stöndum frammi fyrir því að taka afstöðu til fjárlaga þar sem er verið að setja Íslandsmet í útgjaldaaukningu og það er algjört lágmark að við eigum þess kost að ræða við hæstv. fjármálaráðherra því að það liggur fyrir að í öllum meginatriðum eru þær tillögur sem bætast við á milli umræðna tillögur hæstv. ráðherra en ekki nefndarinnar.