Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fyrir svarið. Mig langar til að ýta á eftir í þessu samhengi varðandi stöðu heilbrigðismála í landinu, hvort hún geti ekki tekið undir með mér að það er augljóst að heildarfjárveiting í þennan málaflokk er langt undir því sem þekkist í löndunum í kringum okkur ef við skoðum til að mynda þjóðartekjur og hvort fólk sé virkilega á þeirri skoðun í svona litlu, strjálbýlu og fámennu landi að við getum gert hlutina svona margfalt betur en aðrir.

En mig langaði líka til að nýta tækifærið til að fara aðeins meira inn í pólitíkina hér vegna þess að hv. formaður fjárlaganefndar situr líka í Vinstri grænum, stjórnmálaflokki, og aðeins að fá fram skoðanir á á þeirri framsetningu í þessum fjárlögum að allt aðhaldið í þeim bitnar á almenningi í formi krónutöluhækkana. Við erum m.a. að sjá settar fjárhæðir útgjaldamegin núna í breytingartillögum en það er ekkert komið inn á tekjuhliðinni. Og það er viljandi tekin sú afstaða að fara til að mynda ekki inn í þá geira samfélagsins sem upplifa metarðsemi. Þá er ég til að mynda að tala um þegar kemur að skattlagningu fjármagns, veiðigjald og þess háttar, og ég veit alveg að svarið er oft: Ja, við höfum gert eitthvað í gegnum tíðina. En staðan núna snýst um þensluna í dag og hvar svigrúm er til staðar og það er ákveðið að fara þá leið að hækka krónutölugjöldin á almenning í staðinn fyrir að fara í sértæka tekjuinnheimtu. Það er líka ákveðið til að mynda að tvöfalda aðhaldsprósentuna á grunnþjónustu eins og við vitum í hv. nefnd, til að mynda löggæslu og þess háttar þar sem er ekki svigrúm og meiri hluti hv. fjárlaganefndar hefur þurft að koma inn með sértækar mótvægistillögur til að vinna á móti þessu. Þannig að ég vildi kalla eftir til viðbótar við þessa spurningu um heilbrigðismálin hvort henni þyki það eðlileg forgangsröðun í svona ástandi að fara í almennar gjaldahækkanir í staðinn fyrir að fara í sérstaka sjóði þar sem við höfum svigrúm.