Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Eins og ég sagði áðan og tek undir — ég byrja þar sem var endað varðandi löggæsluna og aðhaldið þar — ég tel að það sé óskynsamlegt, ekki síst þar sem þetta er í sjálfu sér ekkert ósvipað og heilbrigðisþjónustan og annað slíkt, að fyrst og fremst eru þetta laun og álagið hefur verið mikið. Þess vegna beinum við því til ríkisstjórnar við gerð fjármálaáætlunar að þetta verði skoðað, þ.e. aðhaldið á löggæsluhlutann.

Varðandi krónutölugjöldin. Ég hef alltaf talið að þau eigi að fylgja verðlagi. Ég hef alltaf talið það eiga að vera þannig en ekki að gerast með einhverju hoppi; hækka þau stundum og stundum ekki. Og þau bitna auðvitað alltaf á öllum, það er alveg hárrétt. Það getur vel verið að það þurfi að koma til einhverra mótvægisaðgerða.

Jú, ég stend alveg fyrir það sem Vinstri græn — ég hef sagt það hér áður í pontu að ég væri til í annars konar skattheimtu. Ég er ekkert viss um að það myndi hljóti hljómgrunn hjá öllum þeim sem ég starfa með. Ég hef líka talað um hvalrekaskatt, eins og fleiri, t.d. á uppsjávarfiskinn. En í ljósi þess hvernig staðan er nú alla vega þá er það ekki gert. Ég tel að það sé samt sem áður ekkert útilokað og ég hef áður vísað í þær tillögur sem eru til vinnslu hjá hæstv. matvælaráðherra, það er ekkert sem útilokar að það geti ekki þurft að koma til einhverrar slíkrar skattheimtu og það sem verið er að vinna í stóru nefndinni geti ekki þýtt að það geti ekki eitthvað gert í millitíðinni.

En að öðru leyti þá held ég að hv. þingmaður átti sig á því að þegar maður er í flóknu samstarfi þá þarf að semja um hlutina og niðurstaðan er þessi. (Gripið fram í.)