Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi frítekjumarkið. Þetta er partur af breytingu á stóra kerfinu, svo það sé sagt. Þetta er einn þáttur í því. Við erum líka, hv. þingmaður, í samtali við Öryrkjabandalag Íslands, Þroskahjálp og fleiri samtök, þannig að það er ekki allt Flokki fólksins að þakka að eitthvað gerist. Þó að við leggjum ekki fram tillögur út og suður erum við í miklu samtali við viðkomandi aðila og þessar tillögur eru m.a. byggðar á því sem hluti af stórri breytingu.

Varðandi heimildina um sölu Íslandsbanka þá tel ég að það sé mikilvægt að hafa hana inni. Það eru áform um að selja Íslandsbanka. Það eru ekki áform um að selja Landsbanka en það eru áform um að selja Íslandsbanka og þrátt fyrir að koma eigi inn breyting á því formi, hvernig það verði gert, þá fyndist mér ekki hreinlegt ef við værum ekki með þetta inni og ætluðum að kalla eftir því einhvern tíma seinna. (Gripið fram í.) Síðan vil ég bara segja að ég hef alveg haft hugmynd um það hvernig við eigum að gera það en ég veit ekki hvort það er framkvæmanlegt, að selja hlutinn í Íslandsbanka, en ég hef komið með þá hugmynd hvort við ættum að gera það með svipuðum hætti og við veljum fjármálaráð, að velja eitthvert slíkt ráð til að fara með þessa eign okkar. Ég hef ekki hugmynd um hvort það er framkvæmanlegt eða hvað, en alla vega væri einhvers konar pólitísk sátt um það hverjir væru valdir til að gera það á meðan ferlið hefur verið eins og við þekkjum og er enn þá verið að ræða það. Ég veit ekki hvort það er framkvæmanlegt eða hvort einhverjir aðrir hafa betri hugmynd. Ég sé að félagi minn dæsir hér úti í sal, finnst þetta kannski ómöguleg hugmynd. En þetta er alla vega hugmynd sem vert er að velta fyrir sér, að þingið hafi einhverja aðkomu að því hvernig þetta verður fullnustað. Mér finnst það skipta máli.