Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég skil ekki þennan málflutning. Talað er um að ef ekki er hægt að færa þetta úr varasjóði þá óski ráðherra eftir millifærslu milli ára, af því að ekki var verið að nýta stofnframlögin á þessu ári nægilega mikið. Þýðir það að ef millifært verður úr varasjóði verði ekki beðið um millifærslu á milli ára af því sem var ekki notað í ár? Ég skildi það þannig að það yrði samt millifært á milli ára, óháð því hvað yrði gert annað, bara út af því að það náðist ekki að framkvæma á þessu ári. Það er mjög áhugavert af því að þarna er annars vegar verið að tala um 1,7 milljarða í varasjóði, miðað við þær tölur sem við höfum haft í höndunum, og 2 milljarða hins vegar sem hafa verið í stuðningsframlögin sem hafa ekki verið notuð. Ef það verður ekki fært úr varasjóði verða 2 milljarðar millifærðir. Ef það verður fært úr varasjóði verða færðir 1,7 milljarðar. Hvort ættum við að vilja ef við ætlum að ná því markmiði að byggja allt í allt 4.500 íbúðir á næsta ári eins og HMS gerir ráð fyrir?

Hitt sem mig langar til að spyrja um eru loftslagsmálin. Nú er það gríðarlega stór málaflokkur og stórt áhersluatriði fyrst þessi fjárlög eiga að sýna áherslur og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Sjálfstætt markmið Íslendinga um 55% minnkun í losun á gróðurhúsalofttegundum — hvar kemur það fram í þessu fjárlagafrumvarpi? Bara í einskærri alvöru, hvar sjáum við í þessu fjárlagafrumvarpi að þau verkefni sem verið er að leggja í hér skili okkur þeim yfirlýsta árangri? Mér finnst það rosalega mikilvægt því að árunum fækkar hratt, mjög hratt, að því ári þegar þessi markmið eiga að nást. Spurningin er einföld: Hvar?