Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt hjá hv. þingmanni, það er ekki gott að skulda. Það vildi náttúrlega helst enginn gera, ekki ríkissjóður heldur. Ég tel samt sem áður að ríkissjóður sé ágætlega staddur. Við höfum góð lánskjör og annað slíkt þannig að við getum mætt þeirri þörf sem hv. þingmaður velti upp í lokin varðandi innviðafjárfestingar sem við stöndum frammi fyrir. Ég held að það komi ekki til með að verða erfitt. Eins og hv. þingmaður veit og við höfum rætt í nefndinni erum við auðvitað að reyna að draga úr fjárfestingum, m.a. til þess að sporna gegn verðbólgu og þá um leið vaxtahækkunum. Við erum samt, ef við hugsum um það, ótrúlega vel stödd. Eins og kemur fram í töflu í nefndaráliti meiri hlutans, þegar verið er að bera saman hagvöxt og verðbólgu í löndum í kringum okkur og annars staðar, þá erum við þrátt fyrir allt vel stödd og hagvöxturinn hjá okkur með því mesta. Það skiptir auðvitað máli í þessari viðspyrnu til baka, að stabílisera hagkerfið og um leið þá þróun sem er að eiga sér stað í verðbólgu og vöxtum. Ég tel því að við getum staðið þetta af okkur og ég tel að við förum frekar hratt í gegnum það, alveg eins og, því miður, prósentið í vöxtum gekk hratt til baka. Ég held að þetta nái jafnvægi og við getum sinnt því sem við teljum okkur þurfa að sinna, hvort sem það er uppbygging innviða, heilbrigðiskerfisins, samgangna eða annað.