Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni meirihlutaálits framsöguna. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði hér við upphaf annars andsvars hér á undan, með leyfi forseta: Ég tel að við séum að spila með peningastefnunni með þessu frumvarpi. Er það mat hv. þingmanns, formanns fjárlaganefndar, að það að leggja fram frumvarp og breytingar á því sem kalla fram mestu aukningu milli ára í seinni tíma sögu, ef ekki frá upphafi tíma hér á Íslandi, sé eitthvað sem hv. þingmaður geti kallað að spila með peningastefnu Seðlabankans? Spurning mín til hv. þingmanns er: Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að þessi gríðarlega útgjaldaaukning á milli ára hafi á aðgerðir Seðlabankans? Telur hv. formaður fjárlaganefndar að þetta gæti kallað fram þörf á lengri tíma hærri vaxta? Telur hv. þingmaður að þau skilaboð sem komu fram í frumvarpinu sem strax bentu til þess að hér yrði sett Íslandsmet, sem sannarlega stefnir í að verði gert núna, hafi mögulega ýtt undir viðbótarvaxtahækkunarákvarðanir Seðlabankans? Mig langar með opnum hætti að biðja hv. þingmann að útskýra með hvaða hætti það að setja Íslandsmet í útgjaldaaukningu spilar með peningastefnu Seðlabankans þegar Seðlabankinn hefur verið í vaxtahækkunarferli til að ná fram markmiðum sínum um lækkun verðbólgu.