Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, ég tel að við séum að spila með peningastefnunni, hvort heldur sem útgjöldin hefðu komið eins og ég hefði viljað í upphaflegu frumvarpi en ekki til viðbótar á milli umræðna. Þá hefði ég sannast sagna sagt: Já. Það er ákall um það að við styðjum betur við innviði. Hv. þingmaður áttar sig væntanlega á því að stórauknir fjármunir eru að fara í ákveðna innviði, m.a. í heilbrigðismálin eins og hér er kannski stærsti pósturinn. Við erum enn að bregðast við Covid og enn að hreinsa það út úr kerfinu okkar. Það eru talsverðir fjármunir. Enn er ákall um það í samfélaginu að styðja betur við þessi kerfi sem við erum hér að leggja til. Miklir fjármunir fara í hreinorkubíla og félagsmálin, miklir fjármunir fara í löggæsluna. Þetta er útgjaldaaukningin sem hv. þingmaður er hér að gagnrýna.

Ég spyr því hv. þingmann til baka: Hvar sæi hann fyrir sér, af því að hann og hans formaður hefur gjarnan talað um að minnka báknið, að við ættum ekki að mæta þessu ákalli sem verið er að tala um? Því að þetta er fyrst og fremst grunnþjónusta, ekki gæluverkefni, sem við erum að vinna með. Þetta er að mínu mati grunnþjónusta sem við erum að fjármagna. Ég held að Seðlabankinn átti sig alveg á því að þetta er ekki það sem kemur til með að valda aukinni þenslu. Við erum ekki að fara í stórkostlegar framkvæmdir og auka þenslu á þann veg, það er ríkið ekki að gera. Þar erum við aðeins að draga saman. Ég verð líka að skilja það eftir hjá hv. þingmanni hvar hann myndi vilja bera niður í þessu ákalli sem ég tel að við séum hér að svara.