Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:47]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir framsögu sína á nefndaráliti 1. minni hluta og sömuleiðis ætla ég að þakka henni fyrir gott samstarf í fjárlaganefnd. Þetta var mikill og öflugur lestur sem átti sér hér stað og komið víða við. Það getur vel verið að eitthvað hafi farið fram hjá manni í ræðunni en aftur á móti þá gat ég ekki heyrt að hv. þingmaður minntist á aðkomu meiri hluta að því að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna, sem eru þessar 200 milljónir sem eru lagðar til til að draga úr aðhaldskröfunni. Það er gott að hafa það í huga að það er komið þar á móts við, sem er mjög mikilvægt í þessu samhengi.

En mig langar að velta því aðeins upp við hv. þingmann að í breytingartillögum 1. minni hluta eru gerðar tillögur að því að auka tekjur, allt að 20 milljarðar sýnist mér, með aukinni skattheimtu og er t.d. komið þar inn á veiðigjaldið, hækkun upp á 4 milljarða. Það er ekki nóg að segja að við skulum hækka veiðigjaldið. Væntanlega liggur þá fyrir einhver útfærsla á því hvernig það skal gert, því að við vitum það að jú, stærri útgerðirnar gætu hugsanlega bætt einhverju við sig en það er algerlega ófært að minni útgerðir verði skattlagður meira. Mér fyndist því mjög gott að fá útfærslu á því varðandi veiðigjald.