Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessum málaflokki sem ég hef vissulega mikinn áhuga á. Ég er sammála hv. þingmanni um þessa framsetningu, að þetta haldi sveitarfélögunum í hálfgerðri fátæktargildru. Ég hef orðað það sem svo í gegnum tíðina að þetta sé niðurskurður bakdyramegin í velferðarþjónustu. Staðreyndin er sú að almenningur gerir ekki greinarmun á því hvaðan velferðarþjónustan kemur, áttar sig ekki á muninum á stjórnsýslustigunum. Í augum flestra hér á landi eru þetta stjórnsýslustig sem eiga að vinna saman, ekki hvort á móti öðru.

Sú staða sem upp er komin í málaflokki fatlaðs fólks er auðvitað mjög bagaleg af mörgum ástæðum. Það liggur alveg fyrir að kostnaðarmatið gekk ekki upp á sínum tíma. Það liggur líka fyrir að þegar bætt var verulega við lögin árið 2018 — þetta kemur fram í skýrslu Haraldar Líndals, sem er opinber og við fengum kynningu á — var engu fjármagni bætt við kostnaðarmatið þrátt fyrir að verið væri að innleiða verulega aukin réttindi, sem ég held að allir í þessum sal vilji tryggja. Það fylgir því einfaldlega ekki fjármagn. Vandinn hefur svo snúist á þann veg að vegna þess að sveitarfélögin sjá hve mikilvægt er að veita þessa þjónustu, þrátt fyrir að fjármagn hafi ekki fylgt með, þarf að draga úr öðrum skuldbindingum. Þetta er mjög slæmt vegna þess að sveitarfélög eru í allt annarri stöðu en ríkið þegar kemur að endurdreifingu.

Ef við hugsum bara um getu sveitarfélaga til að skuldsetja sig og kostnað við slíkt, ef við hugsum um getu sveitarfélaga til þess að vera með fjármagnaðar tekju- eða útgjaldatillögur, þá vitum við að þau eru ekki með jafn fjölbreytta tekjustofna og til að mynda ríkið. Þessi vanfjárfesting í þessum málaflokki hefur leitt til þess að við erum að sjá meiri ójöfnuð í samfélaginu en ella vegna þess að sveitarfélögin geta lítið annað gert en að hækka bara flöt gjöld af því að þau hafa ekki þessa endurdreifingarskattstofna eins og ríki. Þess vegna þykir mér þetta mjög bagaleg þróun.