Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég hef tekið vel eftir þessu. Ég hef líka tekið eftir því að þegar það koma breytingartillögur, eins og komu núna allt of, allt of seint og voru ótrúlega stórar af því að hagspá Hagstofu kom svo seint og nýjustu gögn um þróun skattstofna — það hefur greinilega verið gerð einhver stórkostleg breyting frá fyrstu framlagningu fjárlagafrumvarpsins fram að breytingartillögunum. Þannig að það voru bara ný áform um tekjuhliðina, bara allt orðið nýtt. Já, við erum svolítið svona — Platón útskýrði það þannig að við værum eins og hellisbúarnir, við værum alltaf að horfa á skuggann af eldinum. Mér líður svolítið eins og við sáum við ekki alveg hvað er þarna á bak við. Eins og ég sagði í ræðu minni virðast ríkisstjórnarflokkarnir ekki hafa komist saman um hvað stefnu skuli taka í mikilvægum málum. Og fjármálaráðherra, það er hann sem fær óskorað vald til að viðhalda undirfjármögnun stofnana velferðarkerfisins af því að við sjáum ekki tillögurnar sem komu úr velferðarráðuneytinu. Það er hárrétt.

Þannig að það er mjög mikilvægt, við þurfum miklu meiri upplýsingar. Við þurfum líka upplýsingar um það ef það kemur breytingartillaga upp á 2 milljarða til Landspítalans, hvað er verið að auka þar? 2 milljarðar í rekstrargrunn stofnunarinnar. Hvað er það sem á að gera? Á að fjölga starfsfólki? Á að auka aðgerðir eða eitthvað svoleiðis? Við fáum ekki upplýsingar um það. Við fengum upplýsingar núna um að það væru 750 millj. kr. sem ættu að fara í liðskiptaaðgerðir. Ég spurði af því ég vil fá að vita hver fjöldi liðskiptaaðgerðanna er og hvernig á að gera þær. Jú, við fáum minnisblað um það, en við fáum yfirleitt ekki upplýsingar um það þegar á að fara að styrkja rekstrargrunn, þegar á að fara að auka fjármagn til stofnana, hvað á að gera við þessa peninga. Og þá erum við komin inn á það að upplýsingar sem við fáum eru einfaldlega ekki nægjanlegar. Þetta er fyrir undirfjármögnunina og það er það sem liggur fyrir. Mér finnst líka bara varðandi orðalag, og hv. þingmaðurinn kom mjög vel inn á þetta í sinni ræðu varðandi þetta innan og utan ramma, aðhaldskröfu og annað slíkt; (Forseti hringir.) þetta er orðatiltæki sem ætti að banna í fjárlagafrumvarpi, ætti ekki að vera þarna. Þetta er svo mikið stofnanamál en það hefur enga merkingu, enga þýðingu.