Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er hárrétt hjá hv. þingmanni að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar birtist í upphaflega fjárlagafrumvarpinu fyrir breytingartillögur. (Gripið fram í.) Þar er forgangsröðunin. Breytingartillögurnar hljóta þá að vera viðbragð við einhverjum þrýstingi eða þeir sjá þá allt í einu að það er undirfjármögnun í gangi, sérstaklega í heilbrigðiskerfinu. Og það að við skulum vera búin að tala frá hruni og fyrr um ástandið á Landspítalanum, ástandið á bráðamóttöku Landspítalans og undirfjármögnun heilbrigðiskerfisins — það eru sennilega komin hátt í 15 ár núna sem við höfum talað um það. Hrunið var fyrir 14 árum. Við getum talað um 13, 14 ár. Það að íslenska samfélagið, þetta er eitt ríkasta samfélag heims, skuli ekki geta rekið eitt hátæknisjúkrahús sómasamlega og með stolti er bara sorglegt.

Ég vonast til þess á næstu árum að við í fjárlaganefnd getum séð til þess að Landspítalinn verði rétt fjármagnaðar og við þurfum ekki að sjá þessar endalausu fréttir um ástandið á bráðamóttökunni, ástandið á Landspítalanum og það allt. Þetta er spurning um sjálfstæða þjóð. Ísland er eitt ríkasta samfélag heims. Að tekjurnar eru meiri en áætlað var í ár sýnir það og nýjasta þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sýnir það líka. Í nýjustu gögnum um þróun skattstofna kemur fram að meiri tekjur eru að koma inn þannig að ástandið er bjart. Við erum með ein auðugustu fiskimið heims hérna í hafinu í kringum Ísland. Við búum við ódýra orku, gnægð að ódýrri, vistvænni orku, þó svo að við höfum selt uppruna hennar til Evrópu, 87%. Og nafnið Ísland — farið bara út og sjáið veðrið, þið hugsið ekki um að landið beri nafnið Ísland þegar þið farið út. Þannig að það er gott að búa hérna en það er stjórn landsins sem er ábótavant. Það er þetta klíkufúsksamfélag sem við sjáum í ÍL-sjóði, sjáum í Íslandsbankasölunni, lífeyrisaukasjóði LSR, það þýðir það að sameiginlegur sjóður landsmanna tapar hundruðum milljarða króna.