Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og nefndarálitið sem vekur upp hjá mér mjög margar spurningar. Það var samt gott að heyra í síðasta svari við andsvari hérna áðan að það er einmitt gott að búa á Íslandi. Við skulum ekki gleyma því. Það er alveg ofboðslega gott að búa á Íslandi og Ísland er gott land einmitt vegna þess að því er svo vel stjórnað. Hér eru fullyrðingar um að þetta sé frumvarp hinnar íslensku yfirstéttar, frumvarp ríkasta hluta samfélagsins, ríkustu tekjutíundarinnar og þetta haldist óbreytt. En Ísland er mikið velferðarríki. Á síðustu árum hafa heildartekjur allra tekjuhópa hækkað og kaupmáttur aukist. Allir tekjuhópar greiða nú minni tekjuskatt en áður nema þeir sem hafa allra hæstu tekjurnar, þeir greiða meira. 83% af nettótekjum hins opinbera koma frá tekjuhærri helmingi skattgreiðenda. Þetta eru staðreyndir. Þetta er hægt að lesa úr upplýsingum um hvernig tekjur skiptast. Þetta eru staðreyndir og þetta fer eiginlega í þá átt sem hv. þingmaður var að tala um hérna áðan og er í engu samræmi við það sem hann skrifar í nefndarálitinu. Ég vil því segja við hv. þingmann að þær fullyrðingar sem hér er farið með í þessu nefndaráliti eiga bara ekki við rök að styðjast. Vonandi getum við sameinast um það að staðreyndirnar eru að undanfarinn áratugur hefur einkennst af mikilli kaupmáttaraukningu þar sem tekjur hafa hækkað á sama tíma. Nákvæmlega þetta sem við fórum yfir áðan, jöfnuðurinn á Íslandi er nefnilega með því mesta sem þekkist í heiminum. Ég hygg að hv. þingmaður viti það vel. Hann veit af þessum alþjóðlegum samanburði. Hann veit hversu gott er að búa á Íslandi og ég spyr bara: Af hverju reynir hv. þingmaður að halda einhverju allt öðru fram í nefndaráliti, því að það heyrðist á ræðu hans áðan að hann veit alveg betur?