Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var spurður að því hvort ég væri einhver sósíalisti fyrir að segja þetta. Flokkur fólksins trúir á frjálst markaðshagkerfi. Hver gerir það ekki? Ég hugsa að það sé enginn flokkur á Íslandi sem trúir einhverju öðru. Hann vill ekki taka upp áætlunarbúskap og fimm ára áætlanir. Það eru allir sem trúa á þetta, það er mjög einfalt mál, trúa á hlutafélög, takmarkaða ábyrgð hlutafélaga svo við höldum áfram með það. Við trúum á að verðmætasköpun eigi sér stað úti í samfélaginu. Svo einfalt er það. Við erum alveg sammála um það, en það er skipting gæðanna. Að fátækasti hluti landsmanna búi við þau kjör sem boðið er upp (Gripið fram í.) á er algjörlega óboðlegt. Varðandi sölu á bönkunum þá er óboðlegt að ríkissjóður Íslands skuli ekki hafa eigendastefnu fyrir Landsbanka og Íslandsbanka sem leiðir til samkeppni á bankamarkaði. Stjórnvöld eiga í tveimur bönkum af þremur og eiga að segja við bankana: Við viljum að þið farið í samkeppni. Allir þrír bankarnir, það verði samkeppni á milli ykkar. Við viljum að almenningur njóti góðs af samkeppninni. Það er engin samkeppni og þetta samkeppnisleysi er á ábyrgð ríkisins, ekki neins annars. Við í Flokki fólksins viljum ekki að það sé verið að selja bankana í þessu samkeppnisleysi vegna þess að það leiðir til sjálftöku á hagnaði. Það er þess vegna sem við viljum ekki að þeir séu seldir, svo það liggi fyrir. Hvað framtíðin ber í skauti sér verður einfaldlega að koma í ljós. Það verður fyrst að taka á þessum vanda sem leiðir til þess að það er engin samkeppni. Það að bankarnir geti, eins og þeir gerðu í fyrra, hækkað milli ára, milli 2020 og 2021, um 53%, aukning um 52 milljarða, er hrein og klár sjálftaka. Það er engin samkeppni nema bara einhver vörumerkjasamkeppni á milli bankanna. Ég tel að íslenskur fjármálamarkaður eigi auðvitað að reyna að tengjast sem best norrænum bankamarkaði, norrænum fjármálamarkaði. Það hefur ekki tekist. Það tel ég að sé út af þessu klíkufúsksamfélagi sem við búum í. (Forseti hringir.) Mál ÍL-sjóðs, LSR og sala Íslandsbanka er algjört hneyksli og sýnir hvernig ástandið er. Við höfum ekkert lært.