Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Mér fannst hv. þingmaður hengja bakara fyrir smið í ræðu sinni þegar hann talaði um forstöðumenn úti á landi sem þyrftu að leggja niður einhverjar stöður vegna skorts á fjárheimildum því að fjárheimildirnar eru samþykktar hérna. Væntanlega eigum við að geta séð hvert er markmið þeirra fjárheimilda sem við samþykkjum hér, t.d. hvað varðar starfsmannahald og dreifingu starfa og ýmislegt svoleiðis. Þannig að ég klóra mér í hausnum og velti því fyrir mér hverjum er eiginlega um að kenna. Er það fagráðuneytið sem leggur ekki til nægilegar fjárheimildir til að það náist að sinna þessum verkefnum? Er það fjármálaráðuneytið sem segir nei? Er það ríkisstjórnin sem segir nei? Er það Alþingi sem segir nei? Hver er orsakavaldurinn? Hverjum er um að kenna þegar störf án staðsetningar eru lögð niður eins og kom fram í dæmi hv. þingmanns?