Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:40]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég held að það sé mikil hætta á því. Þegar ríkisstjórnin stendur ekki í lappirnar í þessu hlutverki sínu að taka þátt í því að vinna gegn verðbólgunni þá leiðir það auðvitað af sjálfu sér að þetta tímabil er líklegt til að lengjast, tímabil verðbólgu og tímabil hárra vaxta. Seðlabankinn hefur beint orðum sínum til atvinnulífsins. Seðlabankinn hefur beint orðum sínum til almennings. Fólk þorir varla að játa á sig í dag að hafa einhvern tímann farið í sólina til Tenerife. Seðlabankinn hefur líka lýst því hvert hlutverk og ábyrgð ríkisstjórnarinnar er í þessum efnum. Mér hefði fundist að Seðlabankinn gæti stundum verið afdráttarlausari þar því auðvitað fer ríkisstjórnin með algjört grundvallarhlutverk í þeim efnum þannig að það er augljóst hagsmunamál heimilanna og okkar allra að ríkisstjórnin standi í lappirnar (Forseti hringir.) og sé markviss í því að vinna gegn verðbólgunni.