Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:53]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ágætt samstarf í fjárlaganefnd. Ég heyrði ræðu hv. þingmanns, hún talaði um vextina og evruna. Ég verð að segja eins og er að mér leið eins og ég væri staddur á hálfgerðri vakningarsamkomu, hvað hún talaði fallega um evruna og vextina. Mig langar að fara aðeins yfir verðbólgutölur í Evrópu. (ÞorG: En hvað með vaxtatölur í Evrópu?) Já, ég skal gera það líka. Ég skal tala um vextina. Verðbólga í Eistlandi samkvæmt The Brussel Times í september var 25%. Verðbólga í Lettlandi 20,8% og gert ráð fyrir að hún verði 24% á fjórða ársfjórðungi. Í Litháen er verðbólga 21,2% og gert ráð fyrir að hún verði 18,9%. Lægst er verðbólgan í Frakklandi, 6,5%. Að meðaltali er verðbólga 10,06% á evrusvæðinu og gert ráð fyrir að hún verði 10,6% í október. Eystrasaltsríkin geta ekki varið sig fyrir verðbólgu með peningastefnunni svo það sé alveg á hreinu. Og líka varðandi húsnæðismarkaðinn, hvernig áhrif mun það hafa á húsnæðismarkaðinn að koma upp evru? (Forseti hringir.) Það verður ekkert auðveldara fyrir ungt fólk að kaupa húsnæði, svo sannarlega ekki.