Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst alltaf vera vakning að sitja með hv. þingmanni í fjárlaganefnd [Hlátur í þingsal.] á hverjum einasta fundi og ég held að allir nefndarmenn deili þeirri sýn með mér. Spurning hvers eðlis hún er en þetta er alltaf áhugavert. Ég var einmitt að tala um það að verðbólgan hér, og ég hef nefnt þetta í þingsal áður, er ekki sú hæsta í Evrópu. Vextirnir eru vandamálið. Hvers vegna þurfum við að beita vaxtatækjum margfalt og af langtum meiri þunga til að glíma við verðbólgu sem er lægri en í þessum löndum, sem hv. þingmaður er að bera okkur saman við? Hvers vegna er það? Ég hefði áhuga á að heyra svör hv. þingmanns við því. Ég ætla ekki að tala um Noreg því að þá veit ég að við förum í vakningu. Hv. þingmaður spyr hvernig það verði auðveldara að kaupa húsnæði. Hvernig er fyrir ungt fólk á Norðurlöndunum að fjárfesta í húsnæði og hver eru þeirra lánskjör?