Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:58]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Í dag er búin að fara fram ansi fróðleg og upplýsandi og góð umræða og margt sem hún skilur eftir sig en það sem stendur upp úr miðað við það sem ég hef náð að fylgjast með er að stundum virðumst við vera í sitt hvoru landinu eða ekki á sama staðnum þegar við erum að fjalla um þessa hluti sem við erum að fjalla um í dag, þ.e. fjárlög við 2. umr. Auðvitað er eðlilegt að menn komi hér upp og gagnrýni og leggi ýmislegt til málanna. Staðreyndin frá mínum bæjardyrum er þessi: Þessi fjárlög eru í sjálfu sér ekkert annað en velferðarfjárlög. Það er verið að taka verulega á þeim málaflokkum sem snúa að heilbrigðis- eða velferðarmálum í heild sinni. Þar er verið að gera verulega gangskör. Vissulega hafa þessir málaflokkar setið á hakanum undanfarið, það er óhætt að segja það. En nú er verið að blása til sóknar. Þeir sem leggja það á sig að lesa nefndarálit meiri hluta sjá að þar kemur þetta auðvitað verulega vel fram. Það eru gerðar ansi miklar breytingartillögur á milli umræðna. Fjárlaganefnd ásamt ríkisstjórn hefur tekið þetta til gagngerrar endurskoðunar og það má örugglega færa fram ansi mörg rök þess efnis hvers vegna svona lagað er gert, þ.e. að þurfa að bæta við rúmum 50 milljörðum á milli umræðna. Ég ætla að leyfa mér að standa hér og velta þessu upp eins og ég sé þetta fyrir mér. Ramminn er svolítið þröngur í 1. umr., verulega þröngur. Ég held við getum öll verið sammála um það að þá vantar upp á víða. En það er búið að koma fram í umræðunni í dag hver skuldastaðan er, það er hallarekstur og annað og skilaboðin voru skýr þegar fjármálaráðherra leggur fram frumvarp til fjárlaga hér í byrjun þings um að við þurfum að stíga svolítið á hemilinn, við þurfum að stíga svolítið á bremsuna. Síðan förum við í þessa vinnu sem fjárlaganefnd er búin að vera í síðan í haust, að fara yfir öll málefnasvið þar sem reynt er að mæta þessu og hugsa og sjá: Hvar getum við hugsanlega tekið á? Hvar er þörfin mest o.s.frv.?

Ég ætla að leyfa mér að segja að okkur hefur tekist frekar vel til í þeim efnum. Það er verið að mæta þar sem þörfin er mest, þ.e. í velferðarhlutanum, það er stóraukning á milli umræðna. Ef við tökum bara heilbrigðismálin í heild sinni frá síðustu fjárlögum erum við að tala um rúma 17 milljarða. Það eru gríðarlegir fjármunir. Ef við tökum félags-, húsnæðis- og tryggingamál erum við að tala um 9,7 milljarða. Komið vel að því. Það var mikið ákall í málum sem sneru að lögreglunni. Þar er bætt verulega í, 2,7 milljarðar þar. Þetta eru allt þörf og góð málefni sem styrkja og undirbyggja velferðarkerfi landsins og ekki veitir af. Ég get því ekki fallist á það að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir séu að draga lappirnar og séu í einhverri óráðsíu. Það er verið að mæta brýnustu þörfunum. Ég ætla að koma inn á það seinna í ræðunni að þar mætti síðan bæta enn frekar í og hvernig við horfum til næstu fjármálaáætlunar sem við förum að vinna eftir áramótin því að þörfin er mjög víða, alls staðar í samfélaginu. En staðan er bara þannig að við þurfum að gæta að okkur. Við þurfum að reyna að halda einhverju aðhaldi á útgjöldum ríkisins og við þurfum að bæta í tekjugrunninn.

Það komu hér fram í dag ágætistillögur og umhugsunarverðar og fínar tillögur, ég er svo ekki sammála öllum en þær eru vel umræðunnar virði, t.d. hjá 1. minni hluta hér í dag, vel uppsettar tillögur um það hvar ætti að sækja fjármuni. En það er alveg ljóst að þegar við förum í það þá þarf að hafa í huga að við erum að reka fyrirtæki og þá þurfum við að reyna hafa eitthvert jafnvægi á útstreymi og innkomu. Lausnin felst yfirleitt í því að reyna þá að hafa meiri tekjur og það þekkjum við Íslendingar vel. Þá bara vinnum við meira. Ég er svo sem ekkert að mæla með því að við vinnum meira, einstaklingarnir hafa svo sannarlega lagt sig fram, nóg er nú í dag hvað menn hafa lagt á sig og tala sumir um að stytta vinnuvikuna. En ég ætla ekki að fara í þá sálma hér. En í því samhengi þá eigum við veruleg tækifæri í að auka tekjur okkar, ekki bara með því að leggja á aukin veiðigjöld eða leggja á hvalrekaskatt eða eitthvað svoleiðis. Það er alltaf umræðunnar virði og ég ætla ekkert að slá hendinni á móti því en við getum líka framleitt meira. Það er grundvallaratriði. Við getum framleitt mun meira hér á landi af ýmsum afurðum. Við getum horft á þessar grunnframleiðslugreinar, t.d. sjávarútveg, orkuiðnaðinn, áliðnaðinn, ferðaþjónustu og landbúnað. Við getum horft til þess og alla þá nýsköpun sem er í samfélaginu. Þetta skapar allt tekjur. Ferðaþjónustan er í sjálfu sér ekkert annað en framleiðslugrein, Hún skapar okkur gjaldeyri. Ef við öflum meira þá getum við byrjað að reyna að borga niður skuldir og síðan förum við í það að byggja upp samfélagið. Þetta þarf allt að haldast í hendur því að eins og komið hefur fram í ræðum fyrr í dag og í kvöld þá stefnir í ákveðinn hallarekstur næstu árin. En ég minni á að þrátt fyrir þennan hallarekstur sem við stöndum frammi fyrir í dag upp á einhverja 118 milljarða, í þeim fjárlögum sem við erum að fjalla um hér, þá er skuldahlutfallið samt bara um 33%. Ansi margar þjóðir væru frekar stoltar af því. Við megum samt ekki staldra við og klappa okkur á bakið þó að við séum komin á þennan stað og getum sagt að við séum hér með rétt um 33% skuldahlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Við eigum að gera enn betur. Við eigum að hugsa um hverja krónu og hvernig við eyðum henni.

Við setjum fjármuni í hinar ýmsu stofnanir sem er vel. En það sem mér finnst skorta verulega á, og nú tala ég sem fulltrúi í fjárlaganefnd, eru greiningar á því í hvað peningarnir eru að fara nákvæmlega. Við þurfum að hugsa betur um það. Það þekkja allir sem hafa rekið fyrirtæki að þú eyðir ekki sömu krónunni tvisvar og þar af leiðandi þurfum við að veita meira aðhald. Við þurfum að skapa meiri framleiðni, hvort sem er á heilbrigðissviði eða í hverju sem við gerum, til þess að þeir fjármunir sem eru lagðir til opinberra stofnana séu virkilega að vinna sína vinnu. Það má ekki skilja orð mín svo að ég sé að tala um að það sé illa farið með fjármuni og að okkar fólk úti á akrinum, eins og við getum sagt, sé ekki að sinna sinni vinnu. En við þurfum alltaf að horfa til þess í hvað fjármunirnir eru að fara.

Við getum alltaf sótt fram á hinum ýmsu sviðum og það eru málefnasvið hjá okkur sem því miður eru ekki að fá viðbót. Ég ætla bara að leyfa mér að fara aðeins inn á það sem stendur mér verulega nærri, það sem snýr að matvælaframleiðslunni. Við getum horft á það t.d. að matvælaráðherra er ekki að fá neina viðbót í sinn málaflokk. Í eitt ár erum við búin að ræða um mikilvægi fæðuöryggis og þess háttar og við sjáum það núna, því miður, að þessi málefnasvið sitja eftir. Þar eigum við mikil sóknartækifæri og ég vonast til þess að við fáum að sjá það í fjármálaáætlun fyrir árið 2024 að við stóreflum rannsóknir á landbúnaði. Við þurfum að auka verulega í hafrannsóknir í kringum landið, hafið er okkar helsta gullkista. Hvernig metum við stærð þorskstofn og þess háttar? Þar skortir verulega á. Það er líka þannig að þegar ríkisstjórnin þarf að taka ákvörðun um það hvar vöxturinn eigi að vera, og það er vel, þá fara menn að horfa á velferðarhlutann sem vissulega fær verulega mikið til sín í þessum fjárlögum en önnur málefnasvið sitja eftir. Þó svo að heilbrigðishlutinn sé að fá til sín verulega fjármuni og mikla aukningu þá getum við bætt verulega í þar. Það kom ágætlega fram í ræðu hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni sem sneri að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Það er alveg ljóst að þar vantar upp á. Það kom fram í umsögnum og í viðtölum við forsvarsmenn þessara stofnanna að róðurinn væri verulega þungur. En aftur á móti eru þarna einhverjir liðir innan ráðuneytisins sem er hægt að færa til og svoleiðis. En við þurfum að horfa sérstaklega á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni í fjármálaáætlun fyrir 2024, að við veitum þeim ákveðna innspýtingu, tökum vel utan um þær. Ef ég reyni að vitna í orð hv. þm. Haraldar Benediktssonar þá er þetta svona hringkerfi, þ.e. ef heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni virka ekki þá enda sjúklingarnir á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum að geta gripið sjúklinginn og náttúrlega verið með forvarnir á þessu sviði hringinn í kringum landið. Við megum ekki gleyma því að markmið þess að veita góða heilbrigðisþjónustu er að allir hafi jafnan aðgang af heilbrigðisþjónustu hvar sem þeir búa. Það er lykilatriði, númer eitt, tvö og þrjú.

Við getum horft til þess að þegar við klárum þessa umræðu og fjárlagafrumvarpið fer til 3. umr., sem gerist vonandi í næstu viku, held ég að við getum öll verið sammála um að það er alltaf hægt að gera betur, hvar sem er. Við verðum líka að sameinast um það sem vel er gert. Þó að það sé haldið uppi gagnrýni á ýmsum sviðum þá er það líka styrkur okkar allra að reyna að horfa til þess af víðsýni. Það er alltaf þannig og þess vegna er svo mikilvæg vinna eins og er í fjárlaganefnd þar sem sjónarmið koma fram og eru yfirleitt verulega málefnaleg og góð, þar sem verið er að velta við hlutum og rannsaka og beina áfram, og ég tel að okkur í meiri hlutanum hafi tekist mjög vel til í því að reyna að sameina og við höfum staðið mjög þétt að því nefndaráliti sem við erum að ræða hér í dag.

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér að nýta ekki allan ræðutíma minn því að hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson fór 20 sekúndur fram yfir áðan þannig að ég ætla að lauma því yfir á hann á eftir. En mig langar svona í restina að ræða töluvert um þau tækifæri sem felast í nýsköpun og rannsóknum. Við getum tekið nýsköpunina sem dæmi til að byrja með. Hugverkaiðnaðurinn t.d. er nýsköpun og hver peningur sem við setjum til rannsókna og til sköpunar færir okkur alltaf fram á veginn. Það eru svo mýmörg dæmi alls staðar í kringum okkur sem segja okkur það að allt sem við framleiðum hér á landi, hvort sem það eru tölvuleikir eða lambalæri eða fiskur eða hvað sem er, skapar alltaf tekjur. Það er mjög áhugavert að fara í heimsóknir t.d. þar sem verið er að framleiða tölvuleiki og sjá hvað er verið að gera. Þetta er bara afrakstur þess hvernig við stöndum að nýsköpun. Ég nefni sóknaráætlanir landshlutanna, fjárlaganefnd bætti við 120 milljónum í sóknaráætlanir og 40 milljónum í atvinnuráðgjöfina. Við sjáum að það skilar sér alltaf. Það vekur mikla grósku, ýtir undir það að einstaklingar, fyrirtæki og fleiri finni sér ákveðinn farveg og það gerir að verkum að við erum alltaf að fara ákveðna leið til þess að horfa fram á við, skapa eitthvað, treysta byggðina þar sem við búum, til að reyna að skapa okkur betra líf hvar sem er á landinu. Það er lykilatriði.

Síðan getum við alltaf tekið inn í þessa umræðu, og sem tengist vissulega þessum fjárlögum og ég vil koma inn á, það sem lýtur t.d. að innviðaráðuneytinu. Við erum ekki að bæta neitt sérstaklega í það sem snýr að samgöngum og uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Það er að hluta til vegna þess að við erum að hægja á. Við erum ekki með neina sérstaka innspýtingu þar. Það er líka til þess að reyna að draga úr verðbólgu að við erum ekki að sprauta inn fjármagni á þann markað. En þarna eigum við sannarlega mikið verk óunnið. Í ræðu hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur var ágætlega komið inn á uppbyggingu á húsnæðismarkaði og við þurfum bara að komast vel að því og halda betur um það og það verður mjög fróðlegt að fá skýrslu frá HMS núna, um byggingarþörfina og hvar við eigum að byggja o.s.frv. Í samgöngukerfinu eigum við mikið verk óunnið. Þó hefur verið alveg gríðarlega mikið og vel gert á þessu kjörtímabili. En allt sem ég er að nefna hérna sem snýr að nýsköpun, framleiðslu og uppbyggingu innviða eru verkefni til þess að við getum haldið uppi góðu lífi hvar sem er á landinu. Ef þú ætlar að tryggja búsetu vítt og breitt um landið þá þurfa innviðirnir að vera til taks, hvort sem það snýr að heilbrigðisþjónustu, samgöngum, velferðarþjónustunni, grunnskólunum, framhaldsskólum, háskólum. Þetta þarf allt að vera til staðar og ég má ekki gleyma að nefna aðgang að skilvirkri og góðri orku. Hv. þm. Haraldur Benediktsson fór verulega vel yfir það, t.d. stöðuna á Vestfjörðum. Í þessu frumvarpi er verið að flétta allt inn í það sem tengist bara okkar daglega lífi. Það er í þessu nefndaráliti hérna. Nú er þetta í fyrsta skipti sem ég sit í fjárlaganefnd. Ég held að maður geti alveg óhætt sagt það, eftir að hafa farið í gegnum þessa vinnu og fengið að starfa með ákveðnum reynsluboltum sem eru í nefndinni, hvort sem eru í stjórnarandstöðu eða ríkisstjórn, að maður öðlast aðra sýn á það hver grunnurinn er að þessu lífi sem við lifum á þessu landi. Það er ofboðslega mikilvægt að velta því fyrir sér hvað þarf til. Eftir að hafa farið í gegnum þessa vinnu þá finnst mér ég hafa séð það, og það kemur svo sterkt í gegn í þessu nefndaráliti sem við erum að fjalla um hérna, hvernig við ætlum að byggja landið og hvernig við sjáum framtíðina fyrir okkur. Því er mikilvægt í þeirri vinnu sem tekur við núna eftir áramótin, þegar við förum í fjármálaáætlunina, að við leggjumst verulega vel yfir það hvar við þurfum virkilega að bæta í. Þá byrjum við að sjálfsögðu á því að horfa á velferðarhlutann og síðan verðum við að trappa okkur niður. En við megum aldrei gleyma því í þessu samhengi að grunnurinn byggir alltaf á því, allt sem við erum að gera, að til þess að við getum haldið uppi ákveðinni þjónustu þá þurfum við að framleiða ákveðna hluti. Einu sinni sagði ágætur maður við mig að við byggjum ekki upp þjóðfélag með því að selja hver öðrum gallabuxur. Það er svolítið mikið til í þessu. Ég sé að sumir þingmenn hrista hausinn og ranghvolfa augunum. En ef þú ert ekki með ákveðna grunnframleiðslu, frumframleiðslu, þá byggirðu ekki upp samfélag. Þú þarft alltaf að byggja á einhverjum sterkum stoðum til þess að geta veitt þá þjónustu sem þarf, sem byggir á velferðarkerfi og löggæslu, skólum o.s.frv.

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér það í lok minnar ræðu að vitna hér í biblíusögur, þeir sem fóru í sunnudagaskóla á sínum tíma lærðu þar ákveðinn söng sem er, held ég, svolítið grunnstefið í því sem við erum að gera. Ég ætla ekki að fara að syngja hér í pontu Alþingis en það var þannig að á sandi byggði heimskur maður hús en á bjargi byggir hygginn maður hús.