Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Það eru nokkur atriði sem ég vildi klóra mér aðeins í hausnum yfir með honum. Til að byrja með eru þetta í rauninni tvö frumvörp sem við erum að fjalla um hérna. Það er annars vegar frumvarpið sem var lagt fram í haust og svo frumvarpið núna eftir breytingar með 54 milljörðum aukalega. Það var augljóst og við sögðum það skýrt hér í 1. umr. að fyrsta útgáfan á frumvarpinu væri í rauninni gagnslaus fyrir umsagnaraðila. Það vissu allir að það var vanfjármagnað í öllum málaflokkum og verið að fela eitthvað í varasjóðum og í rauninni var þetta gjörsamlega gagnslaust frumvarp. En hv. þingmaður kallaði það að stíga á bremsuna. Ég veit ekki alveg hvernig það er síðan gert með því að bæta 54 milljörðum við. Svo er líka verið að mæta brýnustu þörfum samkvæmt hv. þingmanni þannig að þetta er mjög sundurlaust. Ef við gerum ráð fyrir því að frumvarpið eins og það er núna sé eins og frumvarpið hefði átt að vera við 1. umr., er þá ekki búið að ræna þingið umsögnum allra í samfélaginu sem hafa áhuga og getu og vilja til að gefa umsagnir um fjárlagafrumvarpið? Erum við í þinginu þá ekki að vinna án þeirra umsagna um stöðu mála eins og hún er núna eftir breytingartillögur ríkisstjórnarinnar? Þetta er bara grundvallaratriði í allri vinnunni hérna af því að við erum ekki og getum ekki verið sérfræðingar í öllu og treystum á að þau sem vita og eru að vinna úti í feltinu geti komið með umsagnir um hver staðan sé. Án þess er starfið okkar einfaldlega mjög flókið. Hver er sanngirnin gagnvart fólkinu sem almennt gefur okkur umsagnir?