Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:31]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið og vil byrja á því að geta þess að það er mjög fróðlegt að starfa með hv. þingmanni í fjárlaganefnd varðandi þær upplýsingar og þann fróðleik sem hv. þingmaður sækist eftir, sem er vissulega mjög gott og ég get alveg tekið undir það að í öllu þessu samhengi — nú er þetta í fyrsta skipti sem ég starfa í fjárlaganefnd, þ.e. við fjárlög, ég kom inn í þetta í febrúar á þessu ári — að mér finnst skorta oft ákveðnar greiningar á þörfum og hvar mesta nauðsynin er. Og ég verð að segja það, þó að hæstv. heilbrigðisráðherra sé nú í sama liði og ég eins og flestir ættu að vita, þá hefur hann unnið virkilega gott starf við ákveðna greiningu og þau sem eru innan ráðuneytisins eru á ákveðinni braut ásamt okkur hér á Alþingi í því að ná utan um verkefnið sem var ekki vanþörf á. Ég kom inn á það ágætlega, held ég, í minni ræðu hér áðan um mikilvægi þess að við höldum utan um velferðarhlutann varðandi heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni o.s.frv. En vandinn, held ég, er alltaf sá sami hjá okkur í þessu, að þegar þú leggur af stað í einhvern leiðangur og skilaboðin eru í upphafi: Við þurfum að hafa verulega aðhaldssöm fjárlög, þá skera menn allt við nögl. Síðan höldum við áfram í vinnunni og þá erum við komin á þann stað sem við erum í dag. Þetta eru þessar lífsnauðsynlega viðbætur sem verið er að gera til þess að kerfið virki almennilega.