Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:37]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að þessi svör hv. þingmanns koma mér mjög ánægjulega á óvart. Hann segir að það sé ekki búið að ganga frá þessum fjárlögum, sem er auðvitað rétt, en mér finnst hann þar vera að gefa í skyn að þessar breytingartillögur frá meiri hlutanum séu í raun ekki endanlegar og það séu þættir sem standa eftir, hann sagði þetta líka. Ég gleðst yfir því, mér finnst hv. þingmaður svolítið vera að gefa það í skyn — hann kemur nú úr flokki sem gefur sig út fyrir að styðja félagshyggju — að hann muni fallast á einhverjar af þeim breytingartillögum sem við höfum nú þegar kynnt. Ég nefndi barnabætur og við kynntum í dag tillögur um að hækka bæði stuðning með hverju barni og viðmiðunarmörk í kerfinu þannig að fleiri fjölskyldur fái barnabætur en tíðkast í dag. Við kynntum líka tillögur um að hækka eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu til að koma í veg fyrir einmitt að allt þetta fólk detti alveg út úr kerfinu og að heimili með miklar skuldir og tiltölulega lágar tekjur sjái bæturnar sínar skerðast alveg til fulls. Mér heyrðist hv. þingmaður vera einmitt svolítið sleginn yfir þessu sem ég nefndi með barnabætur og vaxtabætur, að þarna séu þættir sem standi eftir. Ég vona bara að við getum átt uppbyggilegt samtal og samstarf, við sem tilheyrum flokkum sem kenna sig við félagshyggju, og gert einhverjar lágmarksbreytingar á fjárlögunum eins og þau líta út núna á þessum stað í ferlinu eftir að breytingartillögur meiri hlutans komu fram og það verði ekki farið strax í það að fella hverja einustu tillögu sem kemur frá minni hlutanum en leggja svo kannski fram sams konar tillögu að ári eins og við sáum t.d. gert með hækkun frítekjumarks fyrir öryrkja. (Forseti hringir.) Ég fagna þessari nálgun hv. þingmanns.