Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:23]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína og hann fjallaði mikið um loftslagsmál sem eru honum hugleikin. Mig langar að byrja andsvar mitt á því að vitna til stjórnarsáttmálans þar sem segir, með leyfi forseta: „Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og uppfylli ákvæði Parísarsamningsins.“ Fjallað er um losunarbókhald gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis á Íslandi í árlegri landsskýrslu Umhverfisstofnunar til ESB og Sameinuðu þjóðanna vegna Kyoto-sáttmálans og Parísarsamkomulagsins. Kyoto-tímabilinu lauk 2020. Það verður gert upp á næsta ári, 2023. Tímabil Parísarsamkomulagsins hófst í fyrra og er til 2030. Á Íslandi jókst heildarlosun gróðurhúsalofttegunda um rúmlega 30% frá 1990. Samkvæmt Kyoto-sáttmálanum lofuðu Íslendingar að draga úr losun um 20% árið 2020 miðað við 1990. Engar líkur eru á að staðið verði við þau loforð, þ.e. við munum ekki standa við Kyoto-sáttmálann. Losun á ábyrgð stjórnvalda er sú sem ríki og íbúar eru ábyrg fyrir. Hún var óbreytt milli 2017 og 2018 og útilokar að við stöndumst skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Við þurfum líklega að kaupa losunarheimildir fyrir milljarða. Ég sé mikið ósamræmi milli þessa og þess sem segir í stjórnarsáttmálanum. Spurningin þessi: Er það ekki rétt að það eru engar líkur á að við uppfyllum Kyoto-samkomulagið, engar líkur á að við uppfyllum Parísarsamkomulagið? Hvaða alþjóðlegu skuldbindingar mun Ísland geta staðið við? Þó segir í stjórnarsáttmálanum fjórum sinnum á bls. 9 að við ætlum að vera fremst í heimi í öllu sem varðar loftslagsmál.