Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:33]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Fjárveitingavaldið liggur hjá Alþingi, ekki hjá ríkisstjórn og ráðherrum. Þetta er alveg skýrt samkvæmt stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Svo erum við með lög um opinber fjármál og ákvæði í þingskapalögum þar sem er t.d. kveðið á um að frumvarp til fjárlaga skuli lagt fram á fyrsta fundi haustþings á hverju löggjafarþingi. Af hverju? Jú, til að Alþingi gefist tími og ráðrúm til að rýna frumvarpið, til að fjárlaganefnd gefist svigrúm til að kalla umsagnaraðila á sinn fund, til að þingmenn, jafnvel þingmenn úr fleiri flokkum en þeim sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum hverju sinni — ég veit að þetta er róttæk hugmynd — geti komið sér saman um ákveðnar breytingar á fjárlögum. Fjárveitingavaldið á að liggja hjá Alþingi, ekki bara að nafninu til heldur líka að forminu til og að efninu til. Þannig er umgjörðin okkar um opinber fjármál hugsuð. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingar, hér í dag að það er mikið áhyggjuefni hvernig hið eiginlega forræði yfir fjárlagavinnunni og fjárlagagerðinni er smám saman að færast frá þinginu yfir til framkvæmdarvaldsins. Hér kom nefnilega inn fjárlagafrumvarp í haust sem reynist svo eiginlega vera hálfgert bráðabirgðaplagg með bólgnum varasjóði sem ríkisstjórnin hafði ekki komið sér saman um hvernig yrði nýttur. Svo fara af stað umræður hér í þingsal, m.a. við ráðherra hvers og eins málefnasviðs sem margir hverjir í raun voru ekki að svara fyrir efni frumvarpsins heldur bara að vísa alltaf til þess að það væri eitthvað meira á leiðinni, þetta væri ekki endanlegt, bara svona smá tillaga einhvern veginn og meira á leiðinni. Með þessu var öll gagnrýni svolítið slegin út af borðinu, gagnrýnin umræða. Umsagnaraðilar vörðu talsverðu púðri í að rýna og fjalla um hið upphaflega frumvarp enda fengu þeir sendar umsagnarbeiðnir um það. En svo hefur þetta eiginlega reynst marklaust plagg vegna þess að hið eiginlega frumvarp tekur ekki á sig mynd fyrr en löngu seinna þegar ríkisstjórninni þóknast að leggja fram sínar breytingartillögur sem svo meiri hluti fjárlaganefndar tekur upp og gerir að sínum. Þetta var svolítið svona í fyrra, þetta var bagalegt þá en að mörgu leyti skiljanlegt, bæði af því að Alþingi kom saman mjög seint á árinu af því það var kosið að hausti og af því að það gerðist pínulítið í Norðvesturkjördæmi, munið þið. En núna er þessi málsmeðferð og framkvæmd á lögum um opinber fjármál og þingskapalögum algjörlega óréttlætanleg í mínum huga. Ég var mjög fegin að heyra hv. formann fjárlaganefndar taka undir það hér fyrr í dag að þetta væri ekki verklag sem hugnaðist henni. Ég vona að við getum sameinast um það hér að haga þessum málum öðruvísi á næsta ári. Ef við gerum það ekki þá er algerlega tilgangslaust að vera að fá ráðherra einstakra málefnasviða til að svara fyrir frumvarpið strax í 1. umr. Þá væri jafnvel bara betra að fresta þessu samráðs- og umsagnarferli eða senda aftur út umsagnarbeiðnir eftir að 2. umr. lýkur og hið eiginlega fjárlagafrumvarpið hefur tekið á sig mynd.

Hv. þm. Kristrún Frostadóttir fór mjög vel yfir helstu efnisatriðin áðan og þau atriði sem við gerum helst athugasemdir við, annmarkana á þessu frumvarpi, það sem okkur finnst helst vanta upp á o.s.frv. Ég hef ekki miklu við hennar umfjöllun að bæta og held ég noti tíma minn hér í dag frekar sparlega og fullnýti ekki þessar mínútur. Ég vil þó koma inn á örfá atriði. Til að byrja með vil ég segja nokkur orð um almannatryggingar og málefni fólks sem reiðir sig á almannatryggingakerfið. Eins og við vitum hafa kjör öryrkja, fólks með skerta starfsgetu, dregist jafnt og þétt aftur úr kjörum fólks á almennum vinnumarkaði á undanförnum árum. Þetta gerist algerlega þvert á ákvæði 69. gr. almannatryggingalaga sem kveður mjög skýrt á um að þessar greiðslur skuli fylgja launaþróun. Tekjulægri eldri borgarar hafa líka fengið að finna fyrir þessari kjaragliðnun. Þetta sér maður bara ef maður skoðar mælaborð Tryggingastofnunar á netinu. Þriðjungur eftirlaunafólks er með lægri mánaðartekjur en nemur lágmarkstekjum á vinnumarkaði. Þetta er hlutfall sem hefur hækkað jafnt og þétt, ef maður skoðar þetta aftur í tímann, á vakt ríkisstjórnar hæstv. Katrínar Jakobsdóttur. Svo er það líka mjög sláandi staðreynd að ójöfnuður meðal eldri borgara á Íslandi er meiri heldur en meðal almennings almennt. Það er bara mjög sjaldgæft í rauninni í Evrópu að ástandið sé svona. Þar er þessu víðast hvar öfugt farið, m.a. í nágrannalöndunum okkar, t.d. Noregi, Danmörku og Finnlandi. Það er líka sláandi að gögn Eurostat benda til þess að það sé talsvert hærra hlutfall eldra fólks hér á Íslandi sem eigi erfitt með að ná endum saman heldur en í nágrannaríkjunum.

Ég vil meina að þetta sýni svolítið svart á hvítu að almannatryggingakerfið okkar er að bregðast allt of mörgum, bæði öryrkjum og tekjulágu eldra fólki. Þetta er bæði vegna þess að greiðslurnar eru of lágar út af þessari kjaragliðnun sem ég nefndi áðan og vegna þess að tekjutengdar skerðingar bíta allt of neðarlega í tekjustiganum. Ég held að við hér á Alþingi verðum að fara að taka okkur taki í því hvernig við umgöngumst þessa 69. gr. almannatryggingalaga.

Nú liggur fyrir að í þessu frumvarpi til fjárlaga, ef við tökum mið af þeim breytingartillögum sem liggja fyrir frá meiri hlutanum, munu greiðslur almannatrygginga hækka um 7,4% þann 1. janúar næstkomandi til viðbótar við 3% hækkun launa síðasta sumar. Mér sýnist að strangt til tekið sé verið að uppfylla fyrirmæli 69. gr. um að greiðslurnar skuli aldrei hækka minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. En hin fyrirmælin í 69. gr. sem hafa verið brotin trekk í trekk og mjög rækilega eru þau að ákvörðun greiðslna skuli taka mið af launaþróun. Í greinargerð þessa frumvarps segir að í ljósi þess að ekki séu fleiri kjarasamningshækkanir fyrirliggjandi á yfirstandandi kjarasamningstímabili byggi hækkunin á greiðslum almannatrygginga aðeins á verðbólguforsendum að þessu sinni. Auðvitað hefði það verið hægt, a.m.k. ef það væri pólitískur vilji til að afla tekna á móti, til að vega á móti þensluáhrifum af auknum útgjöldum, að hækka greiðslur almannatrygginga meira og hefjast handa við að loka þessu gati, kjaragliðnunargati, sem hefur myndast. En það er alveg ljóst af þessum fjárlögum að það stendur ekki til og ég hef því miður engar væntingar um það. En þá vil ég bara leggja á það mjög þunga áherslu, og við í Samfylkingu gerum það, að um leið samningar nást núna á næsta ári og um leið og það fer að komast einhver mynd á launaþróun á næsta ári, þá verði farið í það að hækka greiðslur til samræmis við hækkun á vinnumarkaði. Nú höfum við þegar fordæmi um það að greiðslurnar séu hækkaðar á miðju ári þannig að ég held að þetta sé eitthvað sem við verðum að huga sérstaklega að. Ég vil skora á stjórnarmeirihlutann á Alþingi að gefa öryrkjum þessa lands og tekjulægra eldra fólki mjög skýr skilaboð um að þessi kjaragliðnun milli launa og lífeyris verði stöðvuð af því að þetta er ekki bara brot gegn 69. gr., þetta er ekki bara brot gegn lögum um almannatryggingar heldur er þetta óréttlátt og þetta er ósæmilegt. Þessi framganga er ekki samboðin alvöruvelferðarþjóðfélagi. Þannig er það bara.

Ég ætla að nota síðasta þriðjung ræðu minnar til að fara nokkrum orðum um þær aðgerðir sem við í þingflokki Samfylkingarinnar kynntum í dag, sem er í rauninni okkar andsvar, okkar stóra framlag inn í þessa fjárlagaumræðu. Þetta eru tillögur að aðgerðum sem snúast annars vegar um það að verja heimilisbókhaldið hjá almenningi á tímum verðbólgu og vaxtahækkana og hins vegar að sporna gegn þenslunni og vinna á verðbólgunni með mjög skynsamlegum og hnitmiðuðum sértækum aðgerðum á tekjuhlið ríkissjóðs. Nú er staðan þannig í samfélaginu að greiðslubyrði íbúðalána hjá nýjum lántakendum hefur aukist að meðaltali um 13.000–14.000 kr. á mánuði frá ársbyrjun 2020 fram í ágúst 2022. Við erum að tala um rúmlega 160.000 kr. á ári. Það kemur fram í minnisblaði frá Seðlabanka Íslands sem fjárlaganefnd Alþingis fékk. Dreifingin á þessari auknu greiðslubyrði er mjög misjöfn og hjá fjölda heimila erum við að tala um marga tugi þúsunda á mánuði. Þetta er kostnaður sem er að bætast ofan á almennar verðlagshækkanir. Verðlagseftirlit ASÍ hefur áætlað að mánaðarleg útgjöld fjölskyldu með tvö börn sem býr í eigin húsnæði og er með 50 millj. kr. lán hafi hækkað um 128.000 kr. á síðastliðnu ári. Þetta eru risastórar fjárhæðir, heilmikill kostnaður.

Einu sinni var nú kerfi hérna sem greip fólk við svona aðstæður. Það hét vaxtabótakerfi. Ég segi einu sinni af því það er varla svipur hjá sjón lengur. Það var einmitt hannað til að dempa höggið við nákvæmlega svona aðstæður og létta undir með heimilum þegar greiðslubyrði af húsnæðislánum rýkur upp í þessu óstöðuga hagkerfi okkar. Samkvæmt greinargerð með fjárlagabandorminum er gert ráð fyrir að það verði bara áframhald á þeirri þróun að vaxtabótakerfið drabbist niður, að vaxtabætur skerðist. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikil hækkun fasteignamats ásamt hærri tekjum mun leiða til aukinna skerðinga á árinu 2023 og mun hækkun vaxta hafa takmörkuð áhrif vegna mikilla skerðinga.“

Það sem þetta þýðir er bara að vaxtabætur skerðast um samtals 400 millj. kr. Hátt í 90% þeirra sem fá vaxtabætur verða fyrir auknum skerðingum við það að fasteignamatið sé hækkað hjá Þjóðskrá. Framteljendum sem fá óskertar vaxtabætur fækkar um 170 og framteljendum sem verða fyrir fullum skerðingum, þ.e. heimilum sem falla alveg út úr vaxtabótakerfinu, fjölgar um tæplega 2.800. Þetta er húsnæðisstuðningsstefnan sem er rekin á vakt þessara þriggja flokka. Þetta eru þessi miklu velferðarfjárlög, svo ég noti nú það hugtak sem ég heyrði hér áðan frá þingmanni úr stjórnarliðinu.

Það er bara mjög aðkallandi, frú forseti, að við vindum ofan af þessari stefnu. Þess vegna leggjum við í Samfylkingu til að eignarskerðingarmörkin í vaxtabótakerfinu hækki um a.m.k. 50%. Þá erum við í rauninni að leiðrétta þessi eignarskerðingarmörk sem hafa staðið í stað síðan 2018, leiðrétta þau fyrir þeirri hækkun húsnæðisverðs sem hefur átt sér stað frá því í heimsfaraldri. Þá fór af stað ákveðin fasteignabóla og verð rauk upp úr öllu valdi eins og við þekkjum. Samkvæmt minnisblaði sem skattskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins vann að beiðni efnahags- og viðskiptanefndar þá er þetta hækkun sem myndi kosta 700 milljónir og þessar milljónir renna að langmestu leyti til fjórðu, fimmtu og sjöttu tekjutíunda. Þetta eru heimili sem hafa fundið mest fyrir vaxtahækkunum undanfarna mánuði og mestu áhrifin eru hjá einhleypu fólki, einstæðum foreldrum sem hafa lágan tekjustofn og verða þannig ekki fyrir miklum skerðingum vegna tekna en hafa eignastofn sem er nálægt þessum efri mörkum. Það skiptir því gríðarlegu máli að hækka þessi mörk. Svo er þarna tekjutíund fyrir neðan sem þarf að taka utan um með öðrum hætti. Þar verðum við að hafa í huga að mikið af því fólki er á leigumarkaði og þess vegna höfum við í Samfylkingu lagt til að það verði lögð á leigubremsa að danskri og skoskri fyrirmynd. En við teljum líka eðlilegt að hækka aðeins húsnæðisbætur og styðja betur við fólk í gegnum barnabótakerfið, bæði með því að auka stuðning sem er veittur með hverju barni og með því að auka þekjuna á kerfinu, þ.e. hækka viðmiðunarmörkin þannig að bæturnar nái til fleiri fjölskyldna og fjölskyldur séu ekki að detta út úr kerfinu. Það er fullt svigrúm til að gera þetta og þetta er mjög mikilvæg aðgerð og þetta er mikilvæg samstöðuaðgerð á svona tímum þegar það er mikil verðbólga og vextir eru að hækka.

Við leggjum líka áherslu á það að við í stjórnmálunum getum ekki látið Seðlabankanum það einum eftir að vinna á verðbólgunni. Einmitt þess vegna kynntum við líka í dag aðhaldsráðstafanir á tekjuhlið ríkissjóðs. Heildaráhrifin af þessum tillögum sem við kynntum í dag eru í raun afkomubætandi fyrir ríkissjóð og myndu þannig hjálpa til við að ná niður verðbólgunni. Tekjurnar sem við erum að kalla eftir að verði sóttar eru meiri heldur en þau útgjöld sem við erum að boða. Þá held ég að við þurfum að huga sérstaklega að því að það eru ákveðnir geirar í efnahagslífinu sem standa alveg gríðarlega vel og þurftu ekki að bera gríðarlega þungar byrðar á Covid-tímanum. Í ákveðnum greinum, ef við tökum t.d. sjávarútveginn og stórútgerðirnar þar sem útflutningsverð sjávarafurða hefur hækkað alveg gríðarlega, m.a. vegna stríðsins í Úkraínu og viðskiptaþvingana Evrópusambandsins og Vesturlandanna gegn Rússum, hafa útflutningsafurðir hækkað alveg gríðarlega í verði og stóru útgerðirnar á Íslandi njóta góðs af því. Þegar það verður til svona hvalrekagróði þá er eðlilegt að sækja auknar tekjur þangað. Bankarnir eru annað dæmi. Viðskiptabankarnir þrír skiluðu rúmlega 80 milljarða kr. hagnaði í fyrra. Þar skiptir auðvitað sköpum þessi tugmilljarða stuðningur sem bankarnir fengu í rauninni með óbeinum hætti frá skattgreiðendum þegar fyrirtækjum í ferðaþjónustu og fleiri greinum var forðað frá gjaldþroti á tímum farsóttarinnar. Sá stuðningur til þeirra fyrirtækja frá skattgreiðendum forðaði auðvitað bönkunum frá gríðarlegu útlánatapi og skipti sköpum fyrir þá, auk vaxtalækkana og þenslu á íbúðalánamarkaði.

Ég er farinn að hallast að því að það hafi verið farið allt of geyst í það að lækka bankaskatt árið 2020. Það er bara ekki mjög virk samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði og undir slíkum kringumstæðum er það dálítil óskhyggja að vonast bara til þess að bankarnir skili sjálfkrafa einhverjum skattalækkunum til neytenda og þetta birtist beint í vaxtamuninum. Ég held, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni, að það megi sannarlega efast um að þetta hafi skilað sér með áþreifanlegum hætti eða skilað verulegum ábata til neytenda. En það sem við vitum hins vegar er að bankaskatturinn myndi skila allt að 9 milljörðum meiri tekjum á næsta ári ef skatthlutfallið væri hið sama og það var árið 2020. Hér held ég að sé líka borð fyrir báru og það sé æskilegt og eðlilegt að sækja auknar tekjur þangað til að ná einmitt fram aðhaldi og til að auka tekjur ríkissjóðs og hjálpa þannig til við að vinna gegn þenslunni og vinna hraðar á verðbólgunni og þar með ná vaxtastiginu hraðar niður.

Loks vil ég nefna fjármagnstekjuskattstofninn. Það hafa verið innleidd frítekjumörk í kerfið á undanförnum árum sem gera það að verkum að hækkun á skatthlutfallinu sjálfu leggst nær einvörðungu á tekjuhæstu 10% skattgreiðenda. Það er þannig hægt að hækka fjármagnstekjuskattinn úr 22% upp í 25% án þess að þorri fólks finni nokkuð fyrir því. Þetta eru 4,5 milljarðar u.þ.b. sem leggjast nær einvörðungu á tekjuhæstu 10% skattgreiðenda. Til samans, með þessu og að ráðast í aðgerðir til að girða fyrir það að atvinnutekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur, ætti þetta að skila u.þ.b. 17 milljarða kr. tekjum sem myndi aldeilis muna um.

Ég verð bara að segja að mér finnst það mjög glannalegt þegar árferðið er þannig í íslensku efnahagslífi að það er mikill hagvöxtur, hátt atvinnustig og það er þensla, að leggja fram fjárlagafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir 89 milljarða rekstrarhalla á næsta ári og þrátt fyrir að svo komi fram enn þá dekkri verðbólguspá og vextir hækki enn meira, þá séu það viðbrögð fjárveitingavaldsins á Alþingi eða meiri hlutans í fjárlaganefnd að auka enn á þennan halla, þ.e. keyra hann upp í 118 milljarða, stórauka útgjöld án þess að vega á móti þensluáhrifunum af þeim með því að sækja auknar tekjur. Ég kalla eftir aukinni ábyrgðartilfinningu í ríkisfjármálum. Mætur maður sagði einu sinni að traust efnahagsstjórn væri stærsta velferðarmálið, var það ekki? Ég held að við ættum að gera hans orð að okkar.