Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:58]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hitti svolítið naglann á höfuðið því að auðvitað er þetta ekki boðlegt gagnvart umsagnaraðilum sem margir hverjir eru jafnvel að leggjast í ákveðna talnavinnu og rýni, að bjóða fólki upp á það að skila umsögn um hálfklárað bráðabirgðaplagg. Ég velti því fyrir mér bara í fúlustu alvöru hvort það þurfi þá ekki að taka upp tvöfalt umsagnarferli ef þetta á að vera svona til frambúðar, senda aftur út núna umsagnarbeiðnir til sömu aðila, taka saman nákvæmlega þær breytingar sem hafa verið gerðar í millitíðinni til að þetta samráðsferli skili einhverju í raun og veru. Hér er bara verið að búa til ægilegt flækjustig og í rauninni dregur það mjög úr gagnsæi þessarar fjárlagavinnu að nálgast hlutina með þessum hætti, verð ég að segja.