Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:12]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér kemur hv. þingmaður inn á mjög mikilvægt atriði sem er tekjuskiptingin á milli ríkis og sveitarfélaga sem hefur verið bitbein um margra ára bil. Ég vil nú segja það að ég sjálfur alla vega myndi ekki ætlast til þess af t.d. Pírötum eða öðrum flokkum í stjórnarandstöðu að leggja fram einhverja heildarlausn á þeim málum í nefndaráliti. Mér finnst það eiga að vera á verksviði ríkisstjórnar, þeirra sem halda um stjórnartaumana, að móta samræmda stefnu í þessum efnum. En hvað varðar t.d. málefni fatlaðs fólks þá finnst mér einboðið að ríkissjóður eigi að fjármagna þessa þjónustu almennilega og það þurfi ekkert endilega að gera það með því að auka tekjustofna sveitarfélaga að öðru leyti, alla vega í þessu einstaka tilviki. Þetta er lögbundin þjónusta sem var færð yfir á sveitarfélögin sem hefur einfaldlega alltaf verið vanfjármögnuð og það er ríkissjóður sem hefur tækin til að afla tekna, miklu fleiri og fjölbreyttari leiðir til þess. Það er hægt að gera þetta í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það eru ýmsar leiðir. En mér finnst algerlega borðleggjandi að þegar kemur að þessum atriðum, lögbundnum verkefnum sem hafa verið flutt yfir á sveitarfélög án þess að nægilegt fjármagn fylgi, og þegar það hefur verið bent á það í áraraðir og var bent á það jafnvel þegar lögin voru sett á sínum tíma, þá beri ríkinu skylda til að fjármagna þetta og stjórnarmeirihlutinn beri ábyrgð á því. Þetta ætti auðvitað í mínum huga að vera hluti af einhverri heildarsýn þeirrar ríkisstjórnar sem situr hverju sinni á meðan hlutverk okkar í minni hlutanum er kannski meira að leggja til lausnir á ákveðnum atriðum (Forseti hringir.) frekar en að ætlast til þess að fjárlög ríkisstjórnar hverju sinni séu nákvæmlega í samræmi við okkar stefnu. (Forseti hringir.) Við getum farið betur yfir þetta á eftir.