Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

Störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Öllum er tryggður réttur til aðgangs að dómstólum í stjórnarskránni. En hvaða allir eru það? Ef tekin er ákvörðun um að brottvísa einstaklingi þá frestar dómsmálshöfðun ekki réttaráhrifum? Hvað þýðir það? Það þýðir að viðkomandi er sendur úr landi áður en hann getur farið með mál sitt lengra. Það þýðir í praxís að ákveðnum hópi fólks, fólkinu sem er í hvað viðkvæmastri stöðu, er neitað um sjálfsagðan rétt til að fá mál sitt endurskoðað. Úrskurðir og framkvæmd útlendingayfirvalda hafa sætt mikilli gagnrýni undanfarið. Dómsmálaráðherra hefur komið með stóryrtar fullyrðingar um að svona séu lögin og að fólk, sem var vísað á brott, hafi verið í ólöglegri dvöl, að úrskurðir útlendingayfirvalda séu yfir allan vafa hafðir. Hins vegar er erfitt að slá því föstu þegar þessir úrskurðir sæta aldrei endurskoðun dómstóla.

Það dró til tíðinda þegar flóttamanni tókst í október síðastliðnum að vinna mál fyrir héraðsdómi. Niðurstaðan varð sú að útlendingayfirvöld hefðu brotið lög með því að kenna honum um þær tafir sem urðu á máli hans vegna heimsfaraldurs Covid og ráðstafana sem gerðar voru vegna hans. Þau höfðu ekki aðeins synjað honum á þessum forsendum heldur fleiri tugum ef ekki hundruðum einstaklinga, nákvæmar tölur eru á reiki, fólki sem var flutt úr landi um leið, því að kæra af þessu tagi frestar ekki brottvísun; fólki sem nú er á vergangi einhvers staðar, er ekki með gild ferðaskilríki og finnst jafnvel ekki. Kærunefnd útlendingamála hefur úrskurðað að margt af þessu fólki eigi rétt á endurupptöku.

Til hvers eru lög og réttur og úrskurðir þegar ekki er hægt að beita þeim? Til hvers eru mannréttindi ef þau gilda ekki fyrir allt fólk? Það er í öllu falli ljóst að úrskurðir og framkvæmd útlendingayfirvalda á Íslandi eru alls ekki yfir allan vafa hafin heldur þvert á móti. Það er kominn tími fyrir mannúð, að mannréttindaákvæði stjórnarskrár gildi fyrir alla því að annars búum við ekki lengur í réttarríki.