Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

Störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Með leyfi forseta: „Ég er náttúrlega í þessum hagræðingarhópi og þar liggur allt undir. Mér finnst óeðlilega mikið fjármagn fara í rekstur RÚV. Sérstaklega þegar þeir eru ekki að standa sig betur í fréttaflutningi.“

Þessi orð Vigdísar Hauksdóttur, þáverandi þingmanns Framsóknarflokks og formanns fjárlaganefndar, komu upp í hugann í gær þegar Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði þá kröfu héðan úr ræðupúlti Alþingis að Ríkisútvarpið rétti pólitíska slagsíðu sína. Þá spyr ég: Hvað felur þessi krafa í sér? Á RÚV ekki að fjalla um uppsögn forstjóra Sjúkratrygginga Íslands vegna fjársveltis? Má RÚV ekki segja frá því að skurðlæknar séu með kvíðahnút í maganum fyrir hönd sjúklinga vegna þess að skurðstofur standa tómar á Landspítala á meðan biðlistar lengjast vegna skorts á hjúkrunarfræðingum? Á RÚV að þegja yfir því að seðlabankastjóri hafi þungar áhyggjur af auknum útgjöldum ríkisins? Hann hafi hvatt ríkisstjórn og þing til að ná fram aðhaldi til að hemja verðbólgu, ekki auka ríkisútgjöld. Á RÚV ekki að fjalla um Evrópusambandið, málefni innflytjenda eða önnur þau mál sem stjórnvöldum þykja óþægileg í bergmálshellinum sínum?

Herra forseti. Á síðustu árum hefur Ísland fallið úr áttunda sæti lista yfir þau lönd þar sem íbúar njóta mests fjölmiðlafrelsis niður í 16. sætið. Höfum í huga að þetta snýst um þá grundvallarhagsmuni almennings að við höfum frjálsa og gagnrýna fjölmiðla sem geta gefið almenningi upplýsingar og veitt stjórnvöldum og hagsmunaöflum aðhald. Stjórnvöld sem ráða ekki við slíkt aðhald og vilja stýra umfjöllun sér í hag þurfa virkilega að hugsa sinn gang.