Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

Störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á viðtali sem tekið var við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra fyrr í dag í ljósi þeirrar umræðu sem var í gangi í gær og heldur áfram í dag um fjárlög ríkissjóðs. Það er vægt til orða tekið varúðartónn í seðlabankastjóra sem segir m.a. í viðtalinu sem birtist á mbl.is, með leyfi forseta, þar sem rætt er um útgjaldaaukningu:

„Við erum ekki hrifin af því, þetta gerir okkar verk erfiðara. Aukin ríkisútgjöld á þessum tíma hafa ekki jákvæð áhrif á verðbólgu.“

Þetta segir Ásgeir í þessu viðtali við mbl.is og áfram heldur hann, með leyfi forseta: „Þetta mun mögulega hægja á því að við náum verðbólgu niður.“

Aðspurður um það hvort samráð eða samtal hafi átt sér stað milli stjórnvalda og Seðlabankans svarar seðlabankastjóri því til, með leyfi forseta: „Nei. Ég veit ekki hvað við getum gert í því, ég hef lagt fram hvatningu bæði við þing og stjórn um að ná fram aðhaldi.“

Þetta passar við það sem seðlabankastjóri sagði í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið 7. október 2022, með leyfi forseta:

„Í ljósi nýlegrar þróunar verðbólgu telur Seðlabankinn brýnt að ekki verði vikið frá því að aðhaldi í ríkisfjármálum verði beitt á næstu misserum. Með því geta ríkisfjármálin lagst á sveif með Seðlabankanum í baráttunni við verðbólgu og dregið úr þörf vaxtahækkunar.“

Þetta er allt saman einfalt og skynsamlegt sem seðlabankastjóri segir hér. En í gær kom það fram hjá formanni fjárlaganefndar sem mælti fyrir áliti meiri hluta fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarpið að það væri verið að vinna með peningastefnunni. Peningastefnu hverra? Er Vinstrihreyfingin – grænt framboð með einhverja sér peningastefnu? Er ríkisstjórnin með aðra peningastefnu heldur en Seðlabankinn? Virðulegur forseti getur kannski aðstoðað okkur þingmenn við að glöggva okkur á því hvaða peningastefnu meiri hluti hv. fjárlaganefndar er að taka tillit til og vinna með.