Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

Störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það var í síðustu viku sem ég lagði fram breytingartillögu um 360 millj. kr. aukafjárveitingu til handa þeim hluta eldra fólks sem býr í sárri neyð, sem hefur ekki hlotið náð fyrir augum hæstv. ríkisstjórnar og fengið þessa ríflega 60.000 kr. eingreiðslu í desember. Ég velti fyrir mér þegar við erum á þeim stað að hæstv. fjármálaráðherra óskar eftir 6 milljarða kr. fjárveitingu eða umboði til að geta keypt í Snobbhill, eins og ég kalla það, hérna niðri á Vesturbakka, nýja fína Landsbankahúsinu á dýrustu lóð á landinu og þótt víðar væri leitað — og nú nýlega þegar við sjáum það að í Seðlabankanum er verið að mublera og sjæna upp fyrir ríflega 3 milljarða kr. í Seðlabanka hæstv. seðlabankastjóra, hins ágæta seðlabankastjóra, sem taldi það hluta af þessari óheillaþróun verðbólgunnar að Íslendingar sýndu of mikið á sér tærnar úti á Kanarí — eða var það Tenerife, svo ég fari rétt með? Ég er að vona af öllu hjarta þegar við horfum hér á það sem ég kalla bruðl upp á 9 milljarða kr., forgangsröðun fjármuna, lítilsvirðandi gagnvart þeim þjóðfélagshópi sem þarf á okkur að halda — ég lifi enn í voninni, ekki eins og í laginu „Ég lifi í voninni að ég geispi ekki golunni“, þótt ég geri það að sjálfsögðu líka, en ég lifi enn í voninni um það að ágætur fjármálaráðherra og ágæt hæstv. ríkisstjórn skipti nú um skoðun og taki utan um þennan þjóðfélagshóp, eldra fólk í sárri neyð og gefi þeim þessar ríflega 60.000 kr. í eingreiðslu núna fyrir jólin.