Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:39]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir mikilvægt að hrósa fyrir vel unnin verk en hér er um miklar framfarir að ræða í fjárlögum. Það er margt gott í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2023 en betur má ef duga skal og ætla ég að drepa á nokkrum atriðum í þessari ræðu minni. Til að byrja með þykir mér varhugavert að ríkisstjórnin grípi ekki til neinna markvissra aðgerða til að ná tökum á ástandinu á húsnæðismarkaðnum. Það verður því sífellt erfiðara að safna sér fyrir fyrstu útborguninni og dvölin á leigumarkaði, þar sem leigan hækkar með hverju nýju fasteignamati, lengist bara og lengist. Ekki bætir síðan úr skák að Seðlabankinn sé farinn að hækka stýrivexti og hafi fyrr á árinu ákveðið að þrengja frekar að fyrstu kaupendum með því að krefja þá um 15% af kaupverði eignar í útborgun í stað 10% áður. Þetta á auðvitað að kæla fasteignamarkaðinn en fyrir fjölmarga þjóðfélagshópa var fasteignamarkaðurinn þegar í frosti. Hvort sem það eru fyrstu kaupendur, námsmenn eða lágtekjufólk þá hafa stórir hópar fólks orðið úti. Ég þarf ekki að fara í smáatriðin út í vítahringinn sem skapast þegar menn festast á almennum leigumarkaði í tíma og ótíma en ég skal segja eitt: Staðan er alvarleg, bæði fyrir fólk sem hafði tök á því að kaupa sér íbúð áður en markaðurinn rauk upp, enda hefur greiðslubyrðin á venjulegum lánum tvöfaldast frá því að lánin voru sem lægst, þ.e. í mars 2021, og einnig fyrir fólk sem er fast á leigumarkaði því að það hefur einfaldlega ekki tök á því að ganga að skilyrðunum sem eru sett fyrir greiðslumati. Þessir hópar finna líka mest fyrir öllum hinum verðhækkunum; matarkarfan er dýrari, það er dýrara að koma sér á milli staða og fyrir vikið hafa þau minna á milli handanna til að greiða fyrir allt hitt sem virðist líka bara hækka og hækka í verði. Það eitt og sér er ergilegt en það sem er enn ergilegra er að þetta kemur engum á óvart. Við höfum fylgst með þessari þróun mánuðum saman og það er eins og ekki sé hægt að gera neitt til að sporna við þessu annað en að hækka stýrivexti og fækka nýjum fasteignaeigendum. Þetta er auðvitað ekki séríslenskt vandamál. Allt í kringum okkur eru þjóðir að takast á við svipaðar áskoranir og við en það þýðir ekki að við getum ekki gripið til séríslenskra aðgerða. Ég ætla ekki að setja mig á háan hest og segjast vita nákvæmlega hvað þurfi að gera, en þarf ekki einfaldlega að byggja miklu meira, takmarka hvað fólk má eiga margar fasteignir? Eiga stjórnvöld að ráðast í sértækar aðgerðir til að styðja við viðkvæma hópa í gegnum þessar miklu hækkanir? Fella tímabundið niður opinberar álögur á nauðsynjavörur? Það má sjá ýmislegt fyrir sér en ég ætla að láta fróðara fólk en mig sjá um að útfæra hvað þarf að gera svo lengi sem það er gert. Og jú, húsnæðisverð er að hækka og hækka sem skilar sér vel á pappír fyrir þau sem eiga íbúðir en svo er það annað mál hvað þau gera ef þau ákveða að selja íbúðina sína og raungera ágóðann því að allt annað húsnæði hefur þá hækkað sömuleiðis og umræddur ágóði núllast út frekar hratt.

En hvernig ætlar ríkisstjórnin að leysa þennan gífurlega húsnæðisvanda? Það er almennt mjög óljóst. Við þurfum að byggja mjög margar íbúðir á næstunni til að mæta eftirspurn og eins og við vitum vel er verðbólga að miklu leyti drifin áfram af hækkandi húsnæðisverði. Ýmsar greiningar hagfræðinga hafa sýnt fram á þetta trekk í trekk. Það er hægt að leysa verðbólgu á tvo vegu, annars vegar með því að framleiða meira af varningi eða hins vegar með því að minnka eftirspurn eftir varningi. Nú eru stýrivaxtaaðgerðir Seðlabankans miðaðar að því að takmarka lánaframboð, gera fólki erfiðara með að fá lán fyrir íbúð. En er það nóg? Hvar lenda stýrivextir? Til að byrja með er verðbólgan búin að lenda á fólki með verðtryggð lán. Þegar stýrivextir eru hækkaðir lendir sú hækkun á lánum fólks með breytilega vexti og í þessu tilfelli er hækkun á stýrivöxtum viðbrögð við verðbólgu þannig að það má í raun segja að lán á breytilegum vöxtum séu ekkert annað en verðtryggð lán þegar allt kemur til alls, bara með aðeins meiri fínstillingum. Stýrivaxtaaðgerðir snúa að eftirspurnarhliðinni en aukin uppbygging á húsnæðismarkaði er hin hliðin. Það er sú hlið sem hefur verið vanrækt síðasta áratug ef ekki lengur aftur í tímann.

Í nefndaráliti frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kemur fram að gert sé ráð fyrir því að byggja 35.000 íbúðir á næstu tíu árum. Í nefndarálitinu stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir að byggðar verði 35.000 íbúðir á næstu 10 árum. Samkvæmt bráðabirgðamati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem kom út í maí sl. þarf að byggja allt að 5.000 fleiri íbúðir á því tímabili til þess að ná uppsafnaðri þörf. Samt segir innviðaráðherra í grein á Visir.is, bara nokkrum dögum seinna, að það þurfi að byggja 35.000 nýjar íbúðir á næstu 10 árum: „Brýnasta verkefni samfélagsins nú og næstu misseri er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Það er ljóst að skortur á nýjum lóðum og nýju húsnæði hefur ekki aðeins áhrif á ungt fólk og barnafjölskyldur sem eru að koma inn á markaðinn eða stækka við sig heldur einnig alvarleg áhrif á hækkun vísitölu og verðbólgu. Í kjölfarið kemur svo þrýstingur á vexti og laun. Hættan er því sú að til verði vítahringur sem verður öllu samfélaginu dýr.“

HMS segir að 35.000 íbúðir séu ekki nóg af því að það „vantar þó að gera ráð fyrir uppsafnaðri þörf og því líkur á að um ákveðið vanmat sé að ræða.“ Örstuttu seinna segir ráðherra að 35.000 sé málið. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga gera nú þegar ráð fyrir því að það verði byggðar 35.000 íbúðir á næstu 10 árum, algerlega án þess að ríkisstjórnin skipti sér eitthvað frekar af málinu.“

Húsnæðisvandinn varð til undir forystu þessara þriggja flokka sem hafa lítið sem ekkert gert til að auka framboð á húsnæðismarkaði en allt til að auka eftirspurn. Krísan sem blasir við ungu fólki í dag og fyrstu kaupendum er krísa ríkisstjórnarinnar.

Ég ætla bara að fá að taka undir sjónarmið hv. þingmanns sem koma fram í þessu nefndaráliti enda mikið til í þeim.

Þar sem ég er að tala um húsnæðismál þykir mér rétt að rifja upp óundirbúna fyrirspurn sem ég beindi að hæstv. heilbrigðisráðherra í síðustu viku. Ég spurði út í stöðu heimilislauss fólks á Íslandi, nánar tiltekið stöðu heimilislauss fólks með vímuefnavanda. Mér þykir nauðsynlegt að ítreka punktana sem komu fram í fyrirspurninni minni en fjárlögin gera ekki ráð fyrir því að fjölga íbúðarhúsnæði og þá sérstaklega úrræðum fyrir heimilislaust fólk. Neyðarskýli loka á milli tíu á morgnana og fimm á kvöldin og það eru bara þrjú neyðarskýli í Reykjavík. Ég hefði viljað sjá skýrt plan í fjárlögum til að koma til móts við þann vanda sem hér ríkir. Ein heimilislaus manneskja er einni heimilislausri manneskju of mikið.

Nú er ég búin að stikla á frekar stóru þegar kemur að húsnæðismálum og ætla að færa mig yfir í svolítið leiðinlegri mál.

Forseti. Við erum dugleg að bera okkur saman við nágrannaríki okkar á þeim sviðum sem eru leiðandi í en eigum það til að geyma samanburðinn þegar kemur að öðru, eins og stýrivöxtum og vaxtagjöldum. Í Danmörku eru stýrivextir 1,25% og í Svíþjóð og Noregi 2,50%, nú síðast í nóvember.

Forseti. Maður spyr sig hvers vegna þessi þróun hefur átt sér stað. Kannski er það gjaldmiðillinn okkar eða kannski hefur það að gera með áherslur stjórnvalda í hagstjórn, áherslur sem snúast almennt um að hampa fjármagnseigendum á kostnað þeirra sem þurfa að taka lán. Hver hefur hagnaður bankanna verið á árinu til að mynda? Fleiri tugir milljarða. Og hver ber þungann af þeim hagnaði? Er það vinnandi fólk í landinu? Eins og ég sagði áðan lenda stýrivaxtahækkanir á lánum fólks með breytilega vexti og þetta er eitt stærsta réttlætismál okkar tíma.

Forseti. Eins og hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir benti á í ræðu sinni í gær eru 300 manns sem bíða eftir því að geta hafið afplánun í fangelsi og ég velti því bara fyrir mér hvernig unnt sé að stytta þennan biðlista. Staðan er vægast sagt óboðleg. Fangelsin eru yfirfull og við erum að sjá fáránlegustu dóma falla sem hafa að gera með neysluskammta eða grasræktun. Væri ekki aukinn sparnaður fólginn í því að afglæpavæða vörslu neysluskammta vímuefna? Yrði það ekki bót fyrir lögregluna, dómsvaldið og fangelsin að þurfa ekki að handtaka og fangelsa fólk fyrir það eitt að vera með einhver grömm á sér, fólk sem er ekki uppspretta vímuefnavandans heldur afleiðing þess? Það er kominn tími til að við byrjum að endurhugsa nálgun stjórnvalda þegar kemur að þessum málum. Það er kominn tími til að við byrjum að hugsa í orsök og afleiðingar þannig að við séum ekki sífellt að synda hundasund, troða marvaðann. Stríðið gegn vímuefnum er tapað. Það virðist ekki skipta máli hversu miklum peningum og starfskröftum við verjum í það. Einhvern veginn standa vímuefnin alltaf uppi sem sigurvegari. Ekki einu sinni langstærsta haldlagning á kókaíni í sögunni á Íslandi er talin hafa nein teljandi áhrif á vímuefnamarkaðinn.

Það er eflaust góður vilji á bak við það að ráðast í stórar og umfangsmiklar aðgerðir til að gera vímuefni upptæk. Vímuefni geta verið skaðleg og því auðvelt að sjá hvers vegna reynt er að minnka framboðið á þeim. En sú aðferð að verja takmörkuðum tíma og fjármunum lögreglunnar í slíkar aðgerðir virðist þó ekki skila árangri, því miður. Ef ein aðferð virkar ekki þá hljótum við að þurfa að skoða aðrar. Það er galið að fara sömu leiðina aftur og aftur en búast við annarri niðurstöðu. Með því að beina sjónum okkar að annars konar nálgun getur ríkið sparað töluvert fjármagn sem annars færi í þessar aðgerðir og hægt væri að nýta til að stuðla að meiri skaðaminnkun. Ef stjórnvöld viðurkenna loksins að hvorki framboðið né eftirspurn eftir vímuefnum mun fara minnkandi í bráð þá verður hægt að grípa til annarra aðgerða. Fyrsta skrefið, eins og ég kom inn á hér rétt áðan, er afglæpavæðing. Með afglæpavæðingu er byrðunum létt af vímuefnaneytendum, neytendum sem eiga heima í heilbrigðiskerfinu en ekki refsivörslukerfinu. Með afglæpavæðingu og skaðaminnkun að leiðarljósi verður hægt að stuðla að meiri fræðslu og forvörnum í stað þess að nýta fjármagnið í að grípa til aðgerða sem hafa ekki nokkur áhrif á markaðinn. Leggja áherslu á að hjálpa fólki sem vill hætta neyslunni og koma í veg fyrir að fleiri verði háð til að byrja með. Þetta er nálgun sem hefur sannað gildi sitt víða um heim. Nálgunin sem íslensk stjórnvöld hafa hins vegar beitt er einfaldlega ekki að skila árangri.

Þykir mér þá rétt að benda á það að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á landsfundi sínum í síðasta mánuði ályktun, minnir mig, um að afglæpavæða neysluskammta vímuefna sem hefur ekki verið gert hingað til. Þetta er stór yfirlýsing af hálfu flokks sem er í ríkisstjórn og hefur staðið í vegi fyrir að þetta frumvarp nái í gegnum þingið árum saman. En nú er þetta samþykkt og var samþykkt af fulltrúum landsfundar Sjálfstæðisflokksins og ég fagna því rosalega mikið og væri til í að sjá það á borði en ekki einungis í orði.

Rétt þykir mér líka að minna á það að þingsályktunartillaga sem var borin upp um að afglæpavæða neysluskammta vímuefna var samþykkt fyrir níu árum á Alþingi, árið 2013. Ég held að við öll sem erum frjálslynd og trúum á skaðaminnkun sjáum að það að afglæpavæða neysluskammta vímuefna myndi einungis vera bót fyrir vímuefnaneytendur, fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir refsivörslukerfið, fyrir fangelsin, það myndi létta byrðinni af lögreglumönnum. Ég sé í alvörunni ekki skaðann við að henda þessari aðgerð bara í framkvæmd. Óskandi væri að vandinn væri ekki svona djúpstæður og teygði sig ekki þvert á heimsálfur og þjóðfélagshópa, en nú er komið gott af afneitun og tími til kominn að grípa til aðgerða, skaðaminnkandi aðgerða. Það gerir engum gott, ekki neytendum, ekki ríkissjóði, lögreglunni eða samfélaginu að halda áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið á hingað til.

Annað sem má ræða er réttarstaða burðardýra í réttarkerfinu. Þungir dómar í vímuefnamálum eru algengari á Íslandi en í öðrum nágrannalöndum okkar. Til að nefna dæmi var burðardýr sem fékk 12 ára dóm fyrir að smygla inn vímuefnum til landsins og til samanburðar fékk maður þriggja mánaða dóm um daginn fyrir ofbeldisbrot, gróft ofbeldisbrot, gegn dætrum sínum. Þessi samanburður er galinn og maður spyr sig hvar vandinn liggi í refsivörslukerfinu okkar, hvort það sé of há sönnunarbyrði í ofbeldismálum eða hvort það sé einhvers konar dómvenja að dæma þunga dóma í vímuefnamálum. En það þarf líka að hafa í huga að fólkið sem flytur vímuefni inn til Íslands er í bágri stöðu. Það er oft í mikilli skuld og er gert að gera upp skuldir sínar með því að fara út og koma með efni inn til landsins. Það getur ekki neitað þessari beiðni sem kemur frá höfuðpaurunum sem okkur tekst nánast aldrei að góma. Fólk er í neyð og á ekki annarra kosta völ en að hlýða þessum fyrirmælum. Á meðan fá burðardýrin 12 ára dóma og ekkert svigrúm er til staðar í núverandi löggjöf til að meta aðstæður þeirra sem flytja inn. Því hvet ég hæstv. ríkisstjórn til að endurskoða kerfið og lögin sem eru í kringum vímuefnaneyslu og innflutning hér á landi og hafa í huga að sparnaður gæti verið fólginn í endurskoðuðu kerfi.

Ég ætla að halda áfram að tala um löggæslumál. Í fjárlögum fyrir árið 2023 er gerð tillaga um 500 millj. kr. framlag til lögreglustarfa til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Það er gott og blessað og ég fagna því. En hvenær munum við líta á hina hliðina á peningnum? Svona glæpahópar og þessi skipulagða glæpastarfsemi myndast ekki í tómarúmi. Meira fjármagn til lögreglunnar er ekki að fara að dekka forvarnirnar sem þarf til að sporna gegn því að fólk leiðist út í glæpi til að byrja með. Vopnavæðing fangavarða er ekki að fara að sporna gegn ofbeldinu sem á sér stað í fangelsunum. Það eru aðeins tvö eða þrjú stöðugildi sálfræðinga fyrir öll fangelsi landsins. Við erum að ræða tæplega 200 fanga hérna og svo 300 í viðbót sem eru að bíða eftir því að hefja afplánun. Ef þetta á að vera raunveruleg betrunarvist þarf betri úrræði og meðferð fyrir fanga. Svarið liggur ekki í að ráðstafa aðeins fjármagni í aðgerðir til að verjast hinu og þessu heldur þarf að ráðast að rót vandans. Staða fanga innan fangelsa getur ekki haldist óbreytt og það þarf að efla geðheilsuteymin innan fangelsa. Fangelsismálastjóri hefur sagt að 50–70% af föngum séu með fíknivandamál. Hvernig væri þá til að mynda að setja meira fjármagn í geðheilbrigðisþjónustu? Hvernig væri að skapa heilbrigðis- og velferðarkerfi sem grípur fólk raunverulega þegar það er að verða jaðarsett, grípur það og býður það velkomið í samfélagið? Rót vandans er ekki glæpurinn sem slíkur heldur samfélagið og samfélagsgerðin sem knýr fólk út í það að leita samþykkis, virðingar og tilgangs í glæpastarfsemi á við þá sem þessi fjárlög virðast eiga að hafa það að markmiði að brjóta á bak aftur. Jú, við verðum að halda uppi lögum og reglu í landinu. En hvenær ætlum við að horfa á heildarmyndina. Eftir að dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að nú eigi að ráðast í stríð gegn skipulagðri glæpastarfsemi getum við litið til afrakstursins sem sambærileg stríð hafa haft. Eins og stríðið gegn fíkniefnum sem Nixon boðaði forðum og við á Íslandi tókum nokkurn veginn undir. Reynslan hefur sýnt að stríðsyfirlýsingar gegn samfélagslegum vandamálum skila sér ekki heldur þarf að ráðast að rót vandans og það þarf fjármagn til þess.

Forseti. Nú að umhverfis- og loftslagsmálum. Ég fagna því að öll málefni sem flokkast undir umhverfismál hljóta samtals rétt rúmlega heil 2% af fjárlögum. Ættum við ekki að vera þakklát fyrir þetta mikla framlag þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið? Þetta gæti verið verra. Ríkisstjórnin hefur háleit markmið um orkuskipti og kom hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar upp í pontu í gær og sagði orðrétt, með leyfi forseta: „Við verðum að taka ákvarðanir og koma aðgerðum af stað.“

Mér fannst þetta flott ræða hjá hv. þingmanni og aldrei þessu vant er ég innilega sammála hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmi Árnasyni, en sárt er að benda á að þetta eru einungis stór orð hjá honum enda er ekki að sjá á fjárlagafrumvarpinu að einhverjum stórum aðgerðum verið hrint í framkvæmd á næstunni, því miður. Orkuskiptum fylgir ábyrgð og þörf á fjármagni sem þarf að fleyta okkur langt áfram í orkuskiptunum sem við ætlum okkur að eigi sér stað og tímarammanum sem við viljum að skiptin eigi sér stað innan. Það kostar peninga að grípa til raunverulegra aðgerða í loftslagsmálum en miðað við fjárlög er eins og það sé enginn vilji til þess að setja alvörukraft í þau. Við horfum ekki upp á neinar aukningar næstu árin, hvorki í fjárhagsáætlunum, fjárlögum né breytingartillögu meiri hluta. Í stað þess t.d. að ýta undir almenningssamgöngur og hvetja fólk til þess að keyra minna leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að bílaleigur verði styrktar um heilan milljarð árið 2023 til að kaupa fleiri einkabifreiðar, sem er afar metnaðarlaus aðgerð að mínu mati. Orkuskiptin munu ekki eiga sér stað með einungis virkjunaraðgerðum. Virkjanir eru ekki að fara að bjarga okkur frá loftslagsvánni sem er nú þegar byrjuð að sýna sig, enda var methiti í síðastliðnum mánuði, nóvember, heldur þarf líka að grípa til annarra aðgerða samhliða því að virkja. Aðrar aðgerðir munu kostar pening, tíma og ábyrgð. Þetta eru stórtækar aðgerðir enda snúast þær um að bjarga komandi kynslóðum frá hamförum og það finnst mér vera ómetanlegt.

Mín kynslóð og kynslóðirnar sem koma á eftir mér munu þurfa að moka upp skítinn eftir núverandi ráðamenn, afsakið, forseti, og snúa við þróun sem verður líklega of langt leidd til að hægt verði að hafa nokkur áhrif á hana nema hægt sé að hægja á afleiðingum hennar, sem er bjartsýni í besta falli. Ef ekki er gripið til aðgerða núna, hvenær þá, forseti?

Án þess að ætla að lengja umræðuna mikið vil ég víkja stuttlega að heilbrigðismálum. Með tæplega 54 milljarða kr. viðbót inn í 2. umr. fjárlaga vill ríkisstjórnin meina að þau séu að efla þennan málaflokk. Það er gott og gilt, en að bæta við lífsnauðsynlegum viðbótum í fjárlög er ekki efling, það er sjálfsagt mál. Framlögin til heilbrigðismála í 1. umr. fjárlaga voru, liggur við, gagnslaus og nú eigum við að hoppa af gleði fyrir viðbæturnar sem voru nauðsynlegar. Hvers konar taktík er þetta? spyr ég. Eins og ég vék að í byrjun ræðu minnar er margt gott við fjárlögin 2023 og ber að hrósa fyrir það, en ég set þó spurningarmerki við þá taktík sem er beitt.

Á síðasta kjörtímabili samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Enn og aftur gera fjárlögin hvergi ráð fyrir þessar niðurgreiðslur og þykir mér það mjög miður. Það var mikið fagnaðarefni þegar Alþingi samþykkti að niðurgreiða sálfræðiþjónustu enda hægt að færa veigamikil rök fyrir því að geðheilsa falla undir 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til aðstoðar vegna sjúkleika.

Svo ég víki nánar að geðheilbrigðismálum þá ber að nefna að fjárframlög til geðheilbrigðismála virðast því miður ekki vera forgangsatriði hæstv. ríkisstjórnar. Gott dæmi um málefni geðheilbrigðismála sem hefur setið á hakanum er Kleppur. Til að mynda var sérhæfð endurhæfingargeðdeild fyrir fólk með alvarlegar geðraskanir staðsett á Kleppi en sú deild var færð niður á Hringbraut og sameinuð fíknivandadeildinni sem leiddi til þess að deildin missti tíu legupláss. Það er mikil afturför enda er ekkert leyndarmál að móttaka geðsviðs þarf að vísa fólki frá vegna skorts á leguplássi. Ég hefði haldið að þetta vandamál yrði leyst með tilkomu nýja Landspítalans sem er í vinnslu núna en það var ekki einu sinni gert ráð fyrir geðsviði þar. Hvers konar forgangsröðun er þetta?

Forseti. Að lokum ætla ég bara að ítreka það sem ég hef sagt tvisvar sinnum núna: Það er mikilvægt að hrósa fyrir vel unnin verk og ég sé að það hefur farið mikið púður í þetta fjárlagafrumvarp og ég fagna öllum góðum viðbótum þar. Ég mun halda áfram að stikla á stóru í næstu ræðu minni en hef þetta ekki lengra í bili.