Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég ætla að reyna að klára nefndarálitið mitt. Það er pínu langt en þannig er það nú þegar fjárlögin eru löng. Þetta er ansi vegleg bók sem við fáum í hendurnar að hausti til og síðan óvenjuveglegar breytingartillögur sem við fáum núna í 2. umr., sem er alveg áhyggjuefni. Það var mjög augljóst þegar við fengum frumvarpið í hendurnar að það var einfaldlega ekki búið að klára það. Eina ástæðan fyrir því er að ríkisstjórnin var einfaldlega ekki búin að koma sér saman um það hvert þau ætluðu að setja peningana. Þess vegna settu þau fullt af peningum í varasjóðinn t.d. Síðan kom aukalega hagvaxtarspáin sem sýnir að hagsveiflan er aðeins fyrr á ferðinni en búist var við, sem er gott og blessað. Þá erum við búin að flýta fjármálaáætluninni sem slíkri um eitt ár. Við erum að sjá hérna heildarjöfnuð upp á -3% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt áætlun, fjármálastefnunni, átti það að gerast á næsta ári. Við erum eiginlega einu ári á undan miðað það.

Ástæðan fyrir því að ég byrja hérna er að ég kláraði hérna áður en ég byrjaði á húsnæðismálum. Það er einn af þeim liðum þar sem ekki er búið að koma með tillögur fyrir 2. umr. Það bíður bara enn þá. Við vitum ekkert hver stefna stjórnvalda er í því enn. Það er búið að tala um að það séu einhverjir 1,7 milljarðar í varasjóðnum fyrir einhverjar húsnæðistillögur. Við höfum ekki hugmynd um nákvæmlega hvernig þær koma til með að líta út. Svo er líka talað um það að af þeim næstum því 4 milljörðum sem voru í húsnæðisstuðning eða stofnframlög á árinu 2022 hafi einungis um helmingur verið notaður og þá er tillagan að afgangurinn, 2 milljarðar, færist yfir á næsta ár, 2023. En — og þetta er rosalega stórt en — upprunalega tillagan um húsnæðisstuðninginn fyrir árið 2023 var ekki nema tæpir 2 milljarðar þannig að með tilflutningum þá endum við í sömu upphæð og í fyrra sem tókst ekki að koma í verk. Ástæðan sem við fáum í fjárlaganefnd er að það eru ekki til byggingarhæfar lóðir. Við klórum okkur í hausnum og pælum í því: Eru engar byggingarhæfar lóðir? Við skoðum skýrslu Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem sýndi að árið 2020 voru um 8.000 lóðir tilbúnar eða komnar á síðasta stig í rauninni, búið að afgreiða þær frá sveitarfélögum í áætlunum og öllu þvíumlíku. Árið 2022 eru þær 14.000, sem sagt pláss til að byggja 14.000 íbúðir. Samkvæmt öllum skilgreiningum á þetta að vera tilbúin svæði en skilaboðin sem við fáum síðan á móti eru að þetta séu ekki byggingarhæfar lóðir.

Ég fer yfir húsnæðismálin í nefndaráliti mínu og aðeins nákvæmar. Pælum aðeins í þessu. Ég segi hérna:

„Þó að verkefni ríkisins séu umfangsmikil á sviðum heilbrigðisþjónustu, menntamála og vegna annarra félagsmála þá verður að segjast eins og er að ein mestu efnahagsmistökin hafi verið gerð í húsnæðismálum á undanförnum árum. Samkvæmt greiningum Ólafs Margeirssonar er verðbólga á Íslandi fyrst og fremst vegna skorts á íbúðum. Heildarverðbólga undanfarin 10 ár hefur verið um 40%.“ — undanfarin 10 ár, uppsöfnuð verðbólga — „15 prósentustig eru vegna hækkana á húsnæðismarkaði. Það þýðir að ársverðbólga undanfarin 10 ár hefði verið um 2,3% á ári í staðinn fyrir u.þ.b. 3,5%.“

Verðbólgan hefur sem sagt verið vegna hækkana á húsnæðisverði, húsnæðismarkaði.

En hvað þýðir það, þessi munur, 1,2%? Það getur ekki verið það mikið. Jú, jú, hærri verðbólga þýðir að allt annað er dýrara á morgun en það var í gær. Mjólkurglas sem kostaði 100 kall í fyrra kostar 103,5 kr. í staðinn fyrir 102,3 kr. 1,2 kr. dýrara hljómar ekkert rosalega mikið en það eru 12 kr. fyrir þúsundkallinn, 120 fyrir 10.000 kallinn 120.000 fyrir hverjar 10 milljónir. Þetta er nálægt miðgildisárstekjum eða meðaltekjum, einhvers staðar þar á milli. Fyrir fólk t.d. með 30 millj. kr. húsnæðislán eru þetta 30.000 kr. aukalega á mánuði að meðaltali á hverju ári undanfarin tíu ár miðað við að lánið haldist í 30 milljónum allan tímann, jöfnun þarna í gangi óháð verðlagi o.s.frv. til að halda sama samanburði. Við erum tala um það að þessi auka 1,2% vegna hækkunar á húsnæðismarkaði veldur 30.000 kr. hækkun aukalega í hverjum mánuði fyrir fólk sem er með 30 milljónir í lán. Svo reiknar fólk fram og til baka miðað við sitt lán, hvort það er meira eða minna og þá hækkar eða lækkar bara miðað við það. Þetta var smá innsýn inn í þau viðmið sem er hægt að nota. Mitt lán er t.d. hærra, svo það sé sagt.

Opinbera greiningar og aðkoma ráðherra er áhugavert sjónarhorn. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir að byggðar verði 35.000 íbúðir á næstu tíu árum. Samkvæmt bráðabirgðamati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem kom út í maí síðastliðnum þarf hins vegar að byggja allt að 5.000 fleiri íbúðir á því tímabili til að ná uppsafnaðri þörf, það skortir sem sagt 5.000 íbúðir. Samt segir innviðaráðherra í grein á vísi.is bara nokkrum dögum seinna að það þurfi að byggja 35.000 íbúðir á næstu tíu árum, með leyfi forseta:

„Brýnasta verkefni samfélagsins nú og næstu misseri er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Það er ljóst að skortur á nýjum lóðum og nýju húsnæði hefur ekki aðeins áhrif á ungt fólk og barnafjölskyldur sem eru að koma inn á markaðinn eða stækka við sig heldur einnig alvarleg áhrif á hækkun vísitölu og verðbólgu. Í kjölfarið kemur svo þrýstingur á vexti og laun. Hættan er því sú að til verði vítahringur sem verður öllu samfélaginu dýr.“

Hann hefur verið samfélaginu dýr. Það er búið að vera að gerast á undanförnum tíu árum. Og innviðaráðherra kemur með að við þurfum að byggja 35.000 íbúðir en það mun samt ekki duga til að ná uppsafnaðri þörf. Það þarf að byggja 5.000 í viðbót til þess að ná því. Þetta er ekki sniðugt.

Þrátt fyrir yfirlýst mikilvægi þessa málaflokks kemst ráðherra ekki í að fjalla um málaflokkinn í flutningsræðu sinni í 1. umr. fjárlaga. Í andsvörum fullyrðir ráðherra að einhverjir peningar séu fyrir húsnæðismálum í varasjóði. En sama hvað var reynt fékkst aldrei uppgefið hvað ráðherra væri að setja mikla peninga þar, það var bara nefnd að störfum sem átti að koma með tillögur. Samt hafði ríkisstjórnin einhvern veginn komist í það að setja þessa peninga í varasjóðinn án þess að segja hversu miklir þeir væru, samt er bara ákveðin upphæð í varasjóð fyrir þetta og ýmislegt annað. Hvernig ríkisstjórnin vissi hversu mikið átti að setja er bara ósvöruð spurning: Var verið að giska eða hvað? Annaðhvort var ríkisstjórnin bara að giska eða þá að nefndin hafði það verk að úthluta ákveðið miklum peningum í húsnæðismálin og verk hennar snerist um að skipta þeim peningum milli mismunandi úrræða. Það er enn ekki ljóst hvort nefndin hafði frjálsar hendur til að tilgreina hvaða upphæð þyrfti til að koma til móts við einmitt þessar aukningar sem hafa verið á undanförnum tíu árum. Við erum að tala um tíu ár aftur í tímann og tíu ár fram í tímann varðandi það hvernig á að koma til móts við þennan aukna kostnað sem fólk hefur lent í vegna lélegra ákvarðana, vegna efnahagsmistaka ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum sem er búið að kosta þó nokkuð mikinn pening hingað til og miðað við áætlanir er ekki gert ráð fyrir því að laga það til næstu tíu ára, mjög skrýtið.

Í óundirbúinni fyrirspurn hinn 28. nóvember síðastliðinn sagði innviðaráðherra:

„Við höfum sagt að í varasjóði sé fjármagn vegna ársins 2023 sem við ætlum að veita í húsnæðismálin. Þar eru peningar, allt að 2 milljarðar, sem til að mynda verður hægt að nota í húsnæðisbætur, í vaxtabætur, í stuðning við fólk og fleiri slíka þætti, og standa þar inni.“

Þetta er í fyrsta skipti sem fram hefur komið, svo ég viti af, hversu há upphæðin er í varasjóði til húsnæðismála. Þrátt fyrir þetta er þessum 2 milljörðum ekki ráðstafað úr varasjóði yfir á viðeigandi úrræði í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar.

Við þetta bætast upplýsingar sem komu fram á fundi fjárlaganefndar með innviðaráðherra, að 2 milljarðar af þessum stofnframlögum sem voru á þessu ári eigi að færast yfir á næsta, eins og ég var að tala um áðan. Það er ekki að fara að leysa neinn húsnæðisvanda á næsta ári og innviðaráðherra segir að áætlun um eitthvað slíkt fari fyrst í gang árið 2024 sem er heldur ekki að sjá miðað við að það á bara að byggja 35.000 íbúðir samkvæmt grein ráðherra.

Þegar ráðherra er spurður um ástæður þess að ekki sé hægt að nýta 2 milljarða af stofnframlögum þessa árs er ástæðan sögð vera þessar byggingarhæfu lóðir. Stöðumatið þar, eins og ég fór yfir áðan, 14.000 íbúðir í samþykktu deiliskipulagi sem er fjölgun um 6.000 frá sambærilegu mati árið 2020.

Þetta er eitthvað sem stjórnvöld verða að svara. Almennt má velta fyrir sér hvort hér sé um að ræða framkvæmdaraðila sem sjá sér hag í því að halda fasteignaverði í hæstu hæðum til þess að selja aðrar íbúðir sem þeir eiga á uppsprengdu verði, til að viðhalda skortsstöðinni. Það hefur einmitt þau áhrif að það er ekki endilega í hag þeirra að dæla fleiri íbúðum inn á markaðinn af því að það myndi hafa áhrif á þær íbúðir sem eru þegar búnar í byggingu og eru í sölu. Þær myndu þá kannski lækka í verði. Þarna er mögulega ákveðin einokun í gangi, ákveðin samþætting í gangi og stjórnvöld verða að svara spurningunni: Er einhver markaðsmisnotkun í gangi þarna þar sem framkvæmdaraðilar eru að viðhalda skortsstöðu eða er þessi tala, 14.000 íbúðir sem alla vega Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segir að séu komnar í deiliskipulag og séu byggingarhæfar, ekki nákvæm? Við vitum ekki hvort það er en stjórnvöld ættu að leggjast í þessa rannsóknarvinnu og komast til botns í því, því að ef það er þannig að framkvæmdaraðilar standa á lóðunum í rauninni og fara ekki í framkvæmdir, hvort sem það er vegna þess að bankar lána ekki eða vegna einhvers annars, þá er það bara mjög alvarlegt mál sem þarf að laga á einhvern hátt. Ef það er þannig að sveitarfélögin eru ekki með réttar tölur um það hversu margar byggingahæfar lóðir eru til er það líka mjög alvarlegt mál. Stjórnvöld, vinsamlegast svarið skýrt og heiðarlega þessum spurningum. Þið verðið að fara í það að rannsaka þetta, skoða hver staðan er þarna í raun og veru og segja okkur frá því á heiðarlegan hátt. Ekki vera að fara í þessar pólitísku skotgrafir um að það sé ekki nægilega mikið af lóðum í Reykjavík og bla, bla, bla. Miðað við stöðuna sem við sjáum og miðað við greininguna frá Sambandi sveitarfélaga á svæðinu þá er það ekki málið. Það hefur verið stopp í lánum frá bönkunum til framkvæmda og það virðist líka vera að stoppa hjá framkvæmdaraðilum, eða hvað? Það verður að svara þessu á skýran og skilmerkilegan hátt þar sem allir aðilar geta komið að þeim upplýsingum til að vaða í gegnum pólitíska svaðið sem er alltaf verið að búa til hérna í einhverju rifrildi á milli hægri og vinstri og ríkisstjórnar og borgarstjórnar og ég veit ekki hvað og hvað. Þannig að vinsamlegast gerið þetta skýrt fyrir okkur, takk.

Áhrif á fólk. Vegna þess að húsnæðisverð hefur hækkað þá hafa fasteignaeigendur samhliða orðið ríkari á pappír eftir því sem eignin þeirra hækka í verði. Fólk græðir þó lítið á því vegna þess að ef það ætlar að selja þá þarf það yfirleitt að kaupa aftur hvort sem er. Ef íbúðaverð hækkar rosalega mikið og rosalega hratt eru meiri líkur á því að fólki missi af ákveðnu tækifæri ef það bíður. Þess vegna er mjög algengt að fólk kaupi með fyrirvara um sölu, af því að ef það nær ekki að kaupa fyrr en ári seinna hefur orðið 10% hækkun, alla vega eins og það hefur verið undanfarið. Í október 2022 var vísitala íbúðarhúsnæðis samkvæmt greiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í 960 stigum. Í október 2012 var vísitalan í 348,8. Það er hækkun um 175%. Það er rúmlega 10,6% hækkun á hverju ári. Þetta er langt umfram verðbólguna, munið þið, eins og ég fór yfir áðan, 2,3% hefði hún verið án þessarar hækkunar en hún er 3,5% út af þessari hækkun, út af 10,6% hækkun á hverju ári. Þetta er hlutdeild húsnæðismarkaðarins í heildarsamhenginu, 10% hækkun þarna skilar sér í 1,2% hækkun á almennri vísitölu.

Segjum að fólk ætli að kaupa íbúð á 60 milljónir, sem er kannski meðalstór íbúð, eitthvað í kringum 100 m², tveggja til þriggja herbergja, eitthvað svoleiðis, ef maður fer á fasteignir.is og leitar, allt upp í 70 milljónir, kannski 50 milljónir í nágrenni höfuðborgarinnar eða aðeins mismunandi eftir ástandi o.s.frv., alla vega einhvers staðar í kringum 60 milljónir. Það þarf að greiða beint 20% sem eru 12 milljónir og taka lán fyrir 80% sem eru 48 milljónir og þá á fólki í erfiðleikum með því að safna sér fyrir íbúð. Það þarf að safna sér þessum 12 millj. kr. Á hverju ári hefur fólk sem sagt þurft að safna aukalega 1,2 milljónum út af þessari 10% hækkun á ári til að halda í við þær hækkanir. Pælið í því. Það þýðir að það þarf að leggja til hliðar auka 100.000 kall á hverjum mánuði til að ná að halda í við hækkunina. Og það er fyrir utan þá upphæð sem þarf að safna sér fyrir upp í íbúðina yfirleitt. Það þarf 100.000 kall bara til að halda í við hækkunina og svo þarf að leggja aukalega fyrir til að ná að safna 12 milljónum sem eru grunnurinn þarna. Ef það er verið að leggja fyrir 100.000 kall á mánuði til að ná upp í 12 milljónirnar tekur það tíu ár en hækkunin klórar alltaf í þetta svo það þarf að leggja fyrir annan 100.000 kall, 200.000 á mánuði til að ná 12 milljónum á tíu árum, til að eiga fyrir útborgun í íbúð. Ef við verðlagsuppfærum breytist það allt, upphæðirnar o.s.frv., en ef við höldum þessu á jafnvirði er þetta afleiðingin sem slík.

Það er líka mjög áhugavert að skoða leiguverð og þróun þess á undanförnum árum. Undanfarin tíu ár hefur leiguverð u.þ.b. tvöfaldast miðað við þinglýsta samninga. Við vitum að þeir eru aðeins öðruvísi á svarta markaðnum sem er annað hliðarvandamál sem þarf að skoða vel. Ef litið er til lítilla tveggja til þriggja herbergja íbúða, hvort sem er á öllu landinu eða bara á höfuðborgarsvæðinu, er meðleiguverð 225.000 kr. á þessum þinglýstu samningum í leigu. Ef við skoðum síðan neysluviðmið Stjórnarráðsins sem eru án húsnæðiskostnaðar þá er framfærslukostnðuar fyrir hjón með eitt barn um 400.000 kr. á ári. Það er 300.000 kr. án barns eða fyrir einstætt foreldri og síðan 200.000 kr. fyrir einstakling án barns. Leigan hjá þeim öllum fyrir svona íbúð, sem er kannski stór fyrir einstæðingana og lítil fyrir fólk í sambúð með barn, er þá þessar 225.000 kr. og til að eiga fyrir innborgun í íbúð eftir tíu ár þarf að leggja fyrir auka 200.000 kall. Það gerir samtals með neysluviðmiðinu 825.000 kr. á mánuði í nauðsynlegar ráðstöfunartekjur, ef fólk á að geta safnað sér fyrir innborgun í íbúð. 725.000 kr. fyrir fólk í sambúð án barns eða einstætt foreldri og 635.000 fyrir einstaklinga. 635.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði fyrir einstakling til að ná að safna sér fyrir innborgun.

Miðað við gögnin af tekjusagan.is er þetta gerlegt fyrir fólk í sambúð með eitt til tvö börn frá og með fjórðu tekjutíund. Einstaklingar eiga ekki séns nema þessir í efstu tekjutíundunum og þá einungis ef þeir eru karlmenn, merkilegt. Af leigjendum á aldrinum 25–34 ára — sem er kannski aldurinn sem fólk myndi vilja byrja að safna á, er að klára skóla og myndi þá kannski eftir þessi tíu ár geta keypt — eru 16.000 einstæðir karlmenn, næstum því allur hópurinn, sem ná ekki þessum ráðstöfunartekjum, 10.000 einstæðar konur, allur hópurinn, 1.000 í sambúð án barna, helmingur þess hóps, og um 2.500 í sambúð með börn, helmingur þess hóps. Þetta er staðan, þetta er fólkið sem nær ekki þeim ráðstöfunartekjum sem þarf til þess að safna sér upp í innborgun á íbúð á tíu árum miðað við þessar upplýsingar, miðað við neysluviðmiðsupplýsingar stjórnvalda, miðað við tekjusagan.is, miðað við þinglýsta leigusamninga og miðað við hvað húsnæði kostar og lánin og þar fram eftir götunum.

Hér verður þá að spyrja: Þarf fólk að leggja til hliðar 200.000 kr. á mánuði til þess að kaupa húsnæði? Getur það ekki bara sleppt því og verið á leigumarkaði alla sína ævi? Svarið við því er að neysluviðmið fólks í sambúð án barns er um 300.000 kr., sem eru þá um 525.000 kr. á mánuði með leigu. Um 30% eldra fólks í sambúð ná ekki þeim tekjum, um 4.500 manns, rúmlega 90% einstæðra eldri karla, rúmlega 5.000, og kvenna, um 11.000. Þú þarft samkvæmt lífeyriskerfinu okkar að eiga skuldlaust þak yfir höfuðið, þú mátt ekki vera að borga af lánum og þú mátt ekki vera að leigja. Annars hefur þú ekki efni á þessu, mjög einfalt. Við sjáum að það er verið að dæla hingað tölvupósti, tilkynningum frá húsnæðisleigufélögum sem eru að hækka leigu núna um áramótin. Þar er íbúð sem var í leigu á 250.000 kr. og hún er að hækka upp í 325.000 kr. Ef við bætum við 75.000 kr. í leigu aukalega ofan á allt þetta þá minnkar að sjálfsögðu hópurinn sem getur safnað sér fyrir íbúð og þarf það til að vera með nægar ráðstöfunartekjur þegar það er komið á lífeyri. Þetta er staðan, staða fólks.

Í efnahagsuppsveiflu er sífellt verið að vara við því að eyða nú ekki um efni fram. Þegar óhjákvæmilega kreppir svo að síðar er farið í alls konar aðhaldsaðgerðir. Að jafnaði þýðir þetta samt að ef ekki væri eytt um efni fram í efnahagsuppsveiflu þá þyrfti ekki sérstakar aðhaldsaðgerðir í niðursveiflu. Það væri einfaldlega borð fyrir báru ef við værum ekki að eyða um efni fram í uppsveiflunni. Þá værum við að safna og ættum fyrir mínusnum sem kemur út af auknu atvinnuleysi og verðbólgu og ýmislegu svoleiðis í niðursveiflunni.

Hið opinbera á alltaf að vera í almennum aðhaldsaðgerðum, að reyna að gera hlutina betur og á skilvirkari hátt. En slíkar aðgerðir kosta mjög oft þó nokkra fyrirhöfn. Stafræn innleiðing á að spara okkur, samkvæmt fjármálaáætlun: „Áætlaður ávinningur stafvæðingar í formi hagræðingar og/eða aukinnar skilvirkni í ríkisrekstri hefur verið metinn 9,6 milljarðar kr. á ári í kjölfar fimm ára fjárfestingarátaks sem nú stendur yfir.“ Þetta er mjög tímabært verkefni og það er hægt að ná mun betri árangri, tel ég.

Annað verkefni sem verður að kallast undarlegt að ekkert sé gert í er undirliggjandi halli á afkomu hins opinbera. Fjármálaráð mat að heildarafkoman væri neikvæð um 2,5% af vergri landsframleiðslu árið 2021. Þar sem ekki er gerð grein fyrir sömu upplýsingum og áður hefur ekki verið hægt að leggja sambærilegt mat á stöðuna árið 2022 eða þá fyrir næsta ár en við erum alla vega með það að heildarjöfnuður eftir allar breytingartillögur er í -3%. Það hafa engar breytingar verið gerðar hins vegar sem ættu að hafa áhrif á þennan undirliggjandi halla. Það er ekki búið að skera niður neitt sérstaklega í útgjöldum neins staðar með aukinni hagkvæmni eða neitt svoleiðis enn þá og það er heldur ekki búið að koma með tekjur í staðinn til þess að tappa af hagkerfinu á einhverjum stöðum þar sem fjármagnið hefur verið að safnast saman.

Ástæðan fyrir því að það er erfitt að meta undirliggjandi stöðu hins opinbera er vegna þess að fjármálaáætlanir og fjárlög eru alltaf að elta efnahagssveifluna á einn eða annan hátt, með því að fara í einhver átaksverkefni í uppsveiflu og sérstakar hagræðingaraðgerðir í niðursveiflu án þess þó að umfang þeirra taki nokkurt tillit til stærra efnahagslegs samhengis. Í besta falli mætti kalla eitthvert mat á áhrifum ágiskun.

Ég legg til að við gerð fjármálaáætlunar verði a.m.k., samhliða hefðbundinni áætlunargerð, gerð greining á þróun efnahagsmála án tillits til skammtímasveiflna. Þar verði gerð áætlun sem byggir bara á langtímaþróun helstu áhrifaþátta í efnahagskerfinu, svo sem langtímahagvaxtarhorfur, lýðfræðilegar breytingar, lífsgæðaþróun samkvæmt stefnu stjórnvalda og álíka þættir. Þegar slíkar greiningar eru gerðar verða frávik frá slíkri áætlun mjög upplýsandi um jafnvægi, um efnahag hins opinbera, sem og ofmat eða vanmat í áætlunum.

Með þessari aðferðafræði ætlast ég til að lögmál stórra talna sýni sig betur í fjármálum hins opinbera. Í litlu vel hreyfanlegu efnahagskerfi þar sem skammtímaspár eru notaðar til þess að gera áætlanir virðist það leiða til ítrekaðs ofmats eða vanmats á stöðu efnahagsmála. Afleiðingin af því er að við einblínum yfirleitt á afkomu hins opinbera til styttri tíma, eins og 50 milljarða í plús eða mínus eitt árið skipti nokkru máli, það gerir það bara alls ekki. Við ættum að hafa áhyggjur af því þegar fjármálaráð segir okkur að undirliggjandi halli hins opinbera sé neikvæður um 2,5% af vergri landsframleiðslu, sem eru um 100 milljarðar eða svo.

Ég hef gert tilraunir til að komast að því með því að spyrja ráðuneytið og stofnanir um kostnað vegna lögbundinna verkefna. Það er áhersludæmi hjá mér. Ég fór aðeins yfir þetta í fyrri ræðunni þannig að ég sleppi þeim kafla akkúrat hér. Alla vega er staðan sú núna að við erum að glíma við þetta fjárlagafrumvarp sem við fengum í hendurnar ófullbúið og við fáum strax ábendingar um gríðarlega vanfjármögnun ýmissa lögbundinna verkefna, t.d. að án þess að fá meira fjármagn getur Fangelsismálastofnun ekki sinnt þeim verkefnum sem henni ber samkvæmt lögum að sinna. Réttara sagt, þrátt fyrir að fá þær fjárheimildir sem var síðan bætt við nær hún rétt að halda í horfinu sem er líka óviðunandi ástand og uppfyllir ekki þau réttindi og þær kröfur sem við gerum til að ná þeim árangri sem gert er ráð fyrir með betrun. Til viðbótar við þetta sjáum við þann halla sem sveitarfélögin hafa verið í vegna lagasetningar sem var gerð 2018 um málefni fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir. Við höfum fengið skýrslu og afkomutölur fyrir árið 2022 sem benda til allt að 12–13 milljarða kr. halla og ríkisstjórnin kemur til móts við það með því að færa að hluta til tekjuskatt upp á 5 milljarða frá ríkinu til sveitarfélaganna. 5 milljarðar upp í þessa 12–13 milljarða. Fjármálaráðuneytið telur að sveitarfélögin séu einfaldlega að eyða of miklum peningum í þessi verkefni, að þau eigi við útgjaldavanda að stríða. Það er ekkert sem bendir til þess heldur þannig að þær fullyrðingar eru orðin tóm, sem er mjög óábyrgt af ráðuneyti að gera fyrir nefnd Alþingis, að segja svona hluti án þess að rökstyðja þá á nokkurn hátt. Það er gjörsamlega ábyrgðarlaust og ég held að fjármálaráðherra þurfi að svara aðeins fyrir slíkar yfirlýsingar frá ráðuneyti sínu.

Ég tek hins vegar undir þau sjónarmið að það sé erfitt að gera áætlanir, sérstaklega í erfiðum aðstæðum eins og heimsfaraldri, stríðsástandi og þegar flugfélag fer á hausinn. Þess vegna þarf að horfa yfir slíka atburði og skoða alltaf langtímaþróun. Einstaka sveiflur leiðrétta sig alltaf að meðaltalinu á meðan meðaltalið breytist lítið og hægt. Afkoma ríkisins á einstaka árum skiptir nákvæmlega engu máli í stærra samhengi efnahagsmálanna. Afkoma ríkisins til lengri tíma skiptir hins vegar öllu máli og staðreyndin er sú að við erum með undirliggjandi halla, og hann skiptir öllu máli, sem enginn í ríkisstjórninni er að leggja til neinar breytingar á til að laga. Þvert á móti eiginlega er skortstöðu á húsnæðismarkaði leyft að viðgangast, ekki er komið til móts við þjónustuþörf í heilbrigðiskerfinu, innviðaskuldin safnar upp viðhaldsvöxtum í eignasafni hins opinbera og gengið er á réttindi borgara, hvort sem þau eru fangelsuð eða frjáls, því að þetta aðgerðaleysi kostar og það eru heimilin sem eru að borga tugi þúsunda í hverjum mánuði, bara út af hærri verðbólgu vegna húsnæðisstefnu stjórnvalda. Pælið í því: Bara út af þeirri einu ákvörðun að halda ekki í við uppbyggingu húsnæðis á undanförnum tíu árum eru heimilin að borga aukalega tugi þúsunda í hverjum mánuði — í hverjum mánuði. Jú, vissulega hafa verið gerðir kjarasamningar til þess að reyna að vega þar upp á móti. En það vindur alltaf upp á sig, kerfið er alltaf að vinda upp á sig. Við erum alltaf í mjög heitu hagkerfi, það er alltaf að þenja sig út, aftur og aftur og gengið rokkar fram og til baka til að leiðrétta það á móti í staðinn fyrir að anda aðeins dýpra og gera betri áætlanir, passa upp á að ekkert sé að springa út, passa upp á að áætlanir séu gerðar með langtímahugsun í huga og gera meira og gera betur, sérstaklega gera betur. Það er ekki vanþörf á miðað við þessi fjárlög.