Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég fór yfir þetta aðeins í ræðunni hjá mér. Bara á höfuðborgarsvæðinu eru 14.000 íbúðir sem eru tilbúnar miðað við greiningu Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það eru þrjú ár af aukningu í rauninni ef við myndum bara byggja upp á höfuðborgarsvæðinu, (BergÓ: Meinarðu lóðir?)sem sagt lóðir fyrir 14.000 íbúðir eru tilbúnar. Eins og ég segi, ef það væri bara byggt á höfuðborgarsvæðinu væri það nægilega mikið til að anna þeirri árlegu þörf í byggingu í þrjú ár. Á meðan er verið að klára þær lóðir sem eru komnar styttra á veg í ferlinu, skipulagsferlinu, en að sjálfsögðu er bara tveir þriðju hérna þannig að það myndi væntalega bætast við annað ár hjá öllum öðrum íbúðum sem væru byggðar annars staðar á landinu. Þannig að bara á höfuðborgarsvæðinu eru tilbúnar lóðir fyrir næstu fjögur ár að byggja á til að halda í við nauðsynlega þörf.

Þá komum við að því ef þessar lóðir eru til og tilbúnar samkvæmt upplýsingum sveitarfélaganna, af hverju er ekki verið að byggja á þeim? Þá höfum við fengið nokkrar útskýringar; bankarnir voru ekki að lána á tímabili, framkvæmdaraðilar koma og segja að þetta sé ekki byggingarhæft og það eru útskýringar eins að þau vilji bara byggja einhvern veginn öðruvísi lóðir heldur en skipulag gerði ráð fyrir. Þá hefur maður líka heyrt þær útskýringarnar að ástæðan fyrir því að þau vilja byggja einhvern veginn öðruvísi er ekki af því að þau vilja endilega byggja heldur af því að þau vilja sitja á byggingarréttindum á meðan hlutirnir verða verðmætari á einhvern hátt annars staðar í kerfinu eða jafnvel láta verðmæti byggingarréttarins vaxa þannig að þau geti síðan selt hann frá sér án þess að þurfa að hafa gert neitt. Þetta er vandamál sem sveitarfélögin hafa bent á og ekki treyst sér alveg til að ganga á í rauninni þann byggingarrétt með tilliti til laga sem er eitthvað sem þarf þá að leiðrétta hérna á Alþingi, ef það er vandamál, ellegar gera það skýrt (Forseti hringir.) að sveitarfélögin geti gengið á viðkomandi byggingarrétt eins og lögin kveða á um.