Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég velti fyrir mér tölunni sem hv. þingmaður nefnir sem ég kannast nú við að hafa heyrt í öðru samhengi. Telur hv. þingmaður að þetta sé staðan í raun, því að þetta er allsendis andstætt því sem t.d. Samtök iðnaðarins segja, sem hafa svona lengstum verið talin sá aðili sem hefur gleggsta greiningu unnið á því hver staða framkvæmda er og lóða og síðan íbúða í vinnslu eftir byggingarstigum? Ég er hræddur um það með þessa talningu lóða með íbúðareiningum upp á 14.000 stykki að við séum eitthvað að plata okkur með því að nálgast málið út frá því að þessar lóðir séu tilbúnar til framkvæmda. Ég er hræddur um að við komumst ekki út úr þessari stöðu sem við erum í núna fyrr en það verði raunverulega staðan að verktökum standi til boða lóðir, fjölbreyttar með hóflegum skynsamlegum kvöðum og byggingarreglum þannig að hægt sé að byggja hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði og þannig að skortur á lóðum sé ekki að orsaka mikla hækkun einn og sér. Með því eru vissulega alltaf einhverjir reitir sem munu njóta þess að bíða í tíma en það er líka þannig að það kostar að bíða að taka til sín framlegðina af þeim verkefnum sem kunna að vera í pípunum. Ég er hræddur um að það sé einhvers staðar rangt mat í þessum efnum (Forseti hringir.) og best sé allra hluta vegna að við reynum ekki að plata sjálf okkur.