Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Forseti. Við höldum nú áfram 2. umr. fjárlaga og satt best að segja hélt ég að við myndum vera að ræða öðruvísi fjárlagafrumvarp en við erum að ræða hér miðað við öll þau orð sem féllu fyrir rúmu ári síðan í kosningabaráttunni þar sem sveitarfélögin voru veggfóðruð með m.a. loforði Sjálfstæðisflokksins um stöðugleika í efnahagsstjórn, um lágvaxtalandið Ísland. Og hver er staðan í dag? Ég kem að fjárlagafrumvarpinu sem slíku á eftir og þeirri gríðarlegu ómarkvissu útgjaldaþenslu sem hefur sett mark sitt á þennan reikning. Þótt vissulega séu ákveðnir hlutir sem er mikilvægt að fara í þá er það engu að síður þannig að það er hvergi verið að spyrja hvernig við getum gert hlutina þannig að þjónustan batni. Hefur þjónustan batnað? Ég held að allir geti alla vega sagt að það sé eitthvað að samfélagi sem býður upp á biðlista á biðlista ofan. En hvernig er staðan núna? Verðbólgan er 9,3%, stýrivextir eru 6%, lágvaxtalandið Ísland. Verðbólga verður samkvæmt spám líklega áfram um og yfir 5% næstu misserin og það er líka gert ráð fyrir því að stýrivextir verði eitthvað yfir 5% alveg til ársins 2025 og við vitum alveg hvað það kostar allan almenning og samfélagið í heild. Í rauninni hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti á síðustu tíu fundum sínum í röð. Frá maí 2021 hafa stýrivextir hækkað úr 0,75% í þessi 6% — 0,75% í 6%, lágvaxtalandið Ísland. Þannig að bara á þessu ári hafa þeir hækkað um 4%. Ég tók dæmi í gær í ræðu sem mig langar til að endurtaka því að eftir að ég hélt þá ræðu hef ég fengið pósta sem hafa verið að draga fram svipuð dæmi um lán sem hafa verið tekin, óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum. Allir póstarnir eru frá ungu fjölskyldufólki. Ókei, ég er 57 ára og ég geri mér grein fyrir að aldur er sveigjanlegt hugtak en ég er að tala um fólk sem er 35 ára og yngra og með fjölskyldu. Það er að draga fram ósköp svipaða mynd og ég sagði frá hér í gær um fjölskyldu sem tók lán upp á 50 millj. kr., verðtryggt lán til 40 ára á breytilegum vöxtum. Vorið 2021, á síðasta ári, þá borgaði þetta heimili um 180.000 kr. af sínu fasteignaláni en í dag er veruleiki þessarar fjölskyldu að hún borgar 330.000 kr. á mánuði. Greiðslubyrðin hefur aukist um 150.000 kr. á mánuði. Síðan erum við að heyra að það er verið að spá áframhaldandi háum vöxtum, 5–6%, til ársins 2025. Ég vona auðvitað að við sjáum fram á lækkun stýrivaxta einhvern tímann seinni partinn á næsta ári, hugsanlega í byrjun árs 2024, en það fer líka eftir því hvernig við afgreiðum fjárlagafrumvarpið sem hér er. Það verður að segjast að ég óttast eins og það lítur út fyrir núna að það sé bæði þensluhvetjandi og muni ekki stuðla að því aðhaldi sem m.a. Seðlabankinn þarf að sjá og þarf á að halda til að geta farið nokkuð fumlaust í vaxtalækkun þegar fram í sækir. Eftir situr þá að þessi fjölskylda sem byrjaði á síðasta ári að borga um 180.000 kr. í afborganir á mánuði greiðir núna 180.000 kr. meira, er komin upp í 330.000, og hún mun næstu tvö ár þurfa að borga þessa svimandi háu vexti. Bara á ári þarf hún að borga næstum því 2 millj. kr. meira, 1,8 millj. kr. meira á heilu ári. Þessi tvö ár þýða fyrir þessa fjölskyldu 3,6–7 millj. kr. á þessu tímabili. Þetta eru risa fjármunir fyrir meðalfjölskyldu hér á Íslandi. Svo yppta menn öxlum og segja að nú sé ekki tími til þess, Þorgerður mín, að ræða evruna. Það má ekki því að það eru önnur mál sem við þurfum að afgreiða núna og mikilvægari. Já, við erum að gera það en það verða alltaf þessi sömu mál ef við ætlum ekki að fara í nýjan gjaldmiðil. Þá verður þetta alltaf sami spírallinn, það verða alltaf þessi sömu mál sem við verðum að fara í, Þorgerður mín. Við getum ekki verið að fara að ræða framtíðina strax, 10, 20 ár, það er bara allt of langt fram í tímann. Það er kannski gallinn við okkar stjórnmálaflokka að það eru allt of fáir sem eru að hugsa um nema kannski fjögurra ára tímabil í senn og hugsanlega hlýja ráðherrastóla. Þetta finnst mér vera svo mikil skammsýni hjá þeim sem hafa látið svona frá sér fara, hvar sem þeir eru á hinu pólitíska litrófi, í stjórn eða stjórnarandstöðu, að það megi ekki ræða nákvæmlega framtíðina í gjaldmiðilsmálum, af því að gjaldmiðillinn hefur beina þýðingu inn í fjárlagafrumvarp eins og þetta og fjárlagafrumvörp framtíðarinnar.

Við skulum hafa það í huga að nú eru vaxtagjöldin orðin þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs, þriðji stærsti. Við sjáum það í öðrum löndum, það er alltaf verið að tala um og benda á þegar við nefnum evruna, Portúgal, Ítalíu, Grikkland.. Já, þetta eru skuldugri þjóðir en við en þau greiða meira en helmingi minna af vöxtum og bera helmingi minni vaxtagjöld heldur en við Íslendingar. En það má ekki ræða framtíðina, alls ekki ræða evruna. Guð minn góður ekki, það er ekki málið í dag. Við þurfum að leysa önnur mál. Evran sem hefur líka bein áhrif á þessa fjölskyldu í Smáíbúðahverfinu sem borgar núna 180.000 kr. meira í vexti á mánuði. Það er verið að setja hana í þessa spennitreyju, a.m.k. næstu tvö árin af því það má ekki ræða framtíðina. Það má ekki veita von, það má ekki veita framtíðarsýn. Þetta finnst mér svo arfaslakt við stjórnmálin.

Meðalvextir á nýjum lánum eru 2,5% í evruríkjum á dag eða um þrefaldur munur í samanburði við okkur Íslendinga. Útlánavextir eru allt að helmingi lægri á hinum Norðurlöndunum í samanburði við Ísland, þannig að heimilin þar þurfa ekki að greiða eins hátt hlutfall af tekjum sínum í vexti eins og heimilin á Íslandi gera og hafa lengi gert. Þetta er auðvitað gömul saga og ný og þetta verður alltaf gömul saga og ný ef við gerum ekkert í þessu. Ég held að það þurfi enginn að vera gapandi hissa þótt ég komi hingað upp sem formaður Viðreisnar og ítreki mikilvægi þess að við ræðum framtíðarmál, Evrópumálin, ekki bara út frá hinu stóra samhengi um lýðræði, frelsi, mannréttindi heldur líka út frá þessum efnahagslega stöðugleika sem við þráum og sumir leyfa sér að auglýsa grimmt fyrir kosningar en geta síðan ekki staðið við, lágvaxtalandið Ísland. Fyrir ári síðan var það helsta auglýsingin.

Ég vil geta þess að þegar ég horfi yfir fjárlagafrumvarpið eru vissulega ýmsir hlutir sem ég held að séu mikilvægir varðandi heilbrigðiskerfið okkar. Mér finnst mikilvægt að draga fram að hér er þverpólitísk sátt um það að reyna að verja heilbrigðiskerfið, reyna að byggja það upp en það er hins vegar ekki endilega þverpólitísk sátt um það hvaða leiðir við förum. Við í Viðreisn höfum talað um að við þurfum að nýta allar leiðir til að tryggja lífsgæði fólks, hvort sem við beitum til þess opinberu fjármagni til að efla stofnanir eða til að kaupa þjónustu. Hjá þessari ríkisstjórn hafa biðlistar lengst í heilbrigðiskerfinu með tilheyrandi kostnaði, m.a. fyrir fjárlögin sem við erum að ræða. Það er lítið um forvirkar áherslur eins og við hefðum gjarnan kosið. Það er búið að auka í á sumum stöðum en það er ekki eins og það hefði þurft að vera, allt vegna ákveðinnar afturhaldssemi innan ríkisstjórnarinnar og hræðslu ákveðinna flokka, Vinstri grænna aðallega, við að við leitum aðstoðar hjá fleirum til að byggja upp heilbrigðiskerfi okkar til þess einmitt að verja lífsgæði fólks svo það þurfi ekki að bíða vikum, mánuðum og jafnvel árum saman á biðlistum. Það getum við gert án þess að ógna jöfnum rétti fólks til heilbrigðisþjónustu. Ég hef fengið pósta þar sem er verið að lýsa veruleika til að mynda öryrkja. Ein saga sem ég fékk um daginn var um öryrkja sem hafði safnað sér upp í liðskiptaaðgerð, var búinn að bíða í ár, gat ekki beðið lengur og tók út sinn sparnað til að fara í liðskiptaaðgerð, kvalirnar voru orðnar það miklar. Forgangsröðunin var eðlilega hjá viðkomandi einstaklingi að halda heilsu. Það er þetta sem blasir við okkur ef við höfum ekki skýra stefnu, skýra sýn í heilbrigðismálum eða á öðrum stöðum, þá förum við ekki nægilega vel með fjármagn. Talandi um það að nýta fjármagn í heilbrigðiskerfinu eða á þessu sviði, ef við einblínum á liðskipta- og mjaðmaaðgerðirnar þá er hægt að gera tvisvar til þrisvar fleiri aðgerðir hér innan lands fyrir sama fjármagn og fyrir eina aðgerð á erlendri grundu, aðallega Svíþjóð. Þannig að bara innan kerfisins er hægt að bæta þjónustu með því að nýta fjármagn betur, ekkert endilega bara með því að auka.

Það er þetta sem ég sakna svo sárlega. Það virðist stundum vera kapphlaup hjá ríkisstjórninni að segja bara: Við erum búin að auka útgjöld um X milljarða, bara flott hjá okkur, fáum við ekki klapp á bakið? Nei, ekki ef þið getið ekki sýnt mér samhliða aukningunni í hvað fjármagnið fór og hvort það hafi ekki örugglega verið til að styrkja innviði, auka lífsgæði og bæta þjónustu við fólkið okkar, hvort sem það er á sviði heilbrigðismála, menntamála, velferðarmála almennt eða til að byggja upp innviði eins og vegi og raforkunetið o.fl. Ekki segja mér bara að það sé gott að auka útgjöld ríkissjóðs ef þið getið ekki bætt þjónustuna, bætt lífsgæðin. Það er þetta sem mér finnst sárlega skorta í fimm ára efnahagssögu þessarar ríkisstjórnar, að það er útgjaldaþensla en það er ekki árangur sem skyldi á þeim sviðum sem við viljum og erum sameinuð um að við viljum ná enn meiri árangri í. Það er eins og í heilbrigðismálum, líka í loftslagsmálum, það er náttúrlega alveg sárgrætilegt að sjá metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar þegar við skoðum fjárlagafrumvarpið í loftslagsmálum, varðandi græna hvata, græna skatta. Það er eins og hún haldi að sér höndum þegar að þessu kemur, þori ekki einu sinni að setja sér jafn ákveðin markmið varðandi losun og Evrópusambandið. Samt er þetta flokkur sem segir: Heyrðu, við getum gert þetta allt saman sjálf, við þurfum ekki svipuna að utan. En þeir gera samt ekkert í því, sýna alla vega ekki sama metnaðinn.

Talandi um aukningu í útgjöldum. Ég veit að Sjálfstæðisflokknum finnst erfitt að heyra þessar tölur en á starfstíma Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn hefur opinberum störfum fjölgað um tæp 10.000 á síðustu fimm árum, 9.800 samkvæmt tölum Hagstofunnar — 9.800. Við verðum að svara alveg einlægt hvort allt hafi batnað í samræmi við það. Ég held að það sé hægt að gera betur. Ég held að það sé hægt að gera betur þegar kemur að því að reka ríkissjóð því að þetta er fordæmalaus útgjaldaaukning.

Aðeins áfram um heimilin og afborganirnar. Við erum með, og það er kannski bara aukaviðbót óbeint inn í fjárlögin sem hafa áhrif á heimilin og lítil og meðalstór fyrirtæki, bara samfélagið í heild, hvernig ríkisstjórnin dregur fram endalaust, sýnir sinnuleysi í því hvernig hún heldur utan um til að mynda samkeppnismál á Íslandi. Ég nefndi um daginn að spretthópur matvælaráðherra lagði til að það ætti að koma með sérreglur frá samkeppnislögum fyrir landbúnaðinn, fyrir það að afurðastöðvar í kjötiðnaði geti unnið saman. En þær þurfa ekki undanþágu, það er hægt að veita þessa heimild samkvæmt núgildandi lögum og Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað sýnt að það er hægt að beita þeirri heimild svo lengi sem slík samvinna og slíkur samruni skilar neytendum og bændum hér ábata og er þeim til hagsbóta. Þetta er mjög auðvelt: Þarf engar sérreglur. En hvað þýðir svona? Þetta þýðir að það er verið að fjölga þeirri matvöru sem verður undanskilin samkeppni og sú matvara sem er undanskilin samkeppni hefur hækkað mest. Matvælaverð á Íslandi er með því hæsta innan OECD og það er svolítið heimatilbúið vandamál. Ég geri mér alveg grein fyrir því að við aðföng hingað eru dýrari og það er margt sem er dýrara en þetta þarf samt ekki að vera svona af því að þetta eru heimatilbúnar sérreglur fyrir útvalda og það eru á endanum heimilin í landinu sem borga þessa dýru matarkörfu út frá því að það eru pólitískar ákvarðanir þessarar ríkisstjórnar sem leiða til þess að samkeppnin er minni og fákeppnin meiri og það leiðir til þess að verð hækkar til neytenda. Og það er ekkert samasemmerki á milli þess að verð til bænda hækki líka, að hagsmunum bænda sé betur borgið með slíku. Það er ekki þannig. Það eru aðrar leiðir sem við eigum að fara til að efla og styrkja hag landbúnaðarins og bænda.

Það sem mér finnst einkenna þessa miklu útgjaldaaukningu er þetta markmiðaleysi, að útgjöldin eru sett í fyrsta sæti án markmiðasetningar eða eftirfylgni. Það er bara sett fram eitt til þess að eyða og það er ekki góð pólitík og það er eitthvað sem er vont að upplifa. Þessi ríkisstjórn stærir sig svolítið af þeim tekjuauka sem á sér stað. Þessi tekjuauki, sem útskýrist m.a. af meiri hagvexti, myndast m.a. út af því að við erum með mikinn viðskiptahalla. Þjóðarbúið er að taka í rauninni erlend lán fyrir þessum útgjöldum, mest í neyslufjárfestingar því að fjárfestingar eru ekki miklar. Við vitum að þessi tekjuauki sem á rætur í viðskiptahalla er ekki sjálfbær. Hvað gerum við við tekjuauka sem er ekki sjálfbær? Við reynum að nota hann í skynsamlega hluti eins og að greiða niður skuldir, minnka hallann á ríkissjóði. Ég er ekki að segja, síður en svo, að það hafi allt verið gert rétt hér fyrir hrun, alls ekki. En það var samt þannig að ríkisstjórnin þá notaði einmitt tekjurnar til að lækka skuldir og það verulega og það varð til þess að viðspyrna varð þó snöggtum skárri heldur en ella hefði verið eftir hrun. Þetta var pólitískt álitamál og ég geri mér grein fyrir því að bæði Vinstri græn á þeim tíma og Samfylkingin vildu alls ekki fara þær leiðir, bara gömul saga og ný að þessir tveir flokkar eru meira útgjaldahliðarmegin heldur en ráðdeildarmegin. En ríkisstjórnin er að gera nákvæmlega það sama og Vinstri græn og Samfylkingin báðu um þá og notar ekki tekjuaukann sem nú er, eiginlega fyrst og fremst út af viðskiptahallanum, beitir honum ekki á skynsaman hátt til að greiða niður skuldir. Ég óttast þetta. Þetta er vond leið. Þetta er vond pólitík undir forystu Sjálfstæðisflokksins, öðruvísi mér áður brá.

Í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar finnst mér blasa hið augljósa við, að ríkisstjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um framtíðarsýn, ekki um stefnu nema kannski þá stefnu að stjórnarsamstarfið haldi. Það er kannski út af fyrir sig fín stefna fyrir stjórnarflokkanna en hún er ekkert endilega farsæl fyrir samfélagið allt ef það er ekki verið að taka á þeim vanda sem við blasir. Það er alltaf verið að ýta vandanum í fang næstu ríkisstjórnar af því að þessi ríkisstjórn þarf að halda saman og heldur að leiðin til þess að halda saman sé eingöngu fólgin í því að auka útgjöld. Við sjáum því ekki neinar breytingar á kerfum, ekki neinar umbætur á kerfum, engar sem raunverulega hafa áhrif á til þess að tryggja samkeppnishæf lífskjör. Það er ekkert um það hvernig það eigi að endurheimta jafnvægi í ríkisfjármálum og verja velferðina til framtíðar. Við munum þegar ríkisstjórnin var stofnuð átti þetta að vera til að tryggja pólitískan stöðugleika og það var að einhverju leyti skiljanlegt eftir „túrbulansinn“ sem var búinn að vera þar áður. En þessi stöðugleiki er að breytast í ákveðna andhverfu sína af því að þetta er að verða kyrrstaða, kyrrstaða í samfélaginu, kyrrstaða í því að setja pottlokið yfir nauðsynlegar umbætur á kerfum. Það er ekki stöðugleiki heldur óreiða, miklu meira heldur en óreiða á striga sem stundum getur verið falleg, en þetta er það ekki.

Það sem kemur frá ríkisstjórninni þessa dagana er þetta hundslappa fjárlagafrumvarp með engan metnað í því hvernig á að byggja í haginn fyrir framtíðina. Það situr því eftir ósjálfbær og óábyrg stefna. Reikningurinn er sendur á framtíðarkynslóðir vegna þess að sáttin við ríkisstjórnarborðið er það eina sem skiptir þau máli. Frá árinu 2019 hefur safnast upp tap af rekstri ríkissjóðs sem nemur um 660 milljörðum á núvirði. Það samsvarar meira en helmingi allra útgjalda á þessu ári og á næsta ári er síðan gert ráð fyrir afkomuhalla upp á 119 milljarða. Þegar frumvarpið var lagt fram þá minnir mig að það hafi verið um 90 milljarðar en núna stefnir það í 119 milljarða, þannig að uppsafnað tap frá 2019 eru 780 milljarðar. Við skulum setja það í samhengi við það að þetta er jafngildi framlaga til Landspítalans okkar til alls átta ára. Þetta er að mínu mati kostnaðurinn af stefnuleysi og málefnafælni þessarar ríkisstjórnar. Við skulum þó gæta sannmælis. Inn í þetta hefur komið Covid og við vorum sammála um ákveðin útgjöld þar. Við vildum frekar stærri skref strax, ríkisstjórnin tutlaði þessu út, en allt í lagi, margt var gott gert. En veruleikinn er sá að það var byrjað að reka ríkissjóð með þessum óábyrga hætti löngu fyrir Covid. Covid kom og bjargaði svolítið ríkisstjórninni frá þeirri vonlausu pólitík sem hún rak fyrir Covid. Þetta var teppið sem Sjálfstæðisflokkurinn þurfti á að halda til þess að moka öllu skítnum undir og fela til þess að enginn sæi eða tæki eftir því að hann var kominn í stanslaus vandræði með ríkisfjármálin fyrir faraldur og í vandræðum með það hvernig ætti að hemja samstarfsflokka sína í þeirri ómarkvissu útgjaldaþenslu sem núna er raunin. Hraður efnahagsbati núna bætir stöðu ríkissjóðs en meðbyrinn, eins og ég sagði áðan, er ekki nýttur sem skyldi, hann er ekki notaður. Þessi ósjálfbæri tekjuauki sem kemur í gegnum viðskiptahallann er ekki nýttur í það sem er skynsamlegt og það sem er skynsamlegt er að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Þegar við skoðum hina hagsveiflutengdu þætti, ef við undanskiljum þá er afkoma síðan töluvert lakari og aðhaldið minna en gert var ráð fyrir þannig að raunverulegt aðhald í fjárlagafrumvarpinu er lítið. Það er líka að mínu mati skýr vísbending um að stjórnvöld eru ekki að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti gegn verðbólgunni. Það er hægt að gagnrýna seðlabankastjóra fyrir eitt og annað en hann er svolítið einn út á berangri, einn með þetta tæki sem sumir vilja meina að sé ekki nægilega sterkt bit í. Hann vantar stuðninginn frá ríkisstjórninni. Ef ég á að gagnrýna hann fyrir eitthvað er það hversu aðhaldslaus seðlabankastjóri hefur verið gagnvart ríkisstjórnarflokkunum, að hann skuli ekki hafa kallað hærra til ríkisstjórnarinnar bara strax við framlagningu frumvarpsins, ekki koma núna á milli 1. og 2. umr., með þeirri miklu viðbótarupphæð upp á 50 milljarða á milli umræðna sem er, og segja: Heyrðu þetta fjárlagafrumvarp er bara ekki nógu sterkt til að veita mér þau tæki sem ég þarf á að halda til að vinna gegn verðbólgu. Ég einn og sér næ ekki að gera þetta. Þið verðið líka að standa ykkur í stykkinu. Og ríkisstjórnin er ekki að gera það sem þarf til að koma verðbólgunni niður og við getum ekki verið að afgreiða hér út þensluhvetjandi fjárlög. Vonandi nást fleiri skammtímasamningar og ég tek hatt minn ofan fyrir SGS fyrir að hafa samið á þessum tímum með ábyrgum hætti. Ég vona að fleiri geri það líka en ég vona líka að þetta verði ekki til þess að það verði óútfylltur tékki sendur á ríkisstjórnina um að redda rest af því það er líka óábyrgt að gera og ég held að ríkisstjórnin muni ekki standa í lappirnar hvað það varðar.

Að því sögðu vil ég sérstaklega draga fram að við þurfum að horfast í augu við það að við förum ekki í almennar aðgerðir til að hjálpa ákveðnum hópum og við þurfum að hjálpa ákveðnum hópi, tekjulágum, þeim sem hafa orðið illa úti þegar kemur að vöxtum, þannig að við erum að einblína á vaxtabætur og barnabætur og húsnæðisbætur þegar kemur að þessu. Það er eitthvað sem við þurfum að horfast í augu við meðan við höfum íslensku krónuna. Það er bara gömul saga og ný að við þurfum að gera það.

Mig langar að benda á og rifja upp álit fjármálaráðs í síðustu fjármálaáætlun. Þá var einmitt varpað ljósi á þennan kerfislæga hallarekstur ríkissjóðs með mjög skörpum hætti og skýrum. Þess vegna finnst mér enn óskiljanlegra að fjárlagafrumvarpið skuli vera afgreitt með þessum hætti af hálfu ríkisstjórnarflokkanna eins og nú er, eftir að fjármálaráð hafði veifað flagginu og sagt: Þið verðið að fara að gera eitthvað í þessum kerfislæga hallarekstri ríkissjóðs. Að tekjum af hálfu ríkisstjórnarinnar væri iðulega eitt samstundis og það um efni fram. Stjórnvöld geta hreinlega ekki staðist freistinguna, minnir mig að þau hafi sagt á sínum tíma. Og hvað segir okkur þetta núna? Þetta eru varnaðarorð frá fjármálaráði frá síðustu fjármálaáætlun og það er eins og það sé ekkert gert með þetta. Þó að góður hugur hafi fylgt lofinu með lögum um opinber fjármál á sínum tíma sé ég lofið ekki ná í gegn þegar við förum yfir fjárlögin. Mín skoðun er sú að ríkisstjórninni er ófært að brúa bilið milli útgjalda og tekna. Það má ekki hækka t.d. veiðigjöldin á útgerðirnar. Það má ekki bara nefna það. Það líður örugglega yfir suma við ríkisstjórnarborðið ef það er nefnt. Hvað með að hækka kolefnisgjöld, nýta græna skatta, fara að bretta upp ermar? Það líður örugglega yfir sama fólk við borðið þegar það er nefnt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það þarf að taka erfiðar ákvarðanir ef við ætlum að ná að vinda ofan af hallarekstri ríkissjóðs og það kallar bæði á aðhaldsrekstur hjá ríkissjóði og það kallar líka á að gjöld hækki á t.d. útgerðina, að við hækkum kolefnisgjöld til að fara að byrja að vinna á loftslagsmálum og hvetjum fyrirtækin til að menga minna, þeir borga sem menga. Um leið kallar þetta líka á aðhald hjá ríkisstofnunum og í ríkisrekstri. Viðreisn vill hlífa heilbrigðiskerfinu, bara þannig að það sé sagt: Við viljum setja meira fjármagn í heilbrigðiskerfið en við viljum að samhliða sé sett skýr stefna um það hvert fjármagnið fer, að þar séu sett markmið sem undirstrika það hvaða þjónustu við viljum fá út úr því fjármagni sem sett er til viðbótar. Þannig viljum við leggja þetta upp. Við viljum sérstaklega taka utan um heilbrigðisstéttirnar og reyna að leggja okkar af mörkum þannig að það verði settir hvatar inn í kerfi sem m.a. vinni á mönnunarvanda innan heilbrigðiskerfisins og minnki álag, þetta gríðarlega álag sem starfsfólk í heilbrigðisþjónustu er undir alla daga allt árið um kring.

Okkar forgangsröðun er alveg skýr. En um leið og við segjum að við ætlum að hlífa heilbrigðiskerfinu þá segjum við líka, m.a. í ljósi þess að útgjaldaþenslan er í rauninni fordómalaus núna síðastliðin fimm ár, algerlega fordæmalaus, samhliða því að það er fordæmalaus aukning á opinberu starfsfólki, að það þarf einfaldlega að fara í það að hagræða í ríkisrekstri. Ég held að best væri að byrja á því að leggja niður eitt af þessum ráðuneytum sem var stofnað strax á síðasta ári. Það væri skýr forgangsröðun, það væri kjarkmikil forgangsröðun að segja: Þetta var ekki gott hjá okkur. Þetta var óábyrgt. Við skulum bara stokka hlutina upp á nýtt þó að það kalli á einhvern óróleika hér á þessum ráðherrabekkjum. Það væri skýrt merki út í samfélagið um að þau tækju hlutverk sitt alvarlega. Það væri ekki eitthvert mjálm hér í flokki sem eitt sinn var til hægri um að það þyrfti aðhald í ríkisrekstri. Byrjið bara á sjálfum ykkur og þá skulum við koma með ykkur. Ég undirstrika enn og aftur og kem enn og aftur að áhyggjum mínum varðandi þennan mikla halla sem er á ríkissjóði, halla sem er settur fram a.m.k. til ársins 2027. Hvað þýðir það? Það eru þrjár ríkisstjórnir sem þurfa að glíma við þennan halla sem þessi ríkisstjórn skilur eftir eða þorir ekki að taka á. Það er töluvert. Það er ýmislegt sem getur gengið á hvað þetta varðar. Á síðustu árum hafa vaxtagjöldin hækkaði um einhverjar 50–60 milljarða. Bara aukningin í vaxtagjöldum samsvarar ársframlögum til samgöngumála eða alls háskólastigsins. Á árunum 2022–2023 verður um 100 milljónum varið í vaxtagjöld á ári. Svo má ekki tala um þennan þátt. Og ríkisstjórnin notar ekki tekjuaukann sem verður núna út frá viðskiptahallanum til að greiða niður skuldir og þau vilja alls ekki tala um nýjar leiðir, framtíðarleiðir til þess að hafa þennan útgjaldalið minni eftir 5, 10 eða 20 ár. Nei, skilaboð þessarar ríkisstjórnar og annarra flokka sem hafa ekki Evrópuáherslurnar framarlega í sinni forgangsröðun eru að þau ætla að hafa vaxtagjöldin áfram sem þriðja stærsta eða fjórða stærsta útgjaldalið ríkissjóðs. Það er vond pólitík því að það eru fjármunir sem við getum einmitt notað til að byggja upp heilbrigðiskerfið, sem við þurfum einmitt að nota til að byggja upp fjárfestingar því að innviðafjárfestingar, opinberar fjárfestingar hafa setið á hakanum á umliðnum árum. Þetta eru verulegir fjármunir sem hægt er að spara til þess að nota í það að verja velferðarkerfið.

Virðulegur forseti. Ég vil draga fram að það er margt sem hægt er að taka undir, eins og varðandi heilbrigðiskerfið, varðandi fjölgun og aukningu framlaga til lögreglunnar, löngu beðið um það, í meira en tíu ár hefur legið fyrir samkvæmt skýrslum að það þurfi að fjölga í lögregluliði landsins og það þarf að byrja á landsbyggðinni. Það er hægt að nefna ýmis góð fjárframlög sem eru sett í mikilvæga hluti en eftir stendur stóra myndin, að við erum með fjárlög sem bera í sér fordæmalausa útgjaldaaukningu. Það er hvergi sem hönd á festir hvar ríkisstjórnin ætlar að hagræða, hvernig hún ætlar að ná tökum á þessum hallarekstri. Þá er ekki annað heldur en að lýsa yfir miklum áhyggjum varðandi þetta efnahagslega ábyrgðarleysi við það að senda framtíðarkynslóðum þennan reikning. Það er verið að fá lífskjörin að láni með því að reka ríkissjóð eins og hann er núna og þetta eru fjárlög sem eru lituð af sérhagsmunagæslu og að mínu mati skammsýni. Það er ekki verið að rugga bátnum þar sem við eigum að vera rugga honum af því að það gæti orðið óþægilegt fyrir stjórnarflokkana.

Ég er ekki einu sinni byrjuð að ræða það hvernig við erum að fjárfesta á ýmsum sviðum, ekki bara innan heilbrigðiskerfisins heldur líka innan velferðarkerfisins og menntamálanna. En ég vildi fyrst og fremst tala um þessa stóru mynd sem veldur mér miklum áhyggjum þegar kemur að skuldasöfnun ríkissjóðs. Það eru áhyggjur sem vel að merkja Samtök atvinnulífsins taka heils hugar undir og þau segja m.a., með leyfi forseta:

„… þá skýtur skökku við að engin umfjöllun er um verkefni sem snúa að endurmati útgjalda. Það ber með sér lítinn metnað til að ná böndum á útgjaldavöxt og forgangsröðun fjármuna.“

Þar er verið að kalla eftir forgangsröðun fjármuna og fleiri aðilar hafa lýst yfir miklum áhyggjum yfir því að ríkissjóður sé í halla, yfir háu útgjaldastigi og yfir mikilli aukningu peningamagns á síðustu árum, að þetta allt sé mjög hættuleg samsetning, eins og m.a. BHM dregur fram.

Þessi fjárlög eru lituð miklu fremur af því hvernig hægt er að láta ríkisstjórnina hanga saman heldur að verið sé að horfa til framtíðar, verja velferðarkerfið og verja framtíðarkynslóðir landsins með því að koma í veg fyrir að við sendum reikninginn á þau. Þetta eru fjárlög sem hægt hefði verið að vinna svo miklu betur ef metnaður hefði verið til staðar og framsýni en ekki þessi endalausa skammsýni sem litar þetta frumvarp.