Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta heyrist nefnilega oft hjá þeim sem eru hvað hræddastir við það að þjóðin fái að koma að þessu máli og tjá hug sinn um það: Við vitum alveg hvað kemur út úr þessu og það verður búið að fórna sjávarútveginum og landbúnaðinum. En svo þegar maður spyr: Eigum við ekki bara að láta á það reyna? þá má það alls ekki af því að fólk óttast að það komi upp sú staða að þetta geti orðið samningur sem verði aðlaðandi fyrir bæði sjávarútveginn og landbúnaðinn og ekki síst fyrir íslenskt samfélag. Að einmitt heimilin, litlu og meðalstóru fyrirtækin, venjuleg íslensk heimili, sjái hag sínum borgið í því að búa í stöðugu vaxtaumhverfi, opnu frjálsu samfélagi, sem við erum að auðvitað í í dag en við getum búið við meiri stöðugleika heldur en blasir m.a. við þessari fjölskyldu sem ég nefndi sem er í Smáíbúðahverfinu og lánið er búið að hækka um 180.000 kr. á mánuði. Ætlarðu þá að segja við þá fjölskyldu: Nei, elsku fjölskylda, við viljum að þið greiðið þessar 180.000 kr. til viðbótar af því að sjávarútvegurinn þarf að vera eins og hann er rekinn, það má ekki snerta á honum? Ég held hins vegar að í ljósi reglu Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika þá séu hagsmunir okkar Íslendingar tryggðir, að við getum stjórnað okkar sjávarútvegi, þó að ég kjósi það vissulega að við fáum þrýsting frá Evrópusambandinu um að setja almennileg veiðigjöld á sjávarútveginn. Það væri nú gott að fá þann þrýsting því að ekki kemur hann frá ríkisstjórninni. Varðandi landbúnaðinn þá eru gríðarleg sóknartækifæri fyrir íslenskan landbúnað. Ég held að við stöndum á ákveðnum tímamótum hvað það varðar ef við nýtum tækifærin rétt og ég er sannfærð um það að ef við förum í meiri jarðræktarstyrki, förum meira inn í það kerfi sem Evrópusambandið hefur byggt upp, og m.a. finnskir bændur voru skeptískir á um tíma eða tortryggnir á á sínum tíma en eru nú mjög sáttir við að starfa eftir, þá verði mikil blómatíð, enn meiri blómatíð fram undan fyrir íslenskan landbúnað. (Forseti hringir.) Við þurfum bara að þora að fara að taka þessa umræðu og fá samninginn í hendur.