Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Hvað er svona merkilegt við það? Jú, hér er verið að útdeila gæðunum. Hér er verið að útdeila úr sameiginlegum sjóði okkar landsmanna. Hér sést í rauninni betur en á nokkrum öðrum sviðum hver forgangsröðun, raunveruleg forgangsröðun, ríkisstjórnarinnar er á fjármunum okkar og fyrir hverja hún er sérstaklega að vinna. Það fyrsta sem kemur í hugann þegar verið er að tala um skuldir ríkissjóðs — ég ætla nú ekki að fara að tíunda það sem snillingarnir hv. þingmenn hafa komið með, glæsilegar ræður á undan mér með tölulegum staðreyndum um hallarekstur og prósentutölur um allt hvað eina, ég þarf ekki að tala um það. Við vitum um hallarekstur ríkissjóðs upp á vel á annað hundrað milljarða. Við vitum að hann er samt mun mun skárri en var gert ráð fyrir eftir allar Covid-aðgerðirnar. Við vitum líka að einhverjir þeirra sem fengu í Covid-aðgerðum þurftu ekki á því að halda. Við vitum líka að margir sem hefðu þurft á aðstoð og hjálp að halda fengu ekki.

Eigum við að byrja á því að tala um það hvernig er verið að tína krónurnar úr ríkiskassanum með því að hygla fjármála...öflum og þeim sem eru með fulla vasa fjár, hygla þeim sem ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur stendur augljósalega fyrir, sérhagsmunagæsluöflin hér sem blómstra, fyrir stórútgerð. Frá árinu 2009 til dagsins í dag hefur hreinn hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja eftir að hafa greitt alla skatta, skyldur og auðlindagjöld verið 533 milljarðar kr. Auðlindagjaldið, búið að greiða það, 85,9 milljarðar kr., þannig að í vasann, eftir að búið er að borga fyrir aðgang að auðlindinni okkar, fara rétt ríflega 450 milljarðar kr. Er þetta sanngjarnt, réttlátt? Er þetta eitthvað sem sýnir fram á það að við eigum sjávarauðlindina, að hún sé okkar, samfélagsins í heild? Eða er það svo að það er bara samþykkt að ausa peningum upp úr sjávarauðlindinni í vasa fárra sem um leið hafa nánast keypt upp landið og miðin, eiga orðið meira og minna í nánast öllum rekstri í samfélaginu sem í rauninni kemur sjávarútvegi akkúrat ekkert við?

Nei, virðulegi forseti. Flokkur fólksins vill fá mun meiri fjármuni úr okkar sameiginlegu sjávarauðlind en raun ber vitni, flokkur fólksins telur það vera algjörlega fyrst og síðast, ekki bara sanngirnismál og réttlætismál heldur nauðsynlegt. Þeir sem hafa miklu meira en nóg eru aflögufærir til þeirra sem minna eiga.

Mig langar líka að benda á bankaskattinn sem er búið að lækka, sem var lækkaður nánast á einu bretti um 6 milljarða kr., bankaskatt banka sem er að springa af peningum sem í rauninni eira engu. Það skiptir engu máli hvað þeir græða mikið, þeir vilja græða meira. Bankaskattur var nánast á einu bretti lækkaður um 6 milljarða kr. og var hann þó ekki 0,5%, náði þó ekki þegar best lét 0,5%. Ef hann væri núna á pari við það sem hann var áður en hann var lækkaður værum við að fá 9 milljörðum meira í ríkissjóð en raun ber vitni og enn væri þessi blessaði bankaskattur ekki einu sinni 0,5%. Mér væri sannarlega að meinalausu að slengja á þá 1%. Það væri mér algerlega að meinalausu. Eigum við að tala um 6 milljarðana sem er verið að óska eftir að fá? Hæstv. fjármálaráðherra óskar eftir umboði til að setja 6 milljarða í fjárauka til að geta keypt í því sem ég kalla „snobbhill“ á Austurbakka í Landsbankahöllinni glæsilegu, á dýrustu lóð á landinu og þótt lengra væri leitað, ef ég má tala um það. Sex milljarðar eru meiri fjármunir en kostar að byggja alla viðbygginguna hér við Alþingishúsið, viðbygginguna undir alla þingmennina og alla starfsmenn þingsins og fastanefndir. Þetta þykir bara sjálfsagður hlutur. Það er ekki einu sinni vakinn almennileg athygli á þessu. Þetta er eitt af því sem er sett undir koddann og á helst ekki að sjást. En ríkissjóður verður af þessum sex milljörðum. Við höfum akkúrat ekkert að gera með einhverjar snobbhæð í Landsbankanum. Það er ekki einu sinni eins og það sé verið að kaupa alla bygginguna. Þetta er svo galið, sér í lagi þar sem ég lagði í síðustu viku fram breytingartillögu við fjárauka fyrir sárafátækt fólk, fólk í bágustu stöðunni í samfélaginu, eldra fólk sem er á berstrípuðum almannatryggingabótum og hefur ekki á nein önnur mið að róa. Og hvernig skyldi það nú hafa farið, virðulegur forseti, í þessum háa þingsal? Tillagan var felld. 350 millj. kr. tillagan var felld, tillagan sem átti að jafna stöðu þeirra sem bágast standa af eldri borgurum, stöðu þeirra tæplega 6.000 eldri borgara sem eiga engin lífeyrissjóðsréttindi og eiga í rauninni hvergi höfði sínu að halla nema hjá Tryggingastofnun.

Ég velti því oft fyrir mér, virðulegi forseti, hvort það geti virkilega verið þannig að þeir sem eru alltaf með fulla vasa fjár og hafa aldrei nokkurn tíma þurft að takast á við það að eiga ekki fyrir næstu útborgun eða eiga ekki fyrir mat á diskinn geri sér enga grein fyrir því hversu mikil sárafátæktin er hérna úti í samfélaginu, hversu margir eiga um sárt að binda og eiga virkilega bágt. Þetta er verið tala um, það má kannski segja í kaldhæðni: Elskulegu eldri borgarar, þið sem eigið ekki að fá krónu, þið getið bara étið hafragraut um jólin. Gerið þið það bara. Þið eigið ekki einu sinni efni á því að kaupa húfu handa barnabarninu eða barnabarnabörnunum. Þið megi þakka fyrir ef þið eigið bara fyrir mat því að þið þurfið oft að velja á milli þess hvort þið kaupið lyfin ykkar sem halda í ykkur lífinu eða fái að borða. Svona er Ísland í dag. Allir stjórnmálaflokkarnir, allir sem einn, hver einasti stjórnarliði Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sagði nei. Þeir sögðu líka nei við 150 milljónum til hjálparstofnana sem eru að gefa fátækasta fólkinu mat, hjálparstofnanir sem sumar hverjar eru líka með fatnað og margt fleira nauðsynlegt fyrir fjölskyldur, fátækt fólk í landinu.

Þetta er ríkisstjórnin sem eyddi vel yfir tveimur milljörðum kr. í stólaskipti, til að bæta við ráðuneyti til að geta haldið áfram að sitja hér við stjórnvölinn, allt fyrir völdin. Það er athyglisvert þegar kemur upp úr hattinum allt í einu að við erum að fara að eyða núna ríflega þremur milljörðum kr. í að mublera upp Seðlabankann og „sjæna“ hann til, ríflega þremur milljörðum kr. Hver er að tala um það? Seðlabankastjóri sem sagði að sennilega mætti skrifa eitthvað af þessari verðbólguhækkun á gleði Íslendinga við að komast í sólina, að sóla á sér tærnar á Tenerife. Þvílík hræsni, virðulegi forseti, þvílík hræsni.

En það er ekki öll nótt úti enn. Ég mun leggja þessa breytingartillögu aftur fram við 3. umr. fjáraukalaga. Ég er að vona að ríkisstjórnarflokkarnir sjái ljósið og skipti um skoðun og geri sér grein fyrir því að kærleikurinn kostar ekki neitt. Í stóra samhenginu kostar hann ekki neitt. Þá er ég ekki að tala um þessar krónur sem ég er að biðja um til að rétta þeim sem bágast standa í samfélaginu hjálparhönd. Þetta er með hreinum ólíkindum, virðulegi forseti. Ef við tölum um þá eldri borgara sem bágast standa og fá ekki þessar 60.000 kr. eins og staðan er í dag í desemberuppbót þá er þetta mjög stór hluti öryrkja sem urðu heilbrigðir og duttu inn í það að vera ellilífeyrisþegar á 67 ára afmælisdaginn, einstaklingar sem höfðu verið með svokallaða aldurstengda örorkuuppbót. En fyrst þeir eru ekki öryrkjar lengur hafa þeir ekkert með þessa uppbót að gera. Ég skil ekki alla þessa mótsögn. Ég skil ekki þessa mótsögn. Þegar við lítum í kringum okkur sjáum við hvernig er verið að spara aurinn á sumum sviðum og fleygja krónunni, hvernig mannauðurinn okkar er í mörgu fótum troðinn og menn láta sig litlu varða hvort fólk geti tekið þátt í samfélaginu eða ekki, hvort því líði vel eða illa, hvort það geti aflað tekna og greitt með okkur skatta og skyldur til samfélagsins eða ekki. Það virðist litlu máli skipta. Horfum t.d. á fíknisjúkdóminn. Ef við horfum t.d. á allan þann mannauð og áttum okkur á því hversu margir deyja á hverju einasta ári úr þessum sjúkdómi þá vil ég trúa því af öllu hjarta að ef stjórnvöld virkilega legðust yfir það myndu þau aldrei nokkurn tíma eykjast við að fjármagna nákvæmlega allt sem þarf til að hjálpa þessu fólki. Er réttlætanlegt að einstaklingar liggi hér í bílastæðakjöllurum af því að þeir hafa ekki þak yfir höfuðið og eru að reyna að leita sér að yl? Er réttlætanlegt að við skulum hafa fólkið okkar í þessari aðstöðu? Flokkur fólksins segir nei. Flokkur fólksins segir nei.

Það kom mér verulega á óvart þegar ég lagði fram breytingartillögu um 150 milljónir fyrir hjálparstofnanir að það voru ekki einungis stjórnarflokkarnir þrír, Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, sem sögðu nei heldur greiddi Viðreisn ekki atkvæði með tillögunni, þeir sátu hjá. Það er eitthvað sem ég botna ekkert í. Þetta er flokkur sem kennir sig við almannahagsmuni umfram sérhagsmuni. Ef það er ekki almannahagur að verða til þess að þeir sem eiga bágt geti a.m.k. þokkalega fengið mat á diskinn í gegnum hjálparstofnanir, að ríkið, stjórnvöld hér, sjá til að svo sé, þá veit ég ekki hvað. Það er ekki verið að gæta að almannahagsmunum, það er nokkuð ljóst. Þannig að við sjáum í rauninni hvernig landið liggur.

Það var athyglisvert í morgun að hlusta á Bítið þar sem hv. formaður fjárlaganefndar talaði um breytingartillögur og var spurður út í breytingartillögu sem Samfylkingin hafði gert við fjárlögin. Já, það var athyglivert. Það hefur víst enginn annar flokkur gert slíkt nema einhvern tímann í fyrndinni þegar VG var í stjórnarandstöðu, þá höfðu þau ásamt Pírötum og Samfylkingu einnig lagt fram breytingartillögu við fjárlög. Ég hef sjaldan orðið eins hissa. Flokkur fólksins er líka með breytingartillögur við fjárlögin. Ég man ekki hvort við vorum með fimm frekar en átta breytingartillögur við fjárlögin — já, fimm breytingartillögur við fjárlögin. Fyrirgefðu, forseti, átta tillögur við fjárlögin. Við erum alltaf að bæta við. Við byrjuðum með fimm, sex, sjö; Já, við munum eftir þessu, við verðum að koma þessu inn. Átta tillögur við fjárlögin. Ég velti því fyrir mér hvernig getur farið fram hjá hv. formanni fjárlaganefndar að Píratar eru með breytingartillögur og Flokkur fólksins er með breytingartillögur og það er meira að segja búið að prenta þetta út. Þetta er komið. Þetta er fyrir allra augum, það er bara þannig. Það fer ekkert á milli mála. Það á enginn að geta misst af þessu.

Svo er það þetta: Í fjárlögunum er verið að koma til móts við öryrkja. Það er verið að hækka frítekjumark upp í 200.000 kr. Að vísu er varnaglinn ekki komin í gegn þannig að enn þá er króna á móti 65 aurum skerðing og ýmislegt annað sem á eftir að breyta þannig að ef lögin fara í gegn eins og þau eru lögð fram núna þá bara vei, þá fá þau nánast ekkert fyrir þetta. Þá fá öryrkjar nánast ekkert fyrir sinn snúð því að mest af því verður tekið í formi skatta og skerðinga. Þannig að betur má ef duga skal og eins gott að þetta verði ekki látið fara í gegnum þingið nákvæmlega eins og það er í dag vegna þess að það er eins og með sálina hans Jóns míns, einu sinni í himnaríki komin og þá verður henni nú seint hent þaðan út aftur. Það er líka svolítið mikið þannig hér, ef löggjöf hefur farið í gegn þá verður ekki svo auðveldlega undið ofan af henni. Ég man t.d. eftir olíugjaldinu fræga sem var sett á sjómenn á sínum tíma til að reyna að koma til móts við útgerð sem á þeim tíma stóð frekar höllum fæti. Þetta var einhvern tímann seint á síðustu öld, hvorki meira né minna. Eins og ég benti á áðan er útgerðin sannarlega ekki á fallandi fæti, a.m.k. ekki stórútgerðin, ekki þeir sem eru að safna að sér nánast öllum kvótanum og halda að þeir eigi allan fiskinn í kringum landið. En svo einkennilegt sem það er þá er olíugjaldið enn þá á sjómönnunum. Þeir eru enn að borga olíugjald, þeir eru enn að borga umbúðagjald og þeir eru enn að borga 10% í nýsmíði á skipum. Samt sem áður tekur útgerðin 30% fram hjá skiptum strax áður en hún teygir restina upp í 100% og greiðir launin 29–32%.

Já, það er margt ef að er gáð sem þörf er á að ræða. Þessar 200.000 kr. sem ég var að nefna hér, sem á að færa frítekjumark öryrkja upp í, það er látið líta út fyrir hér á þessu háa Alþingi að þetta sé gert vegna þess að Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp séu búin að kalla svo mikið eftir þessu. Þá segi ég bara þetta, virðulegi forseti: Það er bull. Það er hreint og klárt bull. Þessu var komið á í tíð hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar eftir hrunið 2008, sem sagt 2009. Þá dúndruðu þeir á krónu á móti krónu skerðingum. Þeir lækkuðu grunnframfærsluna t.d. og settu 109.000 kr. frítekjumark sem hefur staðið æ síðan þrátt fyrir hróp og köll allra þeirra sem hafa sagt það sama og Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp, allar undirstofnanir, allt það sem heyrir undir regnhlífasamtök Öryrkjabandalagsins: Heyrðu, á ekki frítekjumarkið að fá að fylgja vísitölu eins og ævinlega er kallað eftir? Af hverju fær þetta ekki að fylgja vísitölu? Af hverju hækkar ekki frítekjumarkið? Hvers vegna er það búið að vera 109.000 kr. síðan 2009? Staðreyndin er sú að Flokkur fólksins, alveg frá því að við urðum til á Alþingi Íslendinga, hefur hrópað á það að rjúfa fátæktargildruna og gefa fólki kost á að hjálpa sér sjálfu, gefa fólki kost á að bjarga sér. En hvað er gert? Því er refsað. Ef það reynir að bjarga sér þá er því refsað. Það eru skerðingar, keðjuverkandi skerðingar. Það er skert út í félagslega kerfið, húsaleigubæturnar, allt heila klabbið, vegna þess að þetta er svo ótrúlega lélega samansett. Og það er sagt núna: Já, þess vegna verður að gera heildstæða endurskoðun á kerfinu. Þess vegna verðum við að fara í heildstæða skoðun á þessu öllu saman hreint, við erum að bíða eftir því: Bíddu í bílnum, vinur, á meðan mamma skreppur í búðina. Staðreyndin er einfaldlega sú að hin eiginlega endurskoðun felur það aðallega í sér að þröngva hinu svokallaða starfsgetumati ofan í kokið á öryrkjum. Frábært. Það væri ekkert að því að vera með starfsgetumat ef stjórnvöld létu fjármagn fylgja því þannig að það væri næsta víst að ef öryrki væri metinn hæfur eða bær til þess að vinna 30%, 40%, 50% þá a.m.k. fengi hann vinnu á móti upp á 30%, 40% 50%. Það er ekki hægt með einu pennastriki að ætla bara að taka af honum þessa líka rausnarlegu upphæð sem hann fær greitt frá Tryggingastofnun sem ekki nokkur einasti maður getur lifað sómasamlega af. Það er ekki nóg að segja: Heyrðu, vinur, þú getur alveg unnið, þú getur alveg unnið 40% vinnu, en veistu, það er bara enga vinnu að hafa fyrir þig og það vill enginn ráða þig í vinnu og okkur er bara alveg sama og svona ætlum við að hafa það. Öryrkjabandalagið segir ekkert um okkur án okkar og þau hafa fengið ákúrur fyrir að hafa gengið út á sínum tíma, 2017, þegar átti einmitt að þröngva þessu starfsgetumati í gegn. Þau sögðu stopp og húrra fyrir þeim. Ég segi ekkert annað en það, húrra fyrir þeim. Þau a.m.k. stóðu á bak við hópinn sem þau voru málsvarar fyrir og voru að vinna fyrir. Það er algerlega öruggt mál.

Tölum um forgangsröðun fjármuna. Hvernig í veröldinni á maður nokkurn tíma að geta skilið að það virðist vera í lagi að kasta milljörðum á milljarða ofan í alls konar flottræfilshátt á meðan fátækt fólk er enn þá hér hálf sveltandi úti í samfélaginu? En OECD, takið eftir, segir að við séum að skora hátt, það sé svo mikill jöfnuður á Íslandi. Að meðaltali höfum við það svo gott. Að sjálfsögðu kæmi þokkalegt ágætismeðaltal út úr mér, öryrkjanum á ofurlaunum, og hinum sem eru að fá berstrípaðar greiðslur frá Tryggingastofnun. Þegar upp er staðið og deilt með tveimur væri það bara ágætismeðaltal, ekki satt? Alveg eins og hv. þm. Ásthildur Lóa hefur svo gjarnan sagt: Ef þú stendur með annan fótinn í sjóðandi heitu vatni og hinn í ísköldu þá hlýtur þú að meðaltali að hafa það rosalega gott, ekki satt? Ég gef því lítið fyrir þessi meðaltöl. Ég gef lítið fyrir það að ætla að segja við fólk sem nær engan veginn endum saman: Farðu bara út í búð þótt þú eigir engan pening í veskinu og segðu að vegna þess að stjórnvöld segi það að hér sé að meðaltali allt svo frábært sértu með fulla vasa af meðaltali og ætlir að kaupa fyrir það nokkra kjötbita, takk, og ætlir að borga fyrir það með meðaltölum. Nei, það gengur ekki upp. Það hljóta allir að sjá það. Þess vegna er bara ömurlegt hvernig þetta er matreitt hérna sýknt og heilagt, ömurlegt hvernig þeir reyna að sveifla heilu og hálfu fötunum fullum af ryki og reyna að gusa í augun á fólki og jafnvel telja fólki trú um það sem nær ekki endum saman að það hafi hafið það jú frábært. Hvað ert þú að kvarta? Þú veist að þú hefur það frábært. Það er allt í lagi þótt þú eigir ekki krónu frá sjöunda degi mánaðarins, hvaða máli skiptir það? Við segjum að þú hafir það frábært.

Nú erum við að sjá það nýjasta sem var að koma frá Ölmu leigufélagi sem var keypt af vel stöndugum systkinum í fyrra fyrir 11 milljarða kr., leigufélagi sem hefur hagnast gífurlega en sendir skilaboð á báða bóga: Kæri leigutaki minn, nú ætla ég að hækka leigunni þína. Ég er með sögu allnokkurra sem hafa fengið bréf frá Ölmu leigufélagi. Ein kona sem þarf að fara segist ekki geta þetta meir. Hún er að greiða 250.000 kr. á mánuði. Ætlar þú að framlengja leiguna? Við þurfum að vera búin að fá svar hjá þér 1. janúar 2023 vegna þess að leigusamningur rennur út 1. febrúar 2023 og við ætlum að hækka leigunni þína um 75.000 kr., hvorki meira né minna, á mánuði, bara um 30%, rétt sisvona, úr 250.000 kr. í 325.000 kr. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, með alla þessa fjármálasnillinga hér, hvernig stendur á því í veröldinni að ekki hefur verið sett þak á leiguverð hérna? Ég er að horfa á hvernig það er á Spáni. Meira að segja Spánverjar eru búnir að lækka bensínlítrann niður í eina evru. Þeir eru búnir að setja þak á leigu, ekki má hækka leiguna meira árið 2023 en um 3%. Af hverju skyldu þeir gera það? Á sama tíma gæti þessari ríkisstjórn ekki verið meira sama. Hún er ekkert að skipta sér af þessu. Þetta má fara upp úr öllum rjáfrum þess vegna, nei, við hækkun bara brennivínið og sígaretturnar og allt þetta dót 1. janúar eins og venjulega vitandi það að það fer beinustu leið út í verðlagið og mun í rauninni ekki gera neitt annað en valda þrýstingi upp á við hvað lýtur að verðbólgunni. Þetta er nú snilldin. Þetta er snilldin, virðulegi forseti. Það er löngu, löngu orðið tímabært að viðurkenna það að þrátt fyrir að vera talin með einum ríkustu samfélögunum og vera ein ríkasta þjóð í heimi þá eru ekki allir sem fá að taka þátt og það eru ekki allir sem hafa það gott, þeir hafa það ekki einu sinni þokkalegt. Þetta fólk er ekki að biðja um einhver ægileg lífsgæði. Það er ekki að biðja um að liggja á Tenerife. Það er ekki að biðja um nýja rafmagnsbíl því að það mun aldrei geta keypt hann í öllum þessum orkuskiptum. Það er bara að biðja um fæði, klæði, húsnæði. Það er bara að biðja um að geta veitt börnunum sínum það að vera ekki út undan í skólanum, að geta verið í eins fallegum fötum og allir hinir, að vera ekki í of litlum fötum, að bróðirinn þurfi ekki að taka við buxunum af systur sinni og öfugt, að þurfa ekki að byggja undir það að hugsanlega verði þessum litlu einstaklingum strítt í skólanum bara af því að þeir eiga bágt.

Virðulegi forseti. Ég segi: Hvernig væri nú í stað þess að reyna að kaupa hér í „snobbhill“ og mublera upp einhverjar ríkisstofnanir að taka utan um fólkið fyrst og svo allt hitt? Hvernig væri að viðurkenna það að hér er verið að skattleggja fátækt? Um leið og einstaklingurinn er kominn vel yfir 150.000 kr. er hann skattlagður fullum fetum. Hvernig væri að viðurkenna að það kostaði ríkissjóð yfir 20 milljarða að koma með þriðja skattþrepið sem er sungið hér um að sé að nýtast þeim tekjulægstu best? Það er bara ósatt. Það nýtist þeim tekjulægstu nákvæmlega eins og þeim tekjuhæstu. Ég fæ að nýta mér lægsta skattþrepið nákvæmlega eins og fátækasta fólkið í landinu. Hvernig stendur á því að við erum að skattleggja sárafátækt? Einu sinni talaði ég við mjög elskulegan Sjálfstæðismann sem sagði: Gerðu þér grein fyrir því, Inga Sæland, að þetta fólk vill að leggja sitt af mörkum til samfélagsins þótt það sé fátækt. Það vill fá að taka þátt í því að borga skatta og annað slíkt til samfélagsins. Ég ætla að leyfa mér að draga ekki bara allt í efa hvað þetta varðar heldur ætla ég að leyfa mér að fullyrða að þetta er alrangt. Ég hef sjálf staðið í þessum sporum. Það veit hamingjan sanna að frekar hefði ég viljað geta gefið börnunum mínum að borða og nýja skó heldur en að vera skattlögð í minni sáru fátækt. Það verður líka að forgangsraða eftir efnahag fólks. Þegar ríkisstjórn kýs að halda fólki í þessari fátæktargildru verður hún að viðurkenna það og vera ekki að skattleggja það í ofanálag.

Þessi fjárlög sem hér er um rætt eru að hækka t.d. styrki til þróunaraðstoðar um 25,6%, til fólks sem á bágt, fólks sem er á flótta, fólks sem er í stríði. Þar erum við með hjarta úr gulli. Við leggjum í rauninni meira til en margar aðrar þjóðir sem eru mun fjölmennari en við. Þegar ég heimsótti Sameinuðu þjóðirnar á sínum tíma fékk ég að heyra að það væri virkilega tekið eftir litla fallega landinu okkar og hvernig fallegt hjarta þess slægi fyrir alla þá sem ættu bágt og þyrftu á hjálp að halda. Því segi ég þetta: Hvers vegna slær ekki hjarta okkar líka hér heima fyrir alla þá sem þurfa á hjálp okkar að halda? Það er alltaf sagt að það sé nóg til og ekki eigi að vera að etja neinu saman. Ef það er nóg til, af hverju er þá fjármunum forgangsraðað eins og raun ber vitni? Af hverju er verið að hafna breytingartillögum þar sem er óskað eftir hjálp til fólks sem býr við sárafátækt? Mér er algerlega fyrirmunað að skilja þetta. Hér er ég fimmta árið mitt á þingi og hér er ég búin að hrópa hvert einasta ár, m.a. um að leyfa öryrkjum að fara út að vinna skerðingarlaust í tvö ár, rjúfa fátæktargildru þeirra og gefa þeim kost á því að fara að vinna í tvö ár án þess að skerða almannatryggingagreiðslurnar. Þau munu borga skatta og þau munu eyða meiri peningum sem kemur þá í hringrásarkerfin okkar beinustu leið, aftur inn í ríkissjóð, og í rauninni mun skatturinn sem þau eru að greiða og það sem fer af viðbótarlaunum þeirra í ríkissjóð í gegnum virðisaukann hreinlega borga greiðsluna sem almannatryggingarnar eru að greiða þeim. Þetta er eingöngu sagt vegna þess að við höfum upplýsingar, skýrslur og gögn frá öðrum þjóðum sem hafa einmitt gert þetta, gefið þeim öryrkjum sem raunverulega treysta sér til tækifæri til þess að fara út að vinna, gefið þeim ákveðinn aðlögunartíma. Ef þau treysta sér svo ekki til þess, af því að hugurinn ber okkur oft lengra en heilsa okkar leyfir, vilji okkar er oft mun meiri og öflugri en getan, það breytti ekki þeirri staðreynd t.d. í Svíþjóð að 32% þeirra sem reyndu fyrir sér á vinnumarkaði skiluðu sér ekki aftur inn á bótakerfið og þar af leiðandi voru farin af því, hvorki meira né minna, farin af því, búið. Hérna er það þannig að ef þú reynir fyrir þær á vinnumarkaði og gefst upp eftir tvær vikur, þrjár vikur, hvað sem er, þá ertu einfaldlega dottinn út úr kerfinu. Þú þarft að byrja allt saman upp á nýtt.

Þessi tillaga sem við vorum með — þegar maður heyrir umræðuna núna í þinginu þá tel ég og trúi því að dropinn holi steininn. Ég trúi því af öllu hjarta að það sé ástæðan fyrir því að það er verið að reyna að líta pínulítið út fyrir rammann, þessi hækkun á frítekjumarki upp í 200.000. Ég vona líka af öllu hjarta að það eigi eftir að útfæra hana það vel að hún eigi ekki eftir að nánast refsa fólki fyrir að fá að nýta sér það. Þessi upphæð ætti að vera rétt um 250.000 kr. ef hún fengi að fylgja vísitölu frá 2009. Jú, þetta er skref í rétta átt, en staðreyndin er sú að ef þessi leið væri farin, að gefa öryrkjum kost á því að vinna í X tíma — við erum reyndar með það í tvö ár í frumvarpinu okkar, Flokkur fólksins, að gefa þeim tækifæri í tvö ár vegna þess að það er líka vitað að stór hluti af þeim sem eru með skerta starfsgetu er andlega veikur, er þunglyndur, er að koma úr fíkn og alls konar, búinn að ganga í gegnum þetta kerfi mörgum sinnum, hefur reynt fyrir sér, reynt að ná baka en fallið vegna þess að það er ekkert sem tekur við þessu fólki þegar það kemur út í samfélagið aftur, ekki neitt, ekkert öryggi, ekki neitt. Það kemur fullt af bjartsýni, fullt af vilja og langar svo að vera til. En það eina sem bíður þeirra oft og tíðum eru vonbrigði og vonleysi vegna þess að þessi sjúkdómur, fíknisjúkdómurinn í þessu tilviki, hefur aldrei verið almennilega viðurkenndur sem sjúkdómur, því miður. Einstaklingur sem er t.d. í eftirmeðferð eftir að hann hefur verið á sjúkrahúsinu Vogi er sagt að hann eigi ekki að fá neinar félagsbætur lengur. Hann á helst ekki að fá neinar greiðslur frá Tryggingastofnun lengur. Hann er þarna í fæði og húsnæði og þarf þetta því ekki lengur. Skilaboðin eru sem sagt, eins og til fólks sem liggur inni á spítala í þrjá mánuði plús: Heyrðu, þú hefur bara ekki átt neitt líf áður en þú komst hingað, sennilega hefur þú ekki verið að borga leigu, sennilega hefur þú ekki verið að borga fyrir vatn eða rafmagn eða neitt þannig að við tökum bara af þér alla peningana. Takk fyrir. Punktur, basta. Hvers lags eiginlega rugl er þetta? Það þarf alla vega skarpari heila en minn til að skilja þetta, það er nokkuð ljóst. Ég botna hvorki upp né niður í þessu.

Ég tel að við getum gert þúsund sinnum betur. Það þarf ekki einn einasti einstaklingur hér á landi að búa í fátækt, ekki einn. Við erum hér að deila út á annað þúsund milljörðum í þessum fjárlögum, vel yfir 1.000 milljörðum, að hugsa sér. Maður er að biðja hér um baunir til að rétta hjálparhönd til bágstaddra og svarið er nei. Senn líður að jólum og ég legg aftur þessa breytingartillögu fram, eins og ég sagði. Ég þarf að breyta henni um einhverjar krónur til að geta komið henni aftur inn í þingið því að ekki má hún hljóma alveg eins. Ég er að vona að það verði skipt um skoðun. Ég virkilega vona að það verði skipt um skoðun. Það er bara eitt tækifæri enn og það er við 3. umr. fjáraukalaga, þriðju og síðustu umræðu.

Ég vil líka nota tækifærið og segja hér við þá öryrkja sem eru að senda endalausa pósta og spyrja: Fáum við þessa desemberuppbót, Tryggingastofnun segir að það sé ekki búið að ganga frá þessu? Það er búið að samþykkja þessa desemberuppbót, 60.300 kr. eingreiðsla í desember, skatta- og skerðingarlaus. Það er búið að samþykkja hana en þetta verður að ganga í gegnum þetta eðlilega form eins og annað á Alþingi. Það er ekki nóg að við fylgjum bara efninu, sem eru 60.300, við verðum líka að fylgja forminu. Það eru þrjár umræður sem þarf að fara með í gegnum þingið. Lokaafgreiðslan er eftir, 3. umr. er eftir og lokaatkvæðagreiðsla. Þegar því líkur, sem verður innan skamms, er ekkert að vanbúnaði að greiða út þessa fjármuni. Þannig að við ykkur, elsku öryrkjar, segi ég: Þið fáið þessa greiðslu í desember. Ég get ekki sagt hvenær. Allir eru að spyrja: Hvaða dag? Hvenær kemur þetta fé? Ég veit að neyðin er mikil en þetta kemur. Auðvitað er aldrei gott að segja: Bíddu bara, þetta kemur. Og það er líka leiðinlegt að geta ekki sagt hvenær það er en það verður og ég vona svo sannarlega að það gerist fyrir jólin þannig að það sé hægt að nýta þessa fjármuni þá.

Forgangsröðum fjármunum fyrir fólkið fyrst, svo allt hitt. Kjörorð Flokks fólksins. Fjárfestum í mannauðinum, alltaf fólkið fyrst. Gefum öllum færi á að taka þátt í samfélaginu. Verum góð við hvert annað og við skulum aldrei gleyma því að kærleikurinn kostar ekki neitt.