Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:39]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Reykv. s., Ingu Sæland, fyrir góða ræðu. Ég held að hv. þingmaður hafi verið með eina skemmtilegustu ræðuna undir þessum lið, í fjárlögum, af því að þetta er ekki beint mitt sérsvið.

Hv. þm. Inga Sæland kom inn á marga góða og mikilvæga punkta, m.a. sjávarútvegskerfið. Ég ætla að fá taka undir þar. Almannatryggingakerfið — þar ætla ég líka að taka undir. Hvað varðar fólk sem glímir við fíknisjúkdóm og fær ekki viðeigandi aðstoð, hjálp og til að mynda endurhæfingu, þá ætla ég líka að fá að taka undir það. En mig langar að spyrja hv. þm. Ingu Sæland út í endurskoðun á almannatryggingakerfinu eða þessi frumvörp sem eru núna til meðferðar hjá þinginu. Það er sem sagt hækkun frítekjumarks á atvinnutekjum öryrkja og svo endurhæfingarlífeyri hjá öryrkjum og svo varðandi eingreiðsluna, þessa desemberuppbót sem hv. þingmaður kom inn á hér rétt í þessu: Finnst hv. þingmanni mega ganga lengra í þessum efnum? Er eitthvað sem hæstv. ríkisstjórnin hefði getað sett í fjárlögin til að koma því strax í gegn til að þetta yrði skilvirkt fyrir næsta ár og þetta yrði þá bara fastur liður í fjárlögum? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að það megi ganga lengra í þessari endurskoðun á almannatryggingakerfinu?