Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hjartanlega fyrir andsvarið. Ég fjallaði ágætlega um frítekjumarkið, 200.000 kr., þar sem verður að gera mun betur og miklu betur ef það á að virka eins og ég held að ætlunin sé að það geri. Þar nefndi ég líka að ég vil einfaldlega ganga það miklu lengra að ég vil gefa öryrkjum kost á að vinna í tvö ár og sjá hvort þau treysti sér til þess einfaldlega að fara út af þessu kerfi þá og taka sitt eigið líf í fangið í kjölfarið. Hvað lýtur að desemberuppbótinni þá kom Guðmundur Ingi Kristinsson, minn góði þingflokksformaður Flokks fólksins, með þá hugmynd hreinlega að greiða 13. mánuðinn. Það sem við þurfum að gera, Flokkur fólksins hefur mælt fyrir 400.000 kr. lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingarlaust. Það er lágmark að sú framfærsla sé fyrir fólk til að það geti lifað. Þannig að já, við viljum að sjálfsögðu ganga miklu lengra. Það á ekki að þurfa að vera með einhverja jólabónusa og einhverjar jólagjafir í desember til að fólk geti átt mat á diskinn og verið með pínulitla tilbreytingu í lífinu í desember. Það á einfaldlega að tryggja þeim lágmarksframfærslu þannig að það geti lifað.

Það var spurt um eitthvað þrennt en ég er búin að að gleyma því þriðja. (LenK: Endurhæfingarlífeyrir.) Í sambandi við endurhæfingarlífeyrinn er mjög athyglisvert að, eins og ég segi, ef það er búið að endurhæfa einstakling í þrjú ár er löngu komið í ljós hvort hann er bær til þess að fara út á vinnumarkaðinn eða ekki. Það er eingöngu verið að lengja í þessum endurhæfingarlífeyri til fimm ára til að reyna að koma í veg fyrir það með öllum mögulegum ráðum að viðkomandi einstaklingur, sem greinilega er óvinnufær eftir þriggja ára starfsreynslu, fari á örorkubætur, að hann verði öryrki. Það er einfaldlega það. (Forseti hringir.) Þannig að já, hv. þingmaður, ég myndi gera þetta allt öðruvísi, það er nokkuð ljóst.